Þann 13. september næstkomandi stendur Norræni nýsköpunarsjóðurinn fyrir opnum kynningarfundi þar sem fulltrúar Nordic Built kynna nýjan sjálfbærnisáttmála í mannvirkjagerð á Norðurlöndunum. Markmiðið er að virkja lykilaðila á íslenskum byggingarmarkaði til þess að taka höndum saman um að efla sjálfbæra þróun í mannvirkjagerð á Norðurlöndunum.

Fundurinn er haldinn er í stofu V101 í Háskólanum í Reykjavík frá kl. 15-17 og er öllum opinn.

Stjórnendur sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Íslandi og allir þeir sem koma að byggingu og rekstri mannvirkja og hafa áhuga á sjálfbærni og norrænni samvinnu eru hvattir til að mæta og kynna sér sáttmálann og tengd verkefni.

Hvað er Nordic Built'

Nordic Built er samvinnuverkefni sem hvetur til þróunar samkeppnishæfra lausna í vistvænni mannvirkjagerð. Verkefnið miðar að því að Norðurlöndin nái markmiðum sínum um að vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð.

Byggingamarkaðurinn á Norðurlöndum nýtir ekki til fulls þau miklu tækifæri sem felast í vistvænni mannvirkjagerð og  endurbótum á byggingum. Markmið Nordic Built verkefnisins er að byggingaiðnaðurinn sameinist um að nýta sérþekkingu sína til þess að mæta aukinni eftirspurn eftir vistvænni mannvirkjagerð í heiminum. Leiðandi fyrirtæki í greininni hafa nú þegar tekið fyrstu skrefin og hvetja aðra til þess að gera hið sama.

Þann 8. ágúst undirrituðu 20 stjórnendur úr norræna byggingaiðnaðinum Nordic Built sáttmálann í Kaupmannahöfn, og sýndu þar með vilja sinn til breytinga. Með undirskriftinni skuldbinda þeir sig til þess að fylgja tíu meginreglum í starfi sínu og fyrirtækja sinna, og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að þróa samkeppnishæfar lausnir í sjálfbærri mannvirkjagerð.

Við hjá KAB lítum svo á að sjálfbær byggð sé eitt stærsta og mikilvægasta umhverfisverkefnið í heiminum í dag. Nordic Built gefur byggingaiðnaðinum á Norðurlöndum möguleika á því að taka forystu á þessu sviði segir Jesper Nygård frá KAB í Danmörku.

Verkefnisstjóri Nordic Built, Eili Vigestad Berge frá Nordic Innovation, er ánægð með viðtökurnar við verkefninu.

- Norræni byggingaiðnaðurinn hefur þróað fjölda íhluta fyrir orkuvænar byggingar og öll Norðurlöndin leggja ríka áherslu á umhverfismál. Þar að auki er löggjöfin ströng og endurspeglar metnað okkar um að byggja bestu mannvirki heims. Norðurlöndin hafa einstakar forsendur fyrir því að marka sér sérstöðu á heimsvísu í vistvænni mannvirkjagerð. Samvinna landanna á milli gerir okkur kleift að nýta tækifærin á þessum vaxandi markaði eins og best verður á kosið. Við hvetjum því iðnaðinn í heild til þess að undirrita Nordic Built sáttmálann og fylgja þeim reglum sem hann setur, segir Vigestad Berge.

Frumkvæði frá stjórnsýslunni

Nordic Built er eitt af sex svokölluðum kyndilverkefnum sem stofnað var til í tengslum við mótun nýrrar stefnu um samvinnu í iðnaðar- og nýsköpunarmálum, með áherslu á grænan vöxt, sem norrænu viðskipta- og iðnaðarráðherrarnir samþykktu í október 2011. Norræna ráðherraráðið fjármagnar verkefnið ásamt Nordic Innovation, sem einnig er í forsvari fyrir framkvæmd þess í samvinnu við Norðurlöndin.

Nordic Built fer fram í þremur tengdum áföngum á tímabilinu 2012-2014. Í fyrsta áfanga verkefnisins hefur áhersla verið lögð á að skilgreina þær sameiginlegu áskoranir og tækifæri sem norræni byggingaiðnaðurinn stendur frammi fyrir. Sú vinna leiddi til Nordic Built sáttmálans, Nordic Built Charter, sem er kjarni verkefnisins.

Samkeppni í sjálfbærni

Annar áfangi Nordic Built hefst síðar á þessu ári. Aðilum sem sinna nýsköpun í byggingaiðnaði og á öðrum sviðum býðst að taka þátt í viðamikilli samkeppni um  endurbætur í takt við sjálfbærnimarkið í einni byggingu í hverju Norðurlandanna. Markmiðið er að vekja athygli á Nordic Built sáttmálanum með hvetjandi verkefnum, rausnarlegum peningaverðlaunum og mikilli umfjöllun.

- Með því að hvetja til samvinnu á milli landa og atvinnugreina viljum við stofna til nýstárlegs samstarfs sem skilar nýsköpun í byggingaiðnaði. Við vonum að samkeppnisandinn í greininni stuðli að nýjum hugmyndum sem koma Norðurlöndunum í forystu hvað varðar vistvæna byggð. Það er kominn tími til þess að grípa þetta tækifæri, segir Eili Vigestad Berge.

Nánar um Nordic Built:

Aðilar að Nordic Built sáttmálanum

Skanska, ByggVesta, Pöyry, Uponor, COWI, Energistyrelsen, Henning Larsen Architects, KAB, Velux, Batteríið Arkitektar, EFLA Verkfræðistofa, Framkvæmdasýsla ríkisins, Vistbyggðarráð, Entra Eiendom, NCC Property Development, Snøhetta, SINTEF og Zero.

Nordic Innovation

Nordic Innovation er norræn stofnun sem hefur að hlutverki að stuðla að viðskiptum og nýsköpun á alþjóðavettvangi. Nordic Innovation heyrir undir Norræna ráðherraráðið og leikur lykilhlutverk í framkvæmd samvinnuverkefna á sviði viðskipta, atvinnulífs og nýsköpunar.

Nánari upplýsingar:
www.nordicbuilt.org
Eili Vigestad Berge, +47 414 63 434, e.berge@nordicinnovation.org
Malin Kock, +47 95 92 49 53, m.kock@nordicinnovation.org
Kynningarfundur

Ljósmynd: Frá undirritun sáttmálans.

Birt:
Aug. 15, 2012
Tilvitnun:
Sigríður Björk Jónsdóttir „Norræni byggingamarkaðurinn tekur höndum saman um sjálfbærni“, Náttúran.is: Aug. 15, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/15/norraeni-byggingamarkadurinn-tekur-hondum-saman-um/ [Skoðað:April 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Sept. 5, 2012

Messages: