Leikföngin og grænþvotturinn
Það er margt sem ber að hafa í huga við val leikfanga fyrir börnin okkar. Leikföng eru oft algert drasl, þola ekki meðhöndlun barnsins og veita því engum gleði, hvorki gefanda né þyggjanda. Þau lenda fljótt í ruslinu og áhrif þeirra á umhverfið geta því aðeins verið neikvæð.
Hér á vefnum er að finna upplýsingar um hvernig hægt er að þekkja góð og væn leikföng t.d. hér í barnaherberginu. Eins er hægt að senda til okkar fyrirspurnir um ákveðin atriði sem varða öryggi, heilsu og umhverfisáhrif af ákveðnum leikföngum og við munum reyna að finna svörin við þeim og koma þeim hér á framfæri.
Á fjölda vefsíða úti í heimi er verið að leitast við að nálgast sannleikann um hvað er vænt og hvað ekki, t.d. á síðunni ecofriendlykids.com sem vert er að kynna sér og ecochildsplay.com. Þar er einnig stundað eftirlit með fyrirtækjum sem reyna að notfæra sér fáfræði neytenda á ótuktarlegan hátt eins og þetta dæmi um leikfangarisann Mattel sýnir:
Barbie B-Cause (ecochildsplay.com) - Mattel reyndi að græða á umhverfiskröfum neytenda með seríu af „umhverfisvænum Barbie dúkkum“ framleiddum úr plasti í Kína á eins óumhverfisvænan hátt og hugsast getur. Markaðssetningin sprakk í andlitið á Mattel enda ekkert nema nafnið með góðan umhverfislegan metnað. Það er ekki nóg að segja grænt og gott og láta þar við sitja í viðskiptum en það er alltaf hættan ef neytendur láta plata sig með græna litnum einum saman og þekkingin á því hvað gerir vöru raunverulega umhverfisvænni en aðrar er ekki fyrir hendi.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Leikföngin og grænþvotturinn“, Náttúran.is: 27. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2009/01/18/leikfong-og-graenthvotturinn/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. janúar 2009
breytt: 24. ágúst 2012