Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til náttúruverndarlaga sem áformað er að leggja fram á Alþingi í haust. Drögin byggja á Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands, sem gefin var út á síðastliðnu ári að teknu tilliti til athugasemda er bárust um hana.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á náttúruverndarlögum. Meðal breytinga sem frumvarpið mælir fyrir um eru ítarlegri markmiðsákvæði en áður og eru settar fram nokkrar meginreglur sem leggja ber til grundvallar við framkvæmd laganna, þar á meðal nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar. Staða almannaréttar er styrkt, fjallað er um náttúruminjaskrá sem er ætlað að vera nýtt meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi og gengið er út frá auknu samráði við gerð áætlana. Lagðar eru til breytingar hvað varðar friðlýsingar og m.a. er friðlýsingaflokkum fjölgað. Ákvæði um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda eru ítarlegri en í gildandi lögum og sérstakur kafli fjallar um innflutning og dreifingu framandi lífvera. Þá er kveðið á um sérstakan Náttúruverndarsjóð.
Frumvarpsdrögin voru unnin af Aagot V. Óskarsdóttur lögfræðingi.

Umsagnir um drögin skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík eða á netfangið postur@uar.is í síðasta lagi 25. september nk.

Sjá drög að frumvarpi til náttúruverndarlaga.

Sjá einnig Hvítbók um náttúruvernd skipta eftir köflum.

Birt:
Sept. 3, 2012
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Drög að frumvarpi til náttúruverndarlaga til kynningar“, Náttúran.is: Sept. 3, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/03/drog-ad-frumvarpi-til-natturuverndarlaga-til-kynni/ [Skoðað:April 17, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: