Fimmtudaginn 23. ágúst s.l. lést Anna Steinunn Ágústsdóttir (f. 1959), en hún var í stofnhópi Framtíðarlandsins og átti drjúgan þátt í að móta starfsemi félagsins.

Anna Steinunn var afgerandi í umhverfisbaráttu hér á landi í mörg ár. Hún kom að gerð kortsins “Ísland örum skorið” og póstkorta sem þeim fylgdu og voru tilnefnd til íslensku auglýsingaverðlaunanna. Plakat fyrir Háskólabíófundinn um hálendið (1998), “Snúum blaðinu við”, sem hún vann að fékk þessi sömu verðlaun. Hún var lykilmanneskja í Hætta-hópnum sem m.a. stóð að náttúrutónleikunum í Laugardalshöll. Auk þess tók hún virkan þátt í að semja stefnuskrá fyrir Framtíðarlandið á meðan það var enn pólitískt afl og til stóð að bjóða fram. Þetta var mikil vinna og heilabrot í sambandi við slagorð, orðanotkun o.fl. og naut m.a. stefna Íslandshreyfingarinnar í umhverfismálum góðs af þeirri vinnu.

Anna Steinunn sá tímabundið um skrifstofu Framtíðarlandsins er hún var á Óðinsgötu. Með aðkomu sinni að  þeim umhverfishópum sem hún vann með lyfti hún baráttunni á hærra plan, en hún tók að sér að sjá um hönnunar- og kynningarmál. Á þessum árum vann Anna Steinunn sem textagerðarkona á auglýsingastofu og var hún öflug í að fá fólk úr auglýsingaheiminum til að leggja baráttunni lið með ýmsu móti. Hin glæsilega ásýnd Haustþings Framtíðarlandsins 2006 sem hún hafði umsjón með er sérlega minnisstæð.

Anna Steinunn var róleg, fagleg og yfirveguð í öllu þessu óeigingjarna hugsjónastarfi og eftirsóttur vinnufélagi sem laðaði það besta fram í þeim sem hún vann með.

Anna Steinunn barðist við krabbamein síðustu árin sem hún lifði. Hún skilur eftir sig eiginmann, Kjartan Bjargmundsson og þrjú börn. Útför hennar verður gerð frá Dómkirkjunni miðvikudaginn 5. september kl. 13.

Framtíðarlandið þakkar Önnu Steinunni Ágústsdóttur samstarfið og samfylgdina.

Birt:
2. september 2012
Höfundur:
Framtíðarlandið
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Framtíðarlandið kveður kæran félaga“, Náttúran.is: 2. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/09/02/framtidarlandid-kvedur-kaeran-felaga/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: