Verðlaunahafar á Degi íslenskrar náttúru
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, veitti í dag í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, Rúnari Pálmasyni, blaðamanni á Morgunblaðinu, Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hún Hjörleifi Guttormssyni, Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.

Tilnefndir til Fjölmiðlaverðlaunanna voru:

  • Tímaritið Fuglar fyrir umfjöllun um fugla í náttúru Íslands.
  • Herdís Þorvaldsdóttir fyrir heimildamynd sína „Fjallkonan hrópar á vægð“ en hún fjallar um landeyðingu og afleiðingar ofbeitar sauðfjár hér á landi.
  • Rúnar Pálmason, blaðamaður á Morgunblaðinu, fyrir ítarlega umfjöllun um akstur utan vega.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Rúnar Pálmason blaðamaður á Morgunblaðinu hlýtur Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir umfjöllun sína um akstur utan vega og umgengni við náttúru Íslands. Með skrifum sínum hefur hann vakið athygli á skemmdum sem unnar hafa verið með utanvegaakstri víða um landið, bæði á hálendi Íslands og á láglendi. Má þar nefna ítrekaða umfjöllun um utanvegaakstur í Reykjanesfólkvangi og á hálendinu norðan Vatnajökuls; hann hefur fjallað um skemmdir sem unnar hafa verið með torfæruakstri á fjöllum og útivistarsvæðum í nágrenni Reykjavíkur, á láglendi sunnanlands og víðar.
Rúnar hefur verið einkar fylginn sér í umfjöllun sinni en skrif hans má rekja a.m.k. aftur til ársins 2004.

Með reglubundnum hætti hefur hann krafið stjórnvöld og ólíka hagsmunaaðila svara, gengið á eftir svörum varðandi gerð hálendiskorts og viðrað ólík sjónarmið um útgáfu einkaaðila á kortum og kortagrunnum. Umfjöllun hans einkennist af hlutleysi og jafnvægi þar sem ólík sjónarmið koma fram. Hann byggir skrif sín m.a. á viðtölum við landeigendur, jeppafólk, veiðimenn, ferðaþjónustuaðila og fulltrúa umhverfis- og ferðafélaga og leitar jafnan eftir viðbrögðum sveitarstjórnarfólks og fulltrúar stjórnvalda. Myndefnið með skrifum Rúnars kemur víða að og er sláandi vitnisburður um hvernig akstur vélknúinna ökutækja og óvarleg umgengni getur spillt náttúru landsins.

Hjörleifur Guttormsson hefur um áratuga skeið barist fyrir verndun náttúru Íslands. Hann átti frumkvæði að stofnun Náttúruverndarsamtaka Austurlands og var þar formaður um níu ára skeið. Hjörleifur hefur átt beina aðkomu að stofnun og þróun margra helstu þjóðgarða landsins og var m.a. hvatamaður að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann beitti sér með ýmsum hætti í þágu náttúruverndar sem þingmaður og m.a. á rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða rætur í þingsályktunartillögu hans. Hjörleifur hefur einnig látið til sín taka í umhverfis- og náttúruverndarmálum á alþjóðavettvangi og verið fulltrúi á helstu ráðstefnum um umhverfismál sem efnt hefur verið til á alþjóðavísu á undanförnum 40 árum.
Loks er Hjörleifur Guttormsson höfundur fjölmargra bóka og greina um umhverfismál og íslenska náttúru. M.a. skrifaði hann sex árbækur Ferðafélags Íslands þar sem fjallað er um austanvert landið, bókina „Hallormsstaður í Skógum“  sem kom út árið 2005 og „Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð“ sem kom út í fyrra.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar Rúnari Pálmasyni og Hjörleifi Guttormssyni innilega til hamingju.

Ljósmyndir: Efst; afmælisbarn dagsins, Ómar Ragnarsson, næstefst, Rúnar Pálmason tekur við fjölmiðlaverðlaununum, í miðið; Jarðarberið, fjölmiðlaverðlaunagripurinn. Næstneðs; Hjörleifur Guttormsson, handafi náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti, neðst; verðlaunskjal viðurkenningarinnar. Ljósm. Einar Bergmundur.

Birt:
16. september 2012
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Umhverfisviðurkenningar á degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 16. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/16/umhverfisvidurkenningar-degi-islenskrar-natturu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: