Umhverfis- og auðlindaráðuneyti tekur til starfa laugardaginn 1. september við tilflutning verkefna úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Nýtt skipurit tekur þá gildi en það var kynnt á fundi með starfsmönnum í gær.

Við breytingarnar munu rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu þeirra verða verkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Ráðuneytinu er í því sambandi falið að setja viðmið um sjálfbæra nýtingu allra auðlinda. Gerð áætlunar um vernd og nýtingu orkusvæða (rammaáætlun) verður nú í höndum umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk þess sem ráðuneytinu er falin forysta um skipulagsmál hafsins og strandsvæða. Vegna nýrra verkefna flytjast Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), landshlutaverkefni í skógrækt og Veiðimálastofnun til ráðuneytisins.

Í nýju ráðuneyti verða fjórar fagskrifstofur auk skrifstofu yfirstjórnar sem verður undir stjórn ráðuneytisstjóra. Þrjár skrifstofanna hverfast um málaflokka ráðuneytisins; skrifstofa landgæða, skrifstofa hafs, vatns og loftslags og skrifstofa umhverfis og skipulags. Þvert á alla starfsemi ráðuneytisins gengur svo skrifstofa fjármála og rekstrar. Þá munu fagteymi um ákveðin verkefni ráðuneytisins starfa þvert á starfsemi þess. Skiptingu verkefna á skrifstofur má sjá í meðfylgjandi töflu.

Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar verður Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, skrifstofustjóri hafs, vatns og loftslags verður Hugi Ólafsson og skrifstofustjóri umhverfis og skipulags verður Sigríður Auður Arnardóttir sem jafnframt gegnir starfi staðgengils ráðuneytisstjóra en þau gegndu öll áður starfi skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu. Starf skrifstofustjóra landgæða verður auglýst laust til umsóknar á næstu dögum.

Ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti verður Magnús Jóhannesson sem hefur verið ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis frá árinu 1992.

Grafík: Efri; Málaflokkar skrifstofu hins nýja Umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Neðri; Skipurit hins nýja Umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Birt:
31. ágúst 2012
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Umhverfis- og auðlindaráðuneyti tekur til starfa“, Náttúran.is: 31. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/31/umhverfis-og-audlindaraduneyti-tekur-til-starfa/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: