Heimsókn Victoríu Park til Íslands
Victoría Park horfir áhugasöm yfir grátt hraunið þegar flugvélin lendir. Nú er að rætast sá langþráði draumur hennar að koma til Íslands. Victoría er sérfræðingur í auðlindanýtingu, hefur lengi unnið hjá bandarísku þjóðgarðastofnuninni, NPS, en síðustu árin hjá Alþjóða náttúruverndarsamtökunum, IUCN. Hún er að koma til Íslands í vinnuferð. Það er ekki slæmt, hún elskar vinnuna sína. Hún vinnur hjá þeirri deild IUCN sem hefur með að gera skráningu friðlýstra svæða í heiminum, metur ástand þeirra og ráðleggur stjórnvöldum um stýringu til góðrar náttúruverndar. Lengi hefur verið þörf fyrir öfluga náttúruvernd í heiminum, aldrei sem nú. Á lista IUCN eru fjölmörg íslensk svæði. Íslendingar senda sjálfir inn lýsingu og mat á svæðunum til höfuðstöðvanna en annað slagið koma líka fulltrúar samtakanna til að taka svæðin út og meta þau og aðstæður í landinu til náttúruverndar.
Victoría hefur lesið sér heilmikið til um Ísland en hefur lítið fundið um skipulag náttúruverndar og stjórnun á því sviði. Það mun allt koma í ljós. Verklag fulltrúa IUCN er að fara í ferðir um það land sem þeir eru taka út, skoða verndarsvæðin eins og hver annar ferðamaður en fara síðan til stjórnenda með fyrirspurnir sínar, athugasemdir og ráðgjöf. Hún er með í fórum sínum ágætt kort frá íslenskum námsmanni, Sveini, sem hún hafði hitt fyrir tilviljun. Það sýnir mörg verndarsvæði á Íslandi. Hann hafði sagt henni að á kortinu væru friðlýst svæði en líka svæði sem nytu annars konar verndar ríkisins eða væru í eigu þess án beinnar nýtingar.
Victoría hlakkar til. Hún var í 10 ár þjóðgarðsvörður í Alaska. Hún hefði alveg viljað vera þar lengur en til að reyna að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra gilda þær reglur hjá NPS að þjóðgarðsverðir séu ekki lengur á sama stað. Svo að þeir eru færðir á milli garða. Hún var síðan þjóðgarðsvörður í víðáttum og eyðimörkum suðvestur Bandaríkjanna áður en hún fór að vinna hjá IUCN. Miðað við það sem hún hafði kynnt sér ætti Ísland bæði að minna á Alaska, með jökla og jökulfljót, hressandi svala og alls kyns veður, og líka á suðvestrið með eyðimörkum, söndum og víðáttum.
Ferð Victoríu Park um Vesturland
Morguninn eftir leggur Victoría af stað á öflugum jeppa sem hún hefur leigt til ferðarinnar. Hér verður sagt frá ferð hennar en þó ekki rakið hvar hún gistir og borðar þótt um þann þátt ferðarinn megi ýmislegt fjalla. Victoría byrjar vestast, ekur á Snæfellsnes og skoðar þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Lítill þjóðgarður með fallegri náttúru og gömlum minjum. Þarna er góð gestastofa og merktar gönguleiðir með upplýsingum fyrir ferðamenn. Ekki slæm byrjun það. Og Victoría heldur áfram. Hún tekur eftir að ekki er aðgangseyrir inn í garðinn. Hún hafði heldur ekki þurft að kaupa neins konar aðgangskort að náttúrusvæðum eins og víða er. Hún ályktar að þegar hún fari af landi brott verði hún rukkuð um brottfarargjald til náttúrverndar og uppbyggingu á ferðamannastöðum, fyrirkomulag sem hún þekkir vel frá öðrum löndum, svo sem Kosta Ríka.
Hún ekur upp sveitir Borgarfjarðar og í Húsafell. Samkvæmt korti Sveins er hér stórt landsvæði í umsjón ríkisins. Hér þykir henni ægifagurt en furðar sig á ýmsu svo sem miklum umsvifum og byggingum í einkaeign. Þær eru nú líklega utan verndarsvæðisins en hún finnur engan sem hún getur spurt. Hér er engin opinber gestastofa og hún sér engar upplýsingar um svæðið. Hún punktar hjá sér athugasemdir og spurningar og heldur áfram. Nú fær jeppinn að reyna sig og hún stefnir upp á milli jökla og fjalla. Næst eru Þingvellir á dagskrá, elsti þjóðgarður landsins.
Victoría á Þingvöllum
Vegurinn er hræðilegur, hörð þvottabretti og rykmökkur gýs aftur úr bílnum og hátt í loft upp. Í vegaköntum, og langt út fyrir þá, flæðir stórgerður ofaníburður. Í hennar heimalandi eru vegir að langmestu leyti malbikaðir. Líka örmjóir þjóðgarðsvegir sem liggja lágt í landinu og hlykkjast um fjöll og firnindi, nær ósýnilegir. Eftir nokkurn akstur um fjallasal stöðvar hún bílinn. Samkvæmt korti og gps-tæki er hún nú komin vel inn í þjóðgarðinn. Vegurinn er þó síst betri en fyrr og ýmislegt vekur athygli hennar. Meðfram veginum er áberandi girðing sem klýfur þjógarðinn en búfé er á beit báðum megin hennar. Þetta virðist þó ekki heppilegt beitarland, land nær örfoka og rofabörð í gróðurtorfum.
Eftir nokkurn akstur í viðbót ekur hún um rimlahlið í veginum og sýnist þá loksins komin á beitarfriðað svæði. Og náttúran er mögnuð, land kjarri vaxið og djúpar gliðnunarsprungur í gráu hrauni. Við gatnamót eru nokkur hús, eitt þeirra greinilega opið almenningi. Inn komin sýnist henni fyrst að eingöngu sé um að ræða veitingastað sem selur sælgæti, gos og ís en finnur svo í horni ungan pilt sem gæti verið landvörður. Hann er þó upptekinn við að selja bækur og eitthvað annað, veiðileyfi sýnist henni. Þegar hún loks kemst að spyr hún hvort ekki sé gestastofa í þjógarðinum þar sem fá megi helstu upplýsingar um hann. Samkvæmt leiðsögn hans ekur hún á Hakið. Og mikið rétt, þarna eru snotrar byggingar. Hún kemst svo að raun um að þótt mikið hafi verið lagt í húsin er hlutverk gestastofunnar fremur snautlegt og litlar upplýsingar þar að fá. Landvörður þar er líka upptekinn við að selja minjagripi. Hann bendir henni á fræðsluefni í tölvum. Hún ygglir sig, fær alveg nóg af að sitja við tölvur á skrifstofunni sinni þótt hún geri það ekki hér. Hún kaupir teiknaða mynd af hluta þjóðgarðsins sem á að sýna gönguleiðir þar. Hún vill gjarnan fá sér góða göngu en fyrst ætlar hún að skoða þennan fræga þingstað. Þarna er urmull af fólki en hún sér engar merkingar sem vísa leiðir. Hún ákveður að fara í aðra hluta þjóðgarðsins. Eftir um tvær klukkustundir gefst Viktoría upp. Hún finnur ekki þær leiðir sem þó eru merktar á kortið og þær sem hún telur sig finna týnast fljótt í gróðri og ófærð. Og hún starir steinhissa á stór skógræktarsvæði með trjám sem hún veit að ekki eru upprunaleg í landinu. Viktoría skrifar duglega í minnisbókina sína og heldur ferð sinni áfram.
Geysir og Gullfoss
Hún hlakkar til að koma að Geysi, sjá þennan fræga goshver sem allir slíkir heita eftir. Hún minnist þess að hafa lesið umræður sem fóru fram í bandaríska þinginu upp úr 1870 þegar verið var að berjast fyrir friðun Yellowstone sem fyrsta þjóðgarðs heims. Þá var haft á orði að goshverirnir þar væru jafnvel meiri en þeir á Íslandi. Það verður gaman að sjá hvort svo sé. Þegar hún kemur að Geysi heldur hún helst að hún hafi villst. Hún horfir undrandi á hús og umsvif, jarðrask, byggingar og illa farna göngustíga og hugsar að kannski hafi aðstæður verið í þessa átt heima hjá henni svona í kring um 1930, það er eins og hana minni að hún hafi lesið það einhvers staðar. Hún flýtir sér aftur í bílinn, það er ekki langt að Gullfossi. Líka þar taka á móti henni ljótar byggingar þaðan sem berst lykt af brösuðum mat og steiktum kartöflum. Engin gestastofa, litlar upplýsingar. Þarna hittir hún þó landvörð. Hann segir henni að þótt þjóðin eigi bæði Geysi og Gullfoss þá séu þeir skikar litlir. Land umhverfis þessa staði sé í einkaeign og engar reglur gildi á Íslandi um grenndarsvæði friðlýstra svæða eins og víðast sé erlendis. Eigendur geti því farið út í framkvæmdir og umsvif mjög nálægt þessum merkilegu stöðum til að hafa gott af þeim ferðamönnum sem þangað koma.
Stutt hálendisferð
Victoría horfir til fjalla og jökla. Þegar hún sér að vegurinn áfram norður er malbikaður ákveður hún að leyfa sér smá útúrdúr upp á hálendið. Þótt malbikið endi fljótlega og þvottabrettin taki við heldur hún áfram, jöklarnir toga. Enn undrast hún vegagerðina. Mikið upphækkaðir vegir, líka þeir sem þó eru aðeins notaðir á sumrin, en svo slæmir að margir hljóta að veigra sér við að aka þá. Víða sér hún að fólk hefur ekið utan vega að því er virðist í tilgangsleysi. Slóðir eru markaðar í landið meðfram veginum og sums staðar hafa menn spænt upp brekkur og hlíðar. Vandamál sem hún þekkir frá sandeyðimörkum suðvestursins. Fróðlegt verður að heyra hvernig Íslendingar bregðast við þessu. Hún verður líklega að láta bíða að afla slíkra upplýsinga þangað til hún kemur aftur til höfuðborgarinnar og getur spurt einhverja starfsmenn stofnunarinnar sem hefur með þessi svæði að gera. Hún fer út og teygar að sér fjallaloft, ægifagra jöklasýn og dáist að víðsýni í tæru loftinu. En hún veit eiginlega ekkert hvert hún á að fara og ákveður loks að snúa við.
Þórsmörk
Victoría hugsar ýmislegt á leið sinni um sunnlenskar sveitir. Hún sér nú að hún þarf að vera við ýmsu búin á náttúruverndarsvæðum Íslands hvað varðar þjónustu og aðstöðu, innviði sem þykja sjálfsagðir á slíkum svæðum í öðrum löndum. Hins vegar er náttúran sjálf stórkostleg, um það er ekki deilt. Sú verður örugglega raunin á næsta viðkomustað, Þórsmörk, sem kúrir undir jöklum. Hún er heppin að komast í samflot með nokkrum bílum síðasta spölinn og þar sem hún er snjall bílstjóri og ýmsu vön kemst hún klakklaust alla leið að síðustu ánni. Þaðan er auðvelt að ganga. Engin gestastofa er hér, ekki frekar en annars staðar, til að taka á móti ferðamönnum og segja þeim frá náttúru og vísa þeim leiðir og litlar merkingar eða upplýsingar á skiltum. Hún hittir fljótlega röggsama landverði sem vísa henni á nokkrar gönguleiðir og hún arkar af stað. Gönguleiðirnar eru illa merktar og það sem verra er, þær eru flestar í mjög slæmu ástandi. Brekkur eru brattar og greinilega rignir hér oft mikið. Víða hafa myndast lækjarfarvegir í bröttum götum, jarðvegur runnið úr þeim og þær orðið djúpar og ógreiðfærar. Þá myndast nýjar leiðir við hlið þeirra gömlu og áður en við er litið eru heilu fjallshlíðarnar úttraðkaðar. Vandamál sem hún þekkir en hún veit að eru leysanleg en kostar auðvitað vinnu og fjármagn. Hún er líka hissa þegar hún sér á þessu svæði breiður af Alaska-lúpínu. Henni hafði þótti fróðlegt að lesa að þessi planta, sem hún þekkir vel úr heimahögum, sé verulega ágeng tegund á Íslandi og eyði náttúrlegu vistkerfi. Hún hefur víða séð hana á sinni ferð en undrast að sjá hana hér óáreitta á náttúruverndarsvæði.
Núpsstaður og Skaftafell
Frá Þórsmörk heldur Victoría áfram austur á bóginn. Hún sér ýmislegt og skráir hjá sér. Hún stoppar á Núpsstað. Sem þjóðgarðsvörður í suðurvesturríkjum Bandaríkjanna hafði hún á sinni könnu vernd mikilla fornminja, ævafornra bygginga og listaverka, sem frumbyggjar álfunnar höfðu skilið eftir sig ásamt mannvistarlandslagi umhverfis. Hér sér hún fornminjasvæði sem þarf að vernda. Hún sér reyndar á skilti að húsin eru í vörslu Þjóðminjasafns en umhverfi húsanna er líka mikilvægt. Hér virðist iðnvædd vélvæðing varla hafa numið land, alla vega ekki breytt ásýnd svæðisins verulega. Þá ásýnd þarf að standa vörð um ásamt því að leyfa fólki að fá að njóta svæðisins. En hér er enginn og hún verður að láta sér nægja að glósa í kompu sína áður en hún heldur áfram.
Skaftafell er hluti af stærsta þjóðgarði Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarði. Hún er ekki farin að búast við neinu þegar hún kemur á nýtt svæði svo að hún verður eiginlega hissa þegar hún sér að í Skaftafelli er gestastofa, reyndar ekkert framúrskarandi en gestastofa þó. Vel lagðir göngustígar í brekkunum voru henni enn meira undrunarefni. Þetta geta Íslendingar þá, hugsar hún. Þegar hún hefur orð á því við landvörð segir hann henni að göngustígarnir í Skaftafelli séu gerðir af hópum sem Bresku sjálfboðaliðasamtökin, BTCV, hafi sent til Íslands síðastliðin 30 ár.
Victoría í höfuðborginni
Við fylgjum Victoríu ekki lengra um landið en sláumst í för með henni þegar hún kemur aftur til Reykjavíkur og vill tala við fólk, afla upplýsinga og koma hugmyndum sínum og tillögum áleiðis. Hún spyr hvar séu höfuðstöðvar Náttúruverndar Íslands. Henni er sagt að engin slík stofnun sé til en er bent á Umhverfisstofnun. Eftir nokkra leit finnur hún þá stofnun innan um aðrar skrifstofur og verslanir við heldur óvistlega umferðargötu nokkuð frá miðbæ Reykjavíkur. Henni er vísað inn til konu sem tekur henni ljúfmannlega. Þegar Victoría fer að telja upp þá staði sem hún vill ræða um segir konan að hún geti ekki tekið við athugasemdum hennar nema að litlu leyti. Umhverfisstofnun hafi jú bara með að gera þjóðgarðinn Snæfellsjökul, Gullfoss og Geysi og flest önnur friðlönd landsins. Aðrir hafi yfirumsjón með öðrum svæðum sem Victoría heimsótti. Hún segir Victoríu að Landgræðsla ríkisins hafi umsjón með Húsafelli og höfuðstöðvar Landgræðslunnar séu í Rangárvallasýslu. Alþingi stjórni Þingvallaþjóðgarði, hálendið sé þjóðlenda og því sé sinnt frá forsætisráðuneytinu og Þórsmörk sé í umsjón Skógræktar ríkisins og höfuðstöðvar hennar séu austur á landi. Hvað varðar Núpsstað þá séu hús í umsjón Þjóðminjasafns en ef hún hafi áhuga á landinu í kring um bæinn og verndun minja þar og menningarlandslags sé það líklega á verksviði Fornleifaverndar ríkisins. Loks gefur hún henni upp heimilisfang höfuðstöðva Vatnajökulsþjóðgarðs.
Viktoría er ekki á því að gefast upp, ekki strax. Hún ákveður að reyna að minnsta kosti að finna stjórnendur þjóðgarðanna. Þegar hún kemur að húsinu þar sem höfuðstöðvar stærsta þjóðgarðs Evrópu eru til húsa sér hún í fyrstu aðeins stóra og frekar druslulega fornbókaverslun. Við eftirgrennslan ratar hún þó upp nokkrar hæðir og finnur þar einn eldri mann á skrifstofu. Hann segir henni að þau starfi þarna venjulega tvö fyrri hluta dags. Þegar hún hefur lokið erindi sínu og átt ágætt samtal við framkvæmdastjóra þjóðgarðsins heldur hún að Alþingi. Þar eru höfuðstöðvar Þingvallaþjóðgarðs. Henni er bent á húsið en það er harðlæst og engin leið að komast þar inn nema að kalla upp erindið í dyrasíma. Ekki líst henni á það og nú loks gefst hún upp.
Daginn eftir heldur Victoría Park af landi brott. Þegar hún hefur komið sér vel fyrir eftir flugtak áttar hún sig á að hún borgaði ekki neitt brottfaragjald. Íslendingum veitti þó ekki af slíkum fjármunum, hugsar hún, þar sem vantar nær alla innviði til náttúruverndar og móttöku ferðamanna á þessu sérstaka, fallega en um leið viðkvæma landi. Hún tekur upp tölvuna til að skrifa skýrslu til yfirmanns síns. Hún þarf að vera skýr, stutt og gagnorð.
Úttekt
Ísland er einstakt land bæði jarðfræðilega og líffræðilega. Íslendingar hafa friðlýst mörg markverð náttúrusvæði sem þjóðgarða, friðlönd eða náttúruvætti. Einnig eru ýmis önnur verndarsvæði í umsjón ríkisins, s.s. skógræktarsvæði, landgræðslusvæði og fornminjasvæði. Þjóðlendur eru undir stjórn ríkisins og fyrst og fremst á hálendi landsins.
Fulltrúi IUCN heimsótti nokkur markverð svæði á vestur- og suðurlandi og skoðaði sérstaklega þjóðgarðana Snæfellsjökul, Þingvelli og Vatnajökulsþjóðgarð en einnig Húsafell, Gullfoss, Geysi, Núpsstað og Þórsmörk. Einnig var farið upp á miðhálendið. Allt eru þetta svæði undir stjórn ríkisins og flest vernduð á einhvern hátt. Öll eru svæðin mjög vinsælir ferðamannastaðir en fjöldi ferðamanna á Íslandi eykst nú stöðug. Á öllum þessum svæðum blasa við sömu óleystu viðfangsefnin í mismiklum mæli þó. Mikill skortur er á innviðum, s.s. gestastofum, upplýsingaskiltum, góðum og vel lögðum göngustígum, og á þeim er veik landvarsla og lítil náttúrutúlkun. Einnig kom í ljós að fæst þessara svæða hafa raunverulega verndar-, stjórnunar- eða skipulagsáætlanir. Þegar heimsækja átti stofnunina sem fer með stýringu verndarsvæða á Íslandi kom hið undarlega í ljós, svæðunum er stýrt af sjö ólíkum stofnunum sem eru undir tveim ráðuneytum.
Helsta ógn íslenskra náttúruverndarsvæða er ásókn í að virkja til orkuöflunar bæði vatnsföll og jarðhitasvæði landsins og er rannsóknum og framkvæmdum á því sviði stýrt af öflugum stofnunum. Sundrung þeirra sem gæta eiga hagsmuna og sjónarmiða náttúruverndar verður til þess að mótrök á því sviði eru veik og svo virðist að faglegum náttúruverndarsjónarmiðum sé helst haldið á lofti af sjálfboðasamtökum.
Margir Íslendingar horfa til framtíðarstarfa í ferðaþjónustu. Ef fer sem horfir er hins vegar hætta á að illa fari. Víða er þéttleiki ferðamanna allt of mikill en á öðrum svæðum, sem eru ekki síður athyglisverð, sést ekki fólk. Mikilvægt er að skipuleggja móttöku ferðamanna, og nauðsynlegar ráðstafanir til náttúruverndar á landinu, á heildrænan hátt. Það er ekki hægt þegar vinsælustu ferðamannastaðirnir eru undir ólíkum stjórnum og stofnunum.
Núverandi ríkisstjórn mun hafa á stefnuskrá sinni að sameina friðlýst svæði undir einni stjórn. Þær hugmyndir sýnast þó alls ekki ganga nógu langt en engu að síður mun vera ágreiningur innan stjórnarinnar að framfylgja þeirri stefnu.
Tillögur
Brýnt er að samræma stjórn verndarsvæða á Íslandi. Setja þarf undir eina stofnun störf og hlutverk sem heyra saman en dreifast nú á margar stofnanir og ólík ráðuneyti. Meginhlutverk slíkrar stofnunar á að vera að standa vörð um þau gæði landsins sem hafa vísindalegt eða fagurfræðilegt gildi og veita fólki nauðsynlega útivist, upplifun og hughrif.
Undir nýja stofnun ættu að fara friðlýst svæði; þjóðgarðar, náttúruvætti, friðlönd og valinn hluti fólkvanga, þjóðskóga (Ásbyrgi, Þórsmörk), landgræðslusvæða (Dimmuborgir, Húsafell) og þjóðlendna (fyrst og fremst á hálendinu) og einnig minjavernduð svæði. Á svæðunum væri lögð áhersla á að vernda náttúru, menningarminjar og landslag. Í flestum tilvikum er líka gert ráð fyrir móttöku ferðamanna og þjónustu við þá. Hafin væri gjaldtaka af ferðamönnum og rynni gjaldið óskipt til stofnunarinnar.
Undir nýrri stofnun sameinuðust verkefni sem nú eru undir Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði, Þingvallaþjóðgarði, Landgræðslunni, Skógræktinni, Fornleifavernd ríkisins og forsætisráðuneyti. Hjá stofnuninni starfaði fagfólk sem hefði sérhæft sig í stýringu auðlinda og landnýtingu og gjörþekkti ólíka stýringu á landi/náttúru eftir því hvort markmiðið væri að friða svæði vegna merkrar náttúru eða vernda það vegna fornleifa, sögu, skóga o.fl. Einnig ynni þar fólk sem kynni til verka við móttöku ferðamanna og þjónustu við þá og að nota ýmiss konar miðlun sem stjórntæki verndunar. Horft væri heildstætt á landið og með gerð verndaráætlana tekið mið af þekkingu á ýmsum fræðasviðum.
Victoria Park, sérfræðingur IUCN í stýringu verndarsvæða.
Victoría Park er skálduð persóna í sönnu umhverfi og raunverulegum aðstæðum.
Höfundurinn Sigrún Helgadóttir var umsjónarmaður Grænfánaverkefnis Landverndar, Skólum á grænni grein í 8 ár og var fyrsti þjóðgarðsvörður þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum. Sigrún er höfundur bóka um Þingvallaþjóðgarð og Jökulsárgljúfur, Dettifoss og Ásbyrgi og handhafi Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2010.
Ljósmyndir: Efst; Baula, næstefst; séð yfir til Þingvalla, þriðja að ofan; á Geysissvæðinu, fjórða að ofan; á Hveravöllum, næstneðst; Langidalur í Þórsmörk, og neðst; frá Skaftafelli. Ljósm. Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Sigrún Helgadóttir „Heimsókn Victoríu Park til Íslands“, Náttúran.is: 7. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/07/heimsokn-victoriu-park-til-islands/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. september 2012