Í dag er yfirdráttardagurinn 2012. Í kvöld verður mannkynið nefnilega búið að eyða öllu því sem náttúran getur framleitt á þessu ári. Frá 0g með morgundeginum verðum við að lifa á yfirdrætti til áramóta.

Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða, og út frá sömu forsendum tímasetja samtökin „yfirdráttardaginn“ (e. Earth Overshoot Day). þ.e.a.s. daginn þegar afrakstur ársins er genginn til þurrðar. Á síðasta ári var þessi dagur 27. september, sem var reyndar óvenjuseint miðað við nokkur síðustu ár, en það stafar fyrst og fremst af því að aðferðin til að reikna þetta út er í stöðugri þróun. Vitanlega er ekki til nein ein rétt aðferð og þar af leiðandi enginn einn réttur yfirdráttardagur, en smátt og smátt verður aðferðarfræðin betri og niðurstaðan nær því að gefa rétta mynd af ástandinu. Yfirleitt hefur þessi dagsetning færst fram um nokkra daga á ári.

Dagurinn í dag er 235. dagur ársins (af 366). Það þýðir með öðrum orðum að á þessu ári notar mannkynið 366/235 = 1,56 jarðir til að framfleyta sér, samkvæmt útreikningum Global Footprint Network. Svona getur þetta augljóslega ekki gengið til lengdar.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvar fáum við þessar 0,56 jarðir sem vantar upp á? Svarið er einfalt: Þetta tökum við af höfuðstólnum, svo sem úr olíu og öðrum jarðefnum sem við höfum nurlað saman á milljónum ára, ef svo má að orði komast. Og við tökum þetta líka úr andrúmslofti og vatni, sem hafa kannski tekið við 56% meiri úrgangi en þau ráða við á einu ári, og úr jarðvegi og regnskógum, sem hafa kannski verið skert um 56% umfram það sem þau þola á einu ári.

Það er alveg hægt að ganga á innstæður eða lifa á yfirdrætti, en bara í tiltekinn tíma. Hér gildir það sama í bankanum. Að endingu kemur að skuldadögum.

Grafík af foodprintnetwork.org

Birt:
22. ágúst 2012
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Yfirdráttardagurinn er í dag“, Náttúran.is: 22. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/22/yfirdrattardagurinn-er-i-dag/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: