Um daginn sá ég fyrirsögn í dagblaði þar sem stóð: Það er barist um Ísland. Vísað var til þeirra ólíku sjónarmiða er eru uppi um verndun eða nýtingu íslenskrar náttúru.

Mér fannst þetta dálítið skondin fyrirsögn, þar sem sé verið að berjast er sú barátta afar ójöfn. Virkjana- og iðnaðargeirinn er með fullt af starfsfólki sem hann greiðir milljónir á mánuði fyrir að koma virkjanaframkvæmdum áleiðis. Lögmönnum er greitt fyrir að hrella landeigendur og taka jarðir þeirra eignarnámi, starfsmönnum er greitt fyrir að aka austur í sveitir og skoða jarðir er hentugt væri að kaupa. Undirbúningur er í fullum gangi á verkfræðistofunum og svona mætti lengi telja.

Á meðan er barist!  Við sem erum hinum megin við línuna, þ.e. styðjum náttúruvernd berjumst, það er rétt, ... en við fáum ekkert borgað fyrir það. Við höfum almennt ekki ráð á lögfræðingum eða starfsmönnum í fullu starfi, við mótmælum í okkar frítíma, skrifum mótmælabréf á kvöldin og næturnar, sem eru send upp í ráðuneyti, þar sem þau falla sennilega flest dauð niður, og eru sett ofan í skúffu.

Stundum göngum við niður Laugaveginn, niður á Austurvöll og sýnum samstöðu, og reyndar þurfum við að gera slíkt oftar. Því sýnileg en friðsöm mótmæli eru mun áhrifaríkari en máttlaus bréf.

Þetta er því mjög ójafn bardagi og verður það áfram, nema að þeir sem hingað til hafa setið með hendur í skauti og gert ekki neitt, fari að láta til sín taka. Já ég vil höfða til hins þögla meirihluta sem elskar náttúru Íslands og vill vernda hana til framtíðar, til að láta meira í sér heyra. Ég vil hvetja fólk til að skrifa greinar, ganga niður Laugaveginn, viðra skoðanir sínar almennt, rasa út á fésbók og taka þátt í starfi umhverfishreyfingarinnar á Íslandi. Því fleiri sem gerast virkir innan íslensku umhverfishreyfingarinnar, því meiri slagkraft hefur hún og því meira er hægt að gera. Við skulum starfa saman að því að efla umræðu og baráttu í umhverfisvernd á Íslandi.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Suðurlands

Birt:
18. september 2012
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Að berjast með penna að vopni“, Náttúran.is: 18. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/18/ad-berjast-med-penna-ad-vopni/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. nóvember 2014

Skilaboð: