Vigdís Finnbogadóttir opnar Laugalandsskóg
Í tilefni af vígslu Laugalandsskógar sem ,,Opins skógar“ verður efnt til hátíðar- og skemmtidagskrár fyrir alla fjölskylduna sunnudaginn 26. ágúst kl. 16. Laugalandsskógur er í Hörgárdal, í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá Akureyri. Þar er búið að leggja stíga og setja upp skilti og öll aðstaða til útivistar og náttúruskoðunar er til fyrirmyndar. Við bjóðum öllum að koma og eiga saman góða stund í skóginum.
Dagskrá
- Ávörp flytja Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri Hörgárbyggðar og Tómas Ingi Olrich, fv. menntamálaráðherra.
- Helgi og Hljóðfæraleikararnir leika í skóginum
- Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, opnar skóginn formlega.
- Fulltrúar styrktaraðila Opins skógar, Arion-banka og Skeljungs, flytja ávörp.
- Boðið verður upp ketilkaffi að hætti skógarmanna og meðlæti.
Um Laugalandsskóg
Árið 1980, á 50 ára afmæli Skógræktarfélagsins, var gerður samningur við sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu um afnot félagsins af landi til skógræktar. Félagið hafði þá um nokkurt skeið leitað að landi til skógræktar en gengið erfiðlega.
Á árunum 1980-2000 fóru stúdentsefni frá MA í gróðursetningarferðir að Laugalandi að loknu síðasta prófi og lætur nærri að í þessum ferðum hafi verið gróðursettar 60.000 plöntur.
Skilyrði til skógræktar eru góð á Laugalandi eins og annars staðar á Þelamörk. Lerki hefur dafnað þar vel og sömu sögu er að segja um stafafuru sem mikið hefur verið gróðursett af á Laugalandi.
Laugaland er rómað berja- og sveppaland og fjöldi fólks fer þangað á hverju hausti til að tína ber og safna sveppum.
Undanfarin ár hefur fólki staðið til boða að höggva sitt eigið jólatré í skóginum gegn vægu gjaldi nokkrar helgar í desember.
Af vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, www.kjarnaskogur.is
Um verkefnið Opinn skógur
Opinn skógur er samstarfsverkefni skógræktarfélaga, Arionbanka og Skeljungs. Markmiðið með verkefninu Opinn skógur er að opna skógræktarsvæði við alfaraleiðir, sem eru í umsjón skógræktarfélaga. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi verði til fyrirmyndar og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu, svo að almenningur geti nýtt sé Opinn skóg til áningar, útivistar og heilsubótar. Laugalandsskógur er þrettándi skógurinn sem er gerður að opnum skógi.
Ljósmynd: Í Laugalandsskógi, Einar Örn Jónsson.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Örn Jónsson „Vigdís Finnbogadóttir opnar Laugalandsskóg“, Náttúran.is: 23. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/23/vigdis-finnbogadottir-opnar-laugalandsskog/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.