Grand Hótel Reykjavík fær vottun á lífrænan morgunverð
Vottunarstofan Tún hefur staðfest að Grand Hótel Reykjavík við Sigtún í Reykjavík uppfylli reglur um meðferð lífrænna matvæla við framreiðslu á lífrænum hluta morgunverðar. Vottorð þessa efnis var formlega afhent við hátíðlega athöfn á Grand Hótel Reykjavík í dag, fimmtudaginn 9. ágúst. Með þessu er brotið blað í sögu vottunar lífrænnar framleiðslu hérlendis þar sem Grand Hótel Reykjavík er fyrsta íslenska fyrirtækið til að hljóta vottun á lífrænni veitingaþjónustu.
Með vottun Túns er staðfest, að sá hluti veitingaþjónustu Grand Hótel Reykjavík sem kynntur er sem lífrænn, byggi einvörðungu á vottuðum lífrænum hráefnum, sem haldið er aðgreindum frá öðrum matvælum á öllum stigum allt frá móttöku til framreiðslu; að aðferðir við meðhöndlun og geymslu lífrænna matvæla samræmist reglum um lífræna matreiðslu; og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur.
Matreiðsla lífrænna hráefna
Grand Hótel Reykjavík er fyrsta íslenska fyrirtækið sem hlýtur vottun til lífrænnar matreiðslu í veitingaþjónustu sinni. Hluti morgunverðarborðs hótelsins er nú eingöngu með vottuðum lífrænum matvælum, s.s. lífrænu korni og brauði, lífrænum ávöxtum, lífrænum mjólkurvörum og lífrænu áleggi. Þá býður hótelið upp á lífrænan morgunverð fyrir hópa, ráðstefnur og fundi.
Um ástæðu þess að fyrirtækið hóf að bjóða gestum sínum upp á lífrænar veitingar segir Vignir Hlöðversson yfirmatreiðslumaður hótelsins m.a.: „Grand Hótel Reykjavík gerir sér grein fyrir ört vaxandi eftirspurn eftir matvöru sem er lífrænt ræktuð og uppfyllir þannig hollustukröfur upplýstra neytenda. Grand Hótel Reykjavík lítur á það sem hlutverk sitt að uppfylla slíkar þarfir gesta sinna, og til þess að gestirnir geti verið fullvissir um að hér er ekki bara um innihaldslausa fullyrðingu um hollustu að ræða, var ákveðið að fá óháðan vottunaraðila í lífrænum matvælum, Vottunarstofuna Tún ehf. til að staðfesta að öll lífrænt ræktuð vara á morgunverðarborð hótelsins uppfylli sannanlega allar kröfur um lífræna framleiðslu.“
Grand Hótel Reykjavík er ráðstefnuhótel með 312 herbergjum, 14 ráðstefnu- og veislusölum ásamt veitingastaðnum Brasserie Grand. Hótelið hefur mótað sér umhverfisstefnu og er vottað samkvæmt viðmiðunarreglum Norræna umhverfismerkisins (Svansins) fyrir hótel. Leitast er við að kaupa umhverfisvottaðar vörur og þjónustu þegar það er mögulegt og að bjóða eins og kostur er upp á lífrænar afurðir í veitingaþjónustu hótelsins, m.a. vottaðan lífrænan morgunverð. Vignir Hlöðversson yfirmatreiðslumaður hótelsins bætir því við að vottun Túns hafi, ásamt Norrænu umhverfis-vottuninni, skerpt mjög allar áherslur í rekstrinum: „Þannig getur Grand Hótel Reykjavík nú uppfyllt þarfir hins upplýsta neytanda á sannanlegan hátt.“
Lífræn framleiðsla á Íslandi
Hér á landi stunda nú að jafnaði 70-80 aðilar vottaða lífræna ræktun, vinnslu lífrænna hráefna og söfnun náttúruafurða. Þessir aðilar framleiða nokkur hundruð tegundir vottaðra afurða fyrir markað hérlendis og einnig til útflutnings.
Vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir eða afhendingar í lausu, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar og íslenskar kröfur um lífræna framleiðslu.
Vottunarstofan Tún hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi árið 1996 og í Færeyjun árið 2006. Grand Hótel Reykjavík er handhafi vottorðs nr. 100 sem felur í sér að á þessu tímabili hafa 100 fyrirtæki og bændur hlotið vottun til lífrænnar framleiðslu hér á landi. Auk þess vottar Tún nú framleiðslu átta fyrirtækja á náttúruvörum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu.
Sjá yfirlit yfir þá aðila sem hafa vottun frá Túni hér á Grænum síðum: Aðilar með lífræna vottun frá Túni. Vottað lífrænt, eftir vörutegundum. Aðilar með vottun frá Túni fyrir náttúruafurðir og vottuð náttúruafurð eftir tegundum.
Ljósmyndir: Efst; Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns flytur ávarp við afhendingu vottunarinnar í morgun. Í miðið; „Grand Organic Breakfast“ merking á þeim hluta morgunverðarborðs Grand hótels sem býður upp á lífrænar veitingar. Neðstu tvær myndirnar; Séð yfir hluta af lífræna morgunverðarborðinu. Einar Bergmundur og Guðrún A. Tryggvadóttir tóku myndirnar.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Grand Hótel Reykjavík fær vottun á lífrænan morgunverð“, Náttúran.is: 9. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/09/grand-hotel-reykjavik-faer-vottun-lifraenan-morgun/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. ágúst 2012