Ungur uppfinningamaður hefur hannað vindmyllu sem hentar vel fyrir sumarbústaði. Myllan kemur á markað snemma á næsta ári.

Sæþór Ásgeirsson er að ljúka meistaranámi í vélaverkfræði. Meðfram náminu hefur hann hannað og smíðað vindmyllu sem nýtist sérstaklega vel á sumarbústöðum. Hann segir að um fimmtíu til sextíu fermetra bústaður eyði um átta til tólfþúsund kílóvattsstundum af rafmagni á ári. Vindmyllan getur framleitt um þrjú til fimm þúsund kílóvattstundir þannig að ljóst er að sparnaðurinn er töluverður.

Sæþór er Mosfellingur og því þótti honum við hæfi að frumsýna mylluna á bæjarhátíðinni "Í túninu heima" sem fram fer í Mosfellsbæ um helgina.

„Hún er hönnuð til að framleiða í lágum vindi. Sem er mikilvægt þar sem oft er logn á sumarbústaðasvæðum. Hún hentar vel íslenskum aðstæðum og á að vera ódýr þannig að allir hafi efni á henni," segir hann.

Að sögn Sæþórs kostar um hálfa milljón að framleiða mylluna en að ef farið verði í fjöldaframleiðslu, sem vonir standa til, þá ætti verðið að lækka töluvert.

Að námi loknu ætlar Sæþór að einbeita sér að vindmyllunni og hann stefnir á að koma henni einnig á markað erlendis.

Já sú hugmynd hefur komið upp og við höfum verið í léttum viðræðum við fólk erlendis frá. Það er góður möguleiki líka," segir hann.

Sjá myndskeið á visir.is.

Mynd af frumútgáfu millunnar úr frétt á Stöð 2.

Birt:
25. ágúst 2012
Uppruni:
Vísir.is
Tilvitnun:
Gunnar Reynir Valþórsson „Íslensk vindmilla fyrir sumarbústaði“, Náttúran.is: 25. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/25/islensk-vindmilla-fyrir-sumarbustadi/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: