Skýrsla Environice um sjálfbærnivottanir svæða
Í dag gaf Norræna ráðherranefndin út nýja skýrsla Environice um sjálfbærnivottanir á áfangastöðum ferðamanna. Höfundar skýrslunnar eru Stefán Gíslason og Venus Krantz, en skýrslan var unnin fyrir Smásamfélagahóp Norrænu ráðherranefndarinnar. Í skýrslunni er gefið yfirlit yfir helstu vottunarkerfi á þessu sviði, lagt mat á þörf norrænna samfélaga fyrir slík kerfi og settar fram tillögur um stefnu stjórnvalda á Norðurlöndunum hvað þetta varðar.
Skýrslu Stefáns og Venusar er ætlað að mynda grunn að ákvarðanatöku stjórnvalda á Norðurlöndunum um hvernig staðið skuli að vottun áfangastaða ferðamanna, en áfangastaður er í því samhengi skilgreindur sem „samfélag sem byggir tilveru sína að hluta eða að öllu leyti á ferðaþjónustu“. Með samfélagi er átt við „landfræðilegan stað eða svæði þar sem fólk býr um lengri tíma í tilteknu skipulagi og þar sem finna má sýnileg og varanleg merki um samfélagsmyndunina, svo sem hús og aðrar byggingar þar sem fólk lifir og býr. Í samfélagi sameinast hópur fólks sem deilir með sér efnahagslegum, félagslegum og efnislegum innviðum, sameiginlegum stofnunum og að meira eða minna leyti sameiginlegri menningu. Algengasta form samfélags er t.d. þéttbýlisstaður, sveitarfélag, hópur sveitarfélaga eða hérað“.
Í skýrslunni kemur fram að til staðar séu mörg mismunandi kerfi fyrir umhverfisvottanir einstakra fyrirtækja í ferðaþjónustu, en hins vegar séu vottunarkerfi fyrir áfangastaði ferðamanna teljandi á fingrum annarrar handar. Eina kerfið af slíku tagi í heiminum sé í raun EarthCheck-kerfið, sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa nýtt sér í umhverfisstarfi sínu. Hingað til hafa engin önnur kerfi komist af hugmynda- eða tilraunastigi.
Skýrsluhöfundar leggja til að Norðurlöndin þrói sitt eigið kerfi fyrir sjálfbærnivottanir á áfangastöðum ferðamanna. EarthCheck sé eina kerfið sem sé raunverulega í notkun, en vegna fjarlægðar sinnar og alþjóðlegrar nálgunar sé vandséð hvernig það geti uppfyllt þarfir norrænna samfélaga. Ekki bóli á öðrum kerfum, en sérstök ástæða sé til að fylgjast með tilraunaverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Noregs. Þar sé hugsanlega að fæðast hugmynd sem mætti þróa fyrir Norðurlöndin öll.
Þann 11. september nk. verður haldin málstofa í Stokkhólmi, þar sem farið verður yfir helstu niðurstöður skýrslunnar og leidd saman mismunandi reynsla og sjónarmið varðandi æskilega stefnu Norðurlandanna í þessum málum til framtíðar. Málstofan verður fámenn, en allir sem áhuga hafa eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Environice stýrir málstofunni og mun taka saman helstu niðurstöður hennar. Þessar niðurstöður eiga að styrkja enn frekar þann grunn að ákvarðanatöku sem fyrr var nefndur.
Yfirskrift hinnar nýju skýrslu er Hållbarhetscertifiering av turistdestinationer. Utredning av möjligheter i en nordisk kontext: Befintliga standarder eller ett nytt nordiskt system? Hún kemur út í ritröð Norrænu ráðherranefndarinnar, TemaNord (TemaNord 2012-531) og er aðgengileg á pdf-formi á heimasíðu Norrænu ráðherranefndndarinnar. Skýrslan er skrifuð á sænsku, með stuttum útdrætti á ensku.
Mynd: Forsíða skýrslunnar Hållbarhetscertifiering av turistdestinati.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Skýrsla Environice um sjálfbærnivottanir svæða“, Náttúran.is: 15. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/15/skyrsla-environice-um-sjalfbaernivottanir-svaeda/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.