Til hamingju á degi íslenskrar náttúru
Í dag er haldið upp á Dag íslenskrar náttúru í annað sinn en þ. 16. september árið 2010 ákvað ríkisstjórnin a helga náttúrunni einn dag árlega og var afmælisdagur eins skeleggasta baráttumanns fyrir verndun íslenskrar náttúru, Ómars Ragnarssonar, fyrir valinu (sjá frétt). Deginum verður fagnað á margvíslegan hátt um allt land og er dagskráin sem hér segir:
Allt landið
- 10:03 Rás 1 Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir les veðurfréttir frá Veðurstofu Íslands.
- 11:00 Rás 1 Íslenskri náttúru verður gert hátt undir höfði í messu sem útvarpað er frá Áskirkju. Sr. Sigurður Jónsson þjónar fyrir altari.
Vesturland
-
13:00 - 17:00 Akranes Stóri vitinn á Breið verður opinn fyrir gesti og gangandi. Listaverk barna á leikskólaaldri verða til sýnis í vitanum, þemað er íslensk náttúra.
-
13:00 Akranes Akraneskaupstaður stendur fyrir gönguferð frá Sólmundarhöfða að Breið með leiðsögn fyrir alla fjölskylduna þar sem fjaran, fjallið, og fólkið að fornu og nýju verður í forgrunni. Skipst verður á sögum og Skaginn skoðaður út frá sjónarhóli bæði ferða- og heimamannsins. Göngufólk getur síðan endað ferðina á því að kíkja upp í stóra vitann á Breiðinni. Lagt af stað frá Sólmundarhöfða klukkan 13:00. Áætlað er að gangan taki um 1,5 - 2 klst. Um leiðsögn sér Vilborg Þ. Guðbjartsdóttir.
- 14:00 Snæfellsnes Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull býður í gönguferð um Hólastíginn frá Móðulæk að Saxhól. Leiðsögumaður er Sæmundur Kristjánsson sem mun fræða gesti um þessa gömlu þjóðleið og hvernig samgöngur undir jökli hafa þróast í áranna rás. Brottför er frá bílastæðinu við gíginn Saxhól. Gangan er um 2 klst. og er öllum opin þeim að kostnaðarlausu.
- Snæfellsnes Framkvæmdaráð Snæfellsness sem stendur fyrir umhverfisvottun Snæfellsness mun formlega opna nýja heimasíðu sína, http://www.nesvottun.is/ á Degi íslenskrar náttúru.
Vestfirðir
- 10:00 – 18:00 Súðavík Opið er í Melrakkasetri og aðgangur ókeypis á fræðslusýninguna um íslenska refinn í tilefni af Degi íslenskrar náttúru. Leiðsögn á þýsku, íslensku og ensku. Náttúrumynd sem gerð var í samstarfi við Þýska sjónvarpið þar sem refafjölskyldu er fylgt eftir í eitt ár verður rúllandi allan daginn upp á lofti. Rebbakaffi verður opið. Sjá http://www.melrakki.is/.
Norðausturland
- 14. september Akureyri Í Glerárskóla verður grænfánahátíð föstudaginn 14. september en þá tekur skólinn við grænfánanum í þriðja sinn. Ákveðið var að velja þennan dag og minnast um leið Dags íslenskrar náttúru.
- 14:00 - 16:00 Akureyri Náttúrufræðistofnun Íslands býður upp á náttúrugripagreiningu að Borgum við Norðurslóð á Akureyri. Almenningi gefst þá kostur á að fá sérfræðinga í sveppum, íslenskum plöntum, fléttum, fuglum og steinum til að greina fyrir sig náttúrugripi. Starfsmenn munu einnig kynna starfsemi stofnunarinnar. Sjá nánar staðsetningu.
- 17:00 Eyjafjarðarsveit Norðurlandsskógar bjóða til sveppagöngu. Gengið verður á Melgerðismelum undir leiðsögn Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings sem leiðbeinir um sveppi og sveppatínslu. Fólk er hvatt til að hafa með sér hnífa og körfur. Starfsmenn Norðurlandsskóga fjalla um skógrækt og bjóða þátttakendum upp á ketilkaffi að hætti skógarfólks að göngu lokinni. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar er að finna á http://www.nls.is/.
- 19. september Raufarhöfn Krakkarnir í Grunnskólanum á Raufarhöfn ætla að taka upp kartöflur í tilefni Dags íslenskrar náttúru.
Austurland
-
13. september Neskaupsstaður Nemendur á fyrsta ári í "Hárinu" í Verkmenntaskóla Austurlands brugðu á leik í tilefni af degi íslenskrar náttúru. Þótt fáar plöntur skarti sínu fegursta nú á haustdögum tókst þeim á smekklegan hátt að tengja náttúruna við iðn sína og sama var um margar aðrar greinar í skólanum. Sjá myndir.
-
11:00 Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað Fjölskylduganga á Grænafell í samstarfi ÚÍA, Fjarðabyggðar, Fljótsdalshéraðs og Náttúrustofu Austurlands. Gengið verður upp beggja vegna fellsins og hittast hóparnir á toppnum. Fjarðamenn hittast við Grænafellsvöll og ganga á tindinn undir leiðsögn Þórodds Helgasonar fræðslustjóra Fjarðabyggðar. Héraðsmenn ganga af stað frá bílastæðinu við fellið Fagradalsmegin (merkt með gönguskilti) undir leiðsögn Skarphéðins G. Þórissonar sérfræðings Náttúrustofunnar. Nánari upplýsingar.
- 13:00 – 17:00 Neskaupstaður Í tilefni Dags íslenskrar náttúru verður Náttúrugripasafnið í Neskaupstað opið. Safnið er til húsa að Egilsbraut 2. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
- 14:00 Snæfellsstofa á Skriðuklaustri Hvernig veiða konur? Bera þær sig að með öðrum hætti en karlmenn? Velja þær bráðina með annað að leiðarljósi en hitt kynið? Eru konur öðruvísi veiðimenn en karlar? Konur sem stunda veiðar á hreindýrum og villtum fuglum á Austurlandi deila veiðisögum sínum og reynslu með gestum Snæfellsstofu, Skriðuklaustri í Fljótsdal. Heitt verður á könnunni og eru allir velkomnir. Nánari upplýsingar.
- Egilsstaðir Skógrækt ríkisins opnar verkefnabankann Lesið í skóginn á vef sínum http://www.skogur.is/. Lesið í skóginn er skólaþróunarverkefni sem rekið er í gagnvirku samstarfi skógræktaraðila og skólayfirvalda. Hugmyndin er að þekking og reynsla byggist upp meðal starfsmanna einstakra skóla í að nota skóginn í skólastarfi.
-
17.-21. septembember Austurland. Vatnajökulsþjóðgarður býður nemendum 5. bekkjar í grunnskólum á jaðri austursvæðis þjóðgarðsins, í alls 15 skólum allt frá Vopnafirði að Djúpavogi, að fá landvörð í heimsókn í tilefni af Degi íslenskrar náttúru.
Suðurland
- 11:00 – 17:00 Vestmannaeyjar, Surtseyjarstofa. Gestastofan verður opin og aðgangur ókeypis.
- 13:00 - 17:00 Gunnarsholt Sagnagarður, fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslu ríkisins verður opinn. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
- 16:00 Öræfi Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru og þess að 650 ár eru liðin frá gosinu mikla í Öræfajökli 1362 mun Ármann Höskuldsson, eldfjallfræðingur, fjalla um þessar miklu hamfarir í félagsheimili Öræfinga, Hofgarði. Fyrirlesturinn er á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs og hefst klukkan 16. Kaffiveitingar verða í boði og eru allir velkomnir. Æskilegt er að gestir tilkynni þátttöku á netfangið skaftafell@vjp.is eða í síma 470 8300 á milli kl. 9 og 19. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs.
Suðurnes
- Reykjanesskagi Blái herinn ætlar að fjarlægja bílflak sem er á Fagradalsfjalli. Þar með ná samtökin þeim merka áfanga að fjarlægja þúsundasta tonnið af rusli úr náttúru landsins.
- 19. september Grindavík Grunnskólabörn í Grunnskóla Grindavíkur vinna að gerð útilistaverks úr íslenskum plöntum sem sótt eru í náttúruna eins og blóðbergi, njóla, vallhumli, hvönn og fleiru. Verkin verða afhjúpuð miðvikudaginn 19. september kl. 9.15
Höfuðborgarsvæðið
- Heiðmörk Ratleikur Ferðafélags Íslands um eina helstu náttúruperlu höfuðborgarbúa. Hægt er að hefja ratleikinn hvenær sem er, einn þátttakandi eða fleiri. Leikurinn reynir á ratvísi, hugmyndaflug, skynjun og styrk þátttakenda. Lesa þarf í skýjafar, vindátt, plöntu- og trjátegundir, sólúr og sögulegan fróðleik ásamt því að leggjast í hengirúm. Ekið Rauðhólamegin inn í Heiðmörk, alltaf beint áfram (framhjá Furulundi) þar til komið er að bílastæði við spildu Ferðafélags Íslands. Þar í grennd er póstkassi þar sem nálgast má eintak af ratleiknum ásamt korti og skila lausnum á sama stað. Kort og nánari upplýsingar.
-
10:00 og 13:00 Straumsvík Félagið Hraunavinir í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, stendur fyrir hreinsunarátaki í hraununum sunnan og vestan Straumsvíkur. Ýmsir leggja hönd á plóg, fyrirtæki, skólanemar, sjálfboðaliðar og almenningur. Verkið hófst í fyrra á Degi íslenskrar náttúru og nú á að klára að hreinsa hraunin. Mæting er á gamla Keflavíkurveginum, sunnan núverandi Reykjanesbrautar, þar sem Lónakotsgata liggur yfir þjóðveginn og yfir á gamla veginn. Þeir árrisulu geta mætt kl. 10 en aðrir kl. 13. Ruslapokar og gámar verða á staðnum.
- 12:00 - 17:00 Vatnsmýrin Sýningin „Lífið í Vatnsmýrinni“ er opin í sýningarsal Norræna hússins. Í tengslum við hana er í boði ratleikur með spurningum og verkefnum fyrir alla fjölskylduna. Einnig er að finna vinnustofu með ýmsu föndri tengdu náttúrunni, ásamt möguleika á að rannsaka vatnið og umhverfið í rannsóknarhorni fyrir börnin. Aðgangur er ókeypis. Nánari upplýsingar, sjá einnig http://www.nordice.is/. Myndir frá sýningunni.
-
12:30 Reykjavík Tilkynnt um úrslit í ljósmyndasamkeppni um flottustu myndirnar frá friðlýstum svæðum á Íslandi sem Umhverfisstofnun stóð fyrir í sumar. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri stofnunarinnar veitir verðlaun fyrir þrjár bestu myndirnar. Verðalunaafhendingin fer fram í Kringlunni en 20 bestu myndirnar verða þar til sýnis til 23. september næstkomandi.
- 13:00 Garðabær Umhverfisnefnd Garðabæjar stendur fyrir fræðslugöngu undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings. Gengið verður frá Vífilsstöðum að Jónshellum við Paradísarlágar í Svínahrauni. Þaðan verður haldið að Atvinnubótaveginum í Garðahrauni og nýtt fræðsluskilti skoðað. Þá verður haldið til Hraunsholtslækjar og áfram að Vífilsstöðum þar sem hringnum verður lokað. Áætlað er að róleg gangan geti tekið u.þ.b. 2 tíma, með stoppum á áhugaverðum stöðum. Nánari upplýsingar verður að finna á http://www.gardabaer.is/
- 13:00 – 14:30 Reykjavík Degi íslenskrar náttúru verður fagnað í Grasagarðinum með grænum og vænum náttúruratleik og rathlaupi fyrir alla fjölskylduna. Lögð verður áhersla á umhverfisupplifun: Hvað sjáum við, heyrum og finnum í umhverfi okkar og náttúrunni þegar vel er að gáð? Einnig munu félagar í Rathlaupsfélaginu Heklu kynna rathlaup fyrir gestum. Nánari upplýsingar.
- 13:00 - 16:00 Keldnaholt Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands og Skógrækt ríkisins bjóða almenningi til útifræðslu um söfnun og sáningu birkifræs. Fræðslan fer fram við hús Landbúnaðarháskólans á Keldnaholti, 112 Reykjavík. Sjá nánar.
- 10:30 - 14:00 Höfuðborgarsvæðið Náttúruskóli Reykjavíkur, Landssamtök hjólreiðamanna, Landvernd, Hjólafærni á Íslandi, Fuglavernd og Framtíðarlandið efna til Hjólaævintýris á höfuðborgarsvæðinu. Hjólað verður frá þremur upphafsstöðum á milli vatnavinja þar sem áhugasamir fræðimenn segja frá náttúrufyrirbærum á svæðinu. Hjólaævintýrin hefjast kl. 10.30 og þeim lýkur í Elliðaárdalnum kl. 13:45 þar sem Reykjavíkurborg setur Evrópsku samgönguvikuna. Þaðan er haldið í Árbæjarsafn þar sem umhverfis- og auðlindaráðherra stendur fyrir hátíðardagskrá kl. 14:00 í tilefni Dags íslenskrar náttúru. Ekki er nauðsynlegt að hjóla allan tímann heldur er hægt að koma inn í hjólalestina á mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu, sjá leiðarlýsingu og kort.
- 13:45 Reykjavík, Elliðarárdalur, við stífluna. Formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur setur Samgönguviku. Nánari upplýsingar á www.reykjavik.is/samgonguvika.
- 14:00 Reykjavík Hátíðarsamkoma umhverfis- og auðlindaráðherra á Árbæjarsafni. Afhending fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti. Dagskrá samkomunnar.
- 14:00 Reykjavík Nýjustu fréttir af kúluskít - Árni Einarsson forstöðumaður RAMÝ flytur fyrirlestur undir yfirskriftinni "Nýjustu fréttir af kúluskít". Erindið verður flutt í stofu 101 á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Allir velkomnir.
- 14:00 – 16:00 Reykjavík Afmælishátíð Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands sem stofnuð var formlega á Degi íslenskrar náttúru 16. september 2011. Sérfræðingar á sviði náttúru og umhverfis fjalla um áhrif loftslagsbreytinga, í stofu 132 í Öskju. Fundarstjóri er Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor. Sjá dagskrá.
- 14:00 - 16:00 Garðabær Náttúrufræðistofnun Íslands býður upp á náttúrugripagreiningu að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ. Almenningi gefst þá kostur á að fá sérfræðinga stofnunarinnar til að greina fyrir sig náttúrugripi. Sérfræðingar í steinum, steingervingum, íslenskum plöntum, sjávardýrum, fuglum og villtum spendýrum taka á móti gestum í rúmgóðu anddyri Náttúrufræðistofnunar en húsið verður ekki opið að öðru leyti. Sjá nánar staðsetningu.
- 16:00 – 18:00 Reykjavík Herdís Þorvaldsdóttir náttúruunnandi stendur fyrir gjörningi í BíóParadís við Hverfisgötu undir yfirskriftinni „Klæðum Fjallkonuna skrúði úr íslenskri flóru“ þar sem unnið er með framtíðarsýn á náttúru landsins. Gestum og gangandi er boðið að taka þátt í að fylla kort af Íslandi með íslenskum jurtum sem eru á válista. Hver og einn getur valið sína mynd af jurt, skreytt hana og klippt út og komið henni svo fyrir hvar sem hann óskar helst á Íslandskortinu. Og smám saman með sameiginlegu átaki verður landið alsett íslenskum fallegum jurtum. Heitt kaffi og kakó á könnunni og með því í boði.
- 13. – 16. september, 18:00 Reykjavík Í tilefni af tilnefningu til Fjölmiðlaverðlauna Umhverfisráðuneytisins fyrir mynd sína Fjallkonan hrópar á vægð mun Herdís Þorvaldsdóttir standa fyrir sýningum á myndinni í BíóParadís fimmtudaginn 13. til sunnudagsins 16. september. Sýningarnar hefjast klukkan 18:00. Miðaverð 1000 krónur. Sjá nánar.
- 14. – 16. september Lækjarbotnar „Skáti er náttúruvinur!“ (4. gr. skátalaganna) Bandalag íslenskra skáta stendur fyrir leiðtoganámskeiði fyrir dróttskáta þar sem náttúran er í fyrirrúmi. Krakkarnir fræðast um útivist, útieldun og náttúruna enda gista þau í tjöldum og elda sinn mat sjálf útivið. Á sunnudeginum verður tekið þátt í Degi íslenskrar náttúru með því að gróðursetja plöntur og vinna að uppgræðslu á svæðinu. Nánari upplýsingar verður að finna á http://www.skatar.is/.
- 17. september Kópavogur 3.og 4. bekkingar í Kópavogsskóla hafa málað flottar myndir af íslenskri náttúru í tilefni af Degi íslenskrar náttúru. Mánudaginn 17.september verða verk þeirra kynnt innan skólans. Þá er deginum gert hátt undir höfði í Náttúrufræðitíðindum skólans.
-
17. september kl. 17:00 Mosfellsbær Nýtt fræðsluskilti verður vígt við friðlandið við Varmárósa í Mosfellsbæ. Á sama tíma verður handsalaður umsjónarsamningur milli Mosfellsbæjar, Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem dagleg umsjón svæðisins færist til Mosfellsbæjar. Friðlandið við Varmárósa var stofnsett árið 1980 með það að markmiði að vernda og viðhalda fitjasefi (Juncus gerardii) og búsvæði þess, en plantan er á válista og finnst aðeins á tveimur stöðum á landinu. Íbúar í Mosfellsbæ og aðrir áhugasamir eru velkomnir að vera viðstaddir vígsluna. Sjá mynd.
Ljósmynd: Öræfajökull, Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Til hamingju á degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 16. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/14/degi-islenskrar-natturu-fagnad-sunnudaginn-16-sept/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. september 2012
breytt: 16. september 2012