Í dag var dagur náttúrunnar haldinn í annað sinn. Deginum var valinn afmælisdagur Ómars Ragnarssonar sem um áratugaskeið hefur kynnt náttúru og byggðir þessa lands fyrir sjónvarpsáhorfendum. Ómar starfaði á vegum sjónvarpsstöðvanna þangað til hann tók eindregna afstöðu með náttúru landsins. Þá var honum ekki sætt lengur í starfi. Þannig er með flesta sem hafa tekið þann pólinn í hæðina. Þeim er ekki sætt í embættum og störfum. Vilji menn halda embættum sínum og störfum er þeim hollast að þegja og halda skoðunum sínum leyndum á opinberum vettvangi. Eða taka pokann sinn.

Minnir mann á aðstæður fólks í myndaflokknum sem nú er á RÚV um líf fólks í Austur Þýskalandi fyrir sameiningu.

Það þarf enginn að segja upp starfi sínu eða missa embætti sem lýsir yfir velþóknun á eyðileggingu landsins og grótesk áforumum um virkjanir og raflagnir eða enn fleiri álver. Það er hinum eiginlegu valdhöfum þóknanlegt. Og er ekki kallað að taka afstöðu heldur skynsamlegt viðhorf. Jafnvel þótt kreista eigi síðustu strókana úr gufuhólfum sem eru að tæmast. Eða byggja álversgrind sem aldrei mun komast í notkun því orkan er ekki til. Ekki heldur þeir sem hafa selt orku sem ekki er til á verði sem stæði engan veginn undir kostnaði þótt orkan fyndist.

Þeir halda embættum og störfum.

Til að minna okkur, sem unnum íslenskri náttúru og viljum stíga varlega til jarðar, á hver það er sem ræður, hafa iðnjötnarnir valið daga sem okkur eru kærir  til að minna óþyrmilega á sig.

Í dag, á degi náttúrunnar, var á RÚV stutt frétt um afhendingar viðurkenninga á sviði náttúruverndar og fjölmiðlunar. Í kjölfar hennar kom svo löng frétt um drauma Landsvirkjunnar um nýtt lón við Kárahnjúka og nýja virkjun.

Eins var útfarardagur Guðmundar Páls Ólafssonar notaður til að kynna áform Landsnets um þverun hálendisins með línulögnum. Mastraskógi á stærsta ósnortna svæði Evrópu.

Þessar tímasetningar í tvígang eru tæplega tilviljun. Þær eru ögrun. Ögrun þeirra sem spila með tekjur þjóðarinnar sem sínar. Ögrun gagnvart hópi fólks sem notar sinn frítíma og sitt eigið blóð, sinn eiginn svita og sín eigin tár í baráttunni. Framlög til náttúruverndar í landinu eru skammarlega lítil og samtök berjast í bökkum með handfylli launaðra starfsmanna. Á meðan ríkisfyrirtækin nota miljónatugi í baráttu gegn þessum hópi baráttufólks.

En þótt hópurinn sem starfar að náttúruvernd virðist stundum lítill stendur að baki honum mikill hluti þjóðarinnar. 13.000 manns gegnu með Ómari niður Laugaveginn á sínum tíma. Enn fleiri haf lýst vilja sínum í skoðanakönnumum. Þrátt fyrir einhliða áróður Landsvirkjunnar og Landsnets sem kostaður er af almannafé.

Þetta takleysi af þeirra hálfu er óþarft. Sýnir bara eymdarlegt eðli og gefur til kynna að innst inni skammist þessir aðilar sín. Þessir aðilar sem velja þá daga sem náttúruverndarfólk hefur minnst fallinna félaga og heiðrar þá sem hafa staðið í eldlínunni.

Skammist ykkar segi ég. Kenndi mamma ykkar ykkur enga mannasiði?

Birt:
17. september 2012
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Taktleysi“, Náttúran.is: 17. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/17/taktleysi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: