Í lok ráðstefnu* sem nýlega var haldin um erfðatækni og siðfræðileg álitamál hérlendis kom fram sú athugasemd að þeir sem eru skeptískir gagnvart manngerðum breytingum á erfðaefni fái alltof mikla athygli og hafi lítið til að undirbyggja gagnrýni.

Þegar fram kemur ný tækni sem getur breytt lífi okkar er vandi að kynna hana þannig að allar verkanir og aukaverkanir verði lýðum ljósar. Þegar tæknin er einungis fáum kunn eru þeir enn færri sem geta spurt  spurninga til að fá upplýsingar um öll blæbrigðin sem höfða til siðferðis og réttlætiskenndar okkar.

Ég er líffræðingur og mikill aðdáandi meistarverks þróunar og gæða vistkerfa eins og þau styðja við lífshlaup okkar og neysluvenjur. En um erfðatækni veit ég ekki mikið, og þó spurningar mínar gætu verið byggðar á misskilningi læt þær samt flakka, til að halda umræðunni opinni og stækka samhengið.

Blæbrigði mannlegrar tilvistar

Svör sérfræðinga í erfðatækni við því sem ég kalla álitamál í þessum efnum finnst mér of takmörkuð til að ég sé sannfærð um ágæti erfðatækni í öllum greinum. Ég tel að sérfræðingar fari alveg rétt með tilurð og áhrif afurðanna sem þeir sækjast eftir með genasplæsingum. En það er samhengið við vistkerfin, aukaafurðirnar, úrgangurinn og óbeinu áhrifin sem ég vil fá betri upplýsingar um. Það vita allir vísindamenn að út úr tilraunum kemur sjaldnast eingöngu það sem að var stefnt, – hér er ég að spyrja um afdrif þess sem ekki nýtist við framleiðslu afurðarinnar og getur numið 99,9% uppskerunnar. Ég byggi spurningar mínar hér aðallega á dæminu um framleiðslu vaxtarþáttar í byggrækt ORFS líftæknifélags.

Setjum að vaxtarþáttur sá sem framleiddur er með erfðabreyttu byggi virki vel til að halda í skefjum öldrun húðfruma. Þessi afurð er unnin úr fræjum byggsins. Plantan er sjálfsfrjóvgandi og því ætti frjóduft með genabreytingunum ekki að komast út úr framleiðsluferlinu, hvað þá að ná að blandast erfðaefni annarra lífvera. Verkun framleidda efnisins fylgir væntingum og setjum að það sé vísindalega sannað að það hafi ekki skaðleg áhrif í vistkerfinu af því að þessi vaxtarþáttur myndi meltast eins og hvert annað prótín. En sem virkt efni getur það virkað á fleiri dýr en manninn. Gott og vel.

Nýja genasamsetningin er einnig í þeim hlutum plöntunnar sem EKKI er nýtt til framleiðslu vaxtaþáttarins. Sömu gen eru í frumum rótanna og stöngulsins og blaðanna, þótt myndun virka efnisins fari ekki í gang í þeim hlutum plöntunnar. Má ég spyrja samt: Hvað verður um þessa hluta? Eru þeir brenndir? Er þeim hent? Eru þeir nýttir eins og annar hálmur til dæmis við svepparækt eða dýraeldi? Er hætt á því að örverur sem brjóta niður þessar leyfar ( í meltingarfærum kúa eða í jarðveginum) geti hugsanlega tekið upp genið, umritunarsameindirnar eða snefil af þessu prótíni? Ég spyr af því tilefni gefnu sem kemur fram í nýlegu hefti Cell research: www.nature.com/cr/journal/vaop/ncurrent/full/cr2011158a.html

Þar segja vísindamenn frá uppgötvun sem varðar áhrif erfðaefnis úr hrísgrjónum á starfsemi í spendýrafrumum. Vísindamennirnir höfðu sýnt fram á að erfðaefni úr venjulegum hrísgrjónum finnst á formi micro-RNA í vefjum og plasma spendýra, m.a. manna. Síðar komust þeir að því að RNAið sem um ræðir virðist eiga uppruna sinn í fæðunni. Þetta efni getur síðan haft áhrif á virkni gena í mönnum og músum og breytt upptöku lípíða í lifur og blóði. Með öðrum orðum, utanaðkomandi RNA er að blanda sér í þá starfsemi sem almennt hefur verið talið að erfðaefni dýranna sæi alfarið um. Þetta er dæmi um óvæntar hliðarverkunir sem kannski og kannski ekki geta breytt virkni einhverra þeirra lífvera sem er hluti af starfsemi í vistkerfinu eins og það heldur okkur uppi. Væri slík viðbót til bóta fyrir lífríkið eða skaðlegt, – eru meiri eða minni líkur á að lífverur undir áhrifum slíkra gena (já, hverfandi líkur eru samt líkur) geti raskað einhverju jafnvægi sem er núna hluti af lífsgæðum Jarðar? Gætum við fengið meira fyrir minna eða minna fyrir meira?

Og við fyrstu fullyrðingunni um athyglina á vantrúarkenningar: Vísindamenn ættu að stuðla að ríkulegri og meira málefnalegri umræðu um þessa nýju tækni og hjálpa okkur sem ekki kunna nógu mikið í stafrófi erfðafræðinnar til að spyrja réttu spurninganna. Sem sérfræðingar bera þeir mesta ábyrgð á því að öllum hliðum sé velt upp og varnaglar slegnir svo að almenningur sé upplýstur. Það þarf að vera á hreinu hver áhrif af slíkum breytingum gætu orðið og með hvaða líkum. Og það hlýtur að taka nokkrar kynslóðir vísindamanna, gangrýnenda og erfðabreyttra lífvera.

Höfundur er líffræðingur og vinnur nú að doktorsverkefni sínu.

*Ráðstefna um erfðabreytta ræktun.

Birt:
22. ágúst 2012
Höfundur:
María Hildur Maack
Tilvitnun:
María Hildur Maack „Hagfelldar erfðabreytingar“, Náttúran.is: 22. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/22/hagfelldar-erfdabreytingar/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. ágúst 2012

Skilaboð: