Íbúasamtök Laugardals standa fyrir árvissum útimarkaði laugardaginn 18. ágúst frá kl. 12:00-17:00. Í ár verður markaðurinn haldinn á „Laugatorgi“ á horni Laugalækjar og Hrísateigs þar sem boðið verður upp á sannkallaða götumarkaðsstemningu. Frú Lauga stendur við „Laugatorg“, sjá staðsetningu hér.

Á markaðnum kennir ýmissa grasa á söluborðum íbúa: föt, fínerí, geisladiskar, plötur, grænmeti, leikföng, listmunir, húsgögn, handverk, heimagerðar sultur, bækur og ber. Ávallt er mikið fjör á markaðnum enda eru skemmtilegar uppákomur stór hluti af aðdráttarafli hans. Eldhresst hæfileikafólk á öllum aldri úr Voga-, Langholts- og Laugarneshverfi mun troða upp og skemmta sér og öðrum við leik og söng – og öllum er velkomið að stíga á stokk.

Útimarkaðurinn hefur fest sig í sessi sem skemmtilegur síðsumarviðburður í hverfunum sem umlykja Laugardal og er nú haldinn í tíunda sinn. Á hverju ári er honum fundinn nýr staður á einhverju áhugaverðu opnu svæði innan Laugardalshverfanna þriggja. Á markaðsdegi geta íbúar því ekki aðeins gert góð kaup hjá tugum seljenda, skemmt sér yfir uppákomum og kynnst nágrönnum sínum og samborgurum heldur kynnast þeir einnig nýjum stöðum í Laugardalshverfunum. Íbúar hafa tekið útimarkaðnum fagnandi og í fyrra sóttu hann vel á sjötta þúsund manns.

Markmiðið með útimarkaðnum er fjölþætt, m.a. að skapa skemmtilegan hverfisbrag, að efla samskipti á jákvæðum nótum og stuðla að vistvernd með því að leggja áherslu á hvers kyns endurnýtingu. Í anda vistverndar eru allir hvattir til þess að sækja markaðinn gangandi, hjólandi eða með strætó.

Lifi markaðsmenningin!

Þarftu að rýma geymsluna? Er bílskúrinn fullur? Sultaðirðu of mikið? Geturðu ekki borðað allar rófurnar og berin? Vitlu skipta á skóalbókum eða fötum? Er saumaklúbburinn, kórinn, foreldrafélagið, bekkurinn eða íþróttafélagið að safna? Þetta er tilvalið tækifæri til fjáröflunar!

Seljendur panti pláss hjá markaðsnefnd með því að senda tölvupóst á utimarkadur@gmail.com fyrir 17. ágúst. Þátttaka kostar 500 kr. á söluaðila/borð. Greiðist á staðnum. Börn með eigin varning fá frítt. Þú kemur með borðið og dótið.

Nánari upplýsingar um útimarkaðinn veita: Kristín Þorleifsdóttir sími 693-1524, Sigríður Ólafsdóttir sími 663-9894 og Hildur Arna Gunnarsdóttir sími 846-9276

Ljósmynd: Frá útimarkaðinum í Laugardal í fyrra, mynd frá Íbúasamtökum Laugardals.

Birt:
16. ágúst 2012
Tilvitnun:
Hildur Arna Gunnarsdóttir „Útimarkaður í Laugardal“, Náttúran.is: 16. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/16/utimarkadur-i-laugardal/ [Skoðað:24. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: