Rammaáætlun og ný náttúruverndarlög eru á forgangslista ríkisstjórnarinnar og verða að ná fram að ganga; Rammaáætlun tryggir vernd þeirra svæða sem eru í verndarflokki og frestar þeim sem eru í biðflokki, auk þess sem ný lög um náttúruvernd auðvelda okkur að berjast gegn óæskilegum virkjunum sem eru í nýtingarflokki. Þetta eru þau mál – stjórnvaldsákvarðanir – sem náttúruverndarhreyfingin getur haft áhrif á. Ekki endilega með því að breyta almenningsálitinu heldur með því að virkja það. Fá kjósendur til þess að minna á sig.

Við megum engan tíma missa því þetta þing er stutt og á þingi eru margir málþófsmenn.

Skoðanakannanir hafa sýnt að almenningur er hlynntur verndun náttúru landsins. Á hinn bóginn er mjög öflugur stuðningur við uppbyggingu stóriðju í einstökum sveitarfélögum. Auk þess hygla skipulagslögin stóriðjunni og takmarka lýðræði í landinu. Mun auðveldara er að hafa áhrif á gang mála á Alþingi en í héraði.

Forsíðufrétt Fréttablaðsins af væntanlegum álversframkvæmdum í Helguvík s.l. laugardag var til þess fallin að byggja undir kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins. Bæði VG og Sf taka ógjarnan harða afstöðu gegn þeim framkvæmdum af ótta við að tapa atkvæðum. Björgvin G. Sigurðsson og Ragnheiður Elín munu keppa um hvort þeirra er meiri stuðningsmaður álvers í Helguvík.

Ef eitthvað er að marka yfirlýsingar Landsvirkjunar þá hyggst fyrirtækið einbeita sér að virkjunum norðan lands næstu misserin. Ekki verður annað skilið en að forstjóri LV telji nóg að gert í sölu til álvera enda fáist betra verð fyrir orkuna hjá annars konar fyrirtækjum og nauðsynlegt sé að dreifa áhættunni. Þessi stefnumótun Landsvirkjunar kann að breytast að loknum kosningum á komandi vori; ný ríkisstjórn gæti skikkað Landsvirkjun til að selja orku til Helguvíkur á ‘viðunandi’ verði. Enn veit enginn hvar skuli virkja fyrir 400 þúsund tonna álver í Helguvík – eða sem samsvarar um það bil einni Kárahnjúkavirkjun – án þess að fara inn á friðlýst svæði.

Ólíkt því sem gerðist með Alcoa á Húsavík hefur Century Aluminum hiklaust beitt fyrir sig þingmönnum suðurkjördæmisins. Slík áróðursherferð gerir samningsstöðu orkufyrirtækja verri en ella, en stefna Sjálfstæðisflokksins er ekki að semja um hátt orkuverð heldur að skapa bólu fyrir byggingariðnaðinn.

Þrátt fyrir ríkan stuðning almennings við náttúruvernd er stærsti flokkur þjóðarinnar á sama þroskastigi í umhverfismálum og repúplikanar í Bandaríkjunum. Hið sama gildir um hluta Samfylkingarinnar. Innan VG er áberandi þjóðernishyggja og sú hreyfing virðist miklu uppteknari af hvernig megi stöðva aðildarviðræður við ESB en að ná fram grænum áherslum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Framsókn er sem eyðimörk í umhverfismálum. Guðmundur Steingrímsson og þingmenn Hreyfingarinnar hafa iðulega stutt náttúruverndarsjónarmið. Engu að síður verður að ætla að náttúruverndarsjónarmið njóti stuðnings meirihluta Alþingis.

Sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem oftast ræðir stóriðju- og umhverfismál, Jón Gunnarsson, er á því að leggja beri umhverfisráðuneytið niður og þess í stað hafa litla skrifstofu fyrir umhverfismál í þeim ráðuneytum sem um slík mál véla. Það er og stefna Samtaka atvinnulífsins. Þessi stefna er í anda Teboðshreyfingarinnar í Bandaríkjunum en hún á lítinn hljómgrunn meðal almennings á Íslandi.

Birt:
12. september 2012
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Teboð eða náttúruvernd?“, Náttúran.is: 12. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/12/tebod-eda-natturuvernd/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: