Ein niðurstaða flokksráðsfundar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs að Hólum í Hjaltadal s.l. helgi var að kalla eftir umræðu í samfélaginu um hvernig samstarfi Íslands við aðrar þjóðir skuli háttað, „… hvaða hagsmuni ber að verja og hvaða hagsmunir eru til þess fallnir að styrkja tengsl Íslands við alþjóðasamfélagið.” eins og segir í ályktun fundarins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir um utanríkis og evrópumál:

Þær miklu breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum á sviði utanríkis- og öryggismála, og ná einnig til viðskipta, stjórnmála og umhverfismála, kalla á nýja sýn og nýja nálgun í utanríkismálum.

Nákvæmlega.

Afstaðan til umheimsins er mikilvæg breyta í íslenskum stjórnmálum. Fyrstu 50 – 60 árin eftir að landið var lýst fullvalda voru tengslin við Bandaríkin þungamiðjan í utanríkisstefnu landsins og jafnframt afar umdeild. Norðurlandasamstarfið bætti að nokkru upp hversu háð Ísland var Bandaríkjunum. En þegar á reyndi kom sjálfstæð utanaríkisstefna Íslands kom skýrast fram í deilum við Bretland vegna útfærslu landhelginnar. Engin vafi leikur á að í þessum deilum nýttu íslenskir ráðamenn sér hernaðarlegt mikilvægi landsins. Við lok kalda stríðsins fyrir rúmum 20 árum var ljóst að hernaðarlegt mikilvægi Íslands var fyrir bí og þótt tengslin við Bandaríkin séu enn mikilvæg færði EES-samningurinn sem gerður var 1993 Ísland nær Evrópu. Íslensk löggjöf byggir nú að stórum hluta á evrópskri löggjöf. Við bætist að norrænt samstarf fer nú að miklu leyti fram í Brussel. Utanríkisstefna Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar miðar að því að Evrópusambandið taki afstöðu á alþjóðavettvangi í samræmi við hagsmuni þeirra. Ein síns liðs mega þessi ríki sín lítils innan Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, eða í samskiptum sínum við Bandaríkin eða Kína.

Valkostir Íslands?

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 9. janúar 2005 segir, að

… „að að eitt mikilvægasta verkefni okkar [Íslands] á sviði utanríkismála á næstu misserum og árum eigi að vera að byggja skipulega upp samskipti og tengsl við lykilaðila í stjórnkerfinu í Washington. …Til þess að ná þessum árangri hljótum við að leggja áherzlu á að byggja upp sendiráð okkar í Washington og skipa það eingöngu úrvalshópi manna úr utanríkisráðuneytinu hér. Líklegt má telja að það geti skipt miklu máli að menn með reynslu af stjórnmálum skipi sendiherrastöðuna í Washington eins og stundum hefur verið. Á nokkrum árum á að vera hægt að byggja upp tengslanet í Washington, sem gæti skipt sköpum á vissum úrslitapunktum í samskiptum okkar á alþjóðavettvangi þegar hagsmunir Íslands koma við sögu.“

Rúmu ári síðar var herstöðin á Miðnesheiði lögð niður og öllum ljóst að áhrif Íslands á alþjóðastjórnmál – þar sem hagsmunir Íslands koma við sögu – gætu ekki byggst á öflugu tengslaneti í Washington. Sú heimsmynd að Ísland væri hluti af vopnabúri lýðræðsins í baráttunni við ógnarstjórn kommúnismans í Austur Evrópu hvarf. Í fyrrgreindu Reykjavíkurbréfi er bent á að „Þótt Bandaríkjamenn hafi alltaf sýnt okkur mikla vinsemd byggðust þessi afskipti þeirra ekki á vináttu í okkar garð heldur þeirra eigin hagsmunum.”

Annar valkostur er að Ísland – líkt og í kalda stríðinu – nýti sér landfræðilega stöðu sína í heimi þar sem stórveldi á borð við Bandaríkin og Kína skipti meira máli en fjölþjóðlegt samstarf, hvort heldur það er innan Sameinuðu þjóðanna eða Evrópusambandsins. Nýjar siglingaleiðir um íslaus norðurhöf og aukin auðlindanýting á norðurslóðum geri að verkum að hér geti menn efnast vel á að nýta sér legu landsins. Forseti lýðveldisins talar um Súez-skurð hinn nýja og hann vill efla tengslin við Kína. Aðalatriðið sé að binda sig ekki trúss sitt við Evrópusambandið.

Þriðja leiðin er umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu í samræmi við þau samningsmarkmið sem Alþingi samþykkti í júlí 2009. Í ræðu sinni á flokksráðsfundi VG að Hólum s.l. föstudag setti varaformaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, umsóknina í eftirfarandi samhengi:

„Stjórnarsamstarfið … snýst um að skapa velferðarsamfélag á Íslandi. Meðal þeirra spurninga sem við þurfum að svara í því samhengi er hvort aðild að Evrópusambandinu þjóni því markmiði eða ekki.“

Katrín ræddi ekki hin grænu baráttumál VG. Árangurinn er e.t.v. umdeildari því Rammaáætlun hefur enn ekki verið afgreidd á Alþingi, ný náttúruverndarlög ekki heldur og styrking umhverfisráðuneytisins og stofnana þess er alls óljóst um. Félagar Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs og jafnvel kjósendur hljóta að trúa því, engu að síður, að án þátttöku hennar í ríkisstjórn væri staðan í umhverfismálum verri en ella hefði verið. Þeir hljóta að telja það meginverkefni flokksins að tryggja að Hvítbók sú um náttúruvernd sem umhverfisráðherra kynnti í fyrrahaust hljóti afgreiðslu sem lög frá Alþingi – fyrir kosningar. Einhverju verði hlýtur stóriðjuarmur Samfylkingarinnar að hafa keypt stuðning VG við aðildarumsókn.

Um samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna sagði Steingrímur J. Sigfússon við Morgunblaðið þann 11. maí 2009, að hún væri „… fyrsta hreina vinstri græna ríkisstjórnin og það er sérstakt fagnaðarefni.“ Verður ekki að skoða ríkisstjórnarþátttöku VG í þessu samhengi líka? Ekki bara hér heima heldur líka á alþjóðavettvangi þar sem framtíð mannkyns á þessari jörð mun ráðast.

Ljósmynd: Höfundurinn Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Birt:
28. ágúst 2012
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Evrópa og Ísland“, Náttúran.is: 28. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/28/evropa-og-island/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: