Kúrbítur (Succini) Kúrbítur er nýr hér á landi en vex vel í heimagróðurhúsum. Það þarf að frjóvga hann nema skordýrin séu því iðnari. Kúrbítur er svolítið framandi og uppskriftir sem okkur henta koma smátt og smátt. Vinkona mín kom frá henni Ameríku og leit inn í gróðurhúsið og sá að ég átti fjórar kúrbítsplöntur. Hún sagði að bragði: – Eftir sumarið verðurðu búin að læra að gera kúrbítsbúðing og kúrbítssúpu, kúrbítsbrauð og kúrbítspönnukökur, kúrbítsstöppu, fylltan kúrbít og bakaðan kúrbít. En þannig hafa margar spennandi uppskriftir orðið til. Menn hafa átt mikið af einhverri tegund og þurft að finna nýja og nýja leið á hverjum degi til að nota hana. Kúrbíturinn er afar hentugur á sumrin, meðan beðið er eftir nýjum kartöflum.

Kúrbítssúpa
Súpu má gera þannig að sjóða kúrbítinn meyran og setja í matvinnsluvél og svo aftur í pott með soði eða vistvænum súputeningi og velja krydd eftir smekk. Það má prófa mismunandi krydd, eftir því hvað er á boðstólum, en mælt er með basilíku, hvítlauk, piparmintu eða marjóram með kúrbít svona almennt. Kúrbítur fer vel við hvítvín og þá má líka prófa sig áfram með mysu í staðinn, ef það hentar betur, sem oft gerir hér á landi þar sem opin hvítvínsflaska er ekki alltaf til reiðu í ísskápnum. Rjóma er gjarnan bætt í síðast. Ég skræli kúrbít yfirleitt aldrei, en þó stundum í súpu að hluta. Svo má hafa kúrbít í hvaða súpu sem er til að þykkja. Hann er bragðlítill sjálfur og víkur fyrir öðru með sterkara bragði eins og rabarbari gerir.

Steiktur kúrbítur í eggjahræru
Skerið kúrbítinn í þunnar, kringlóttar sneiðar og látið liggja á fati svo þær þorni svolítið. Á meðan er gert deig úr 100 g af fínu spelthveiti, einni eggjarauðu og 3/4 bolla af mjólk. Eggjahvítan er stífþeytt og henni blandað í deigið með trésleif og saltað ögn. Dýfið kúrbítssneiðunum í deigið og steikið í vel heitri olíu. Setjið á fat með eldhúspappír svo hann geti drukkið í sig olíuna. Haldið sneiðunum heitum í ofninum með hurðina opna, svo þær haldist stökkar uns þær fara á borðið. Þessa sömu aðferð má nota til að djúpsteikja annað grænmeti. Þeytta eggjahvítan gerir soppuna mjög létta.

Fylltur og holaður kúrbítur
Ég veit ekki af hverju þessi eini kúrbítur varð svona stór. Hann óx og óx þangað til hann varð 50 cm langur og jafnstór að ummáli þar sem hann varð gildastur og vó 3,5 kg. Hann var þó mjúkur að innan og hvergi þurr né trénaður og geymdist í kartöflugeymslunni meðan ég skrapp á garðyrkjusýningu til Kína og sá þar reyndar svona risaeintök. Þegar ég kom til baka skar ég kúrbítinn langsum, holaði að innan eins og eintrjáning, og forsauð í nokkrar mínútur – það var reyndar erfitt með þennan því hann stóð langt upp úr stærsta pottinum og þurfti að margsnúa honum. Á pönnu fór ólífuolía, hvítlaukur og perlulaukur, salvía, marjóram, basilíka, fáfnisgras, steinselja og meirihlutinn af kúrbítskjötinu, sem ég hafði tekið innanúr. Líka mulið þurrt og gott brauð og tómatar, síðast camembert- og rjómaostbitar. Þarna má bæta út í salamípylsu eða bökuðum baunum. Þegar fyllingin er tilbúin og búið að smakka og salta er henni skóflað upp í holaða kúrbítsbátana og þeir settir í eldfast fat eða ofnskúffu í vel heitan ofn í 40 mínútur. Kúrbíturinn er blautur og má vel þorna ögn. Þetta minnir á fyllta gæs. Ég er búin að gera þetta nokkrum sinnum og það er aldrei eins í tvö skipti. Salamípylsan er mjög sterk og fer ótrúlega vel við kúrbítinn. Bakaðar baunir gera meira út í sætt, en líka má nota soðnar kjúklingabaunir. Ferskir tómatar reyndust meira spennandi en tómatar úr dós. Franskur camembert meira spennandi en rjómaostur. Ég er alls ekki viss hvaða krydd fór í hvenær.

Djúpsteikt kúrbítsblóm
Blómin henta vel til djúpsteikingar. Þau eru stór og skærgul. Oftast þarf að frjóvga kvenblómin með frjói karlblómsins til að fá ávöxt. Ég geri þetta með gömlum olíulitapensli á morgnana þegar ég lít eftir. Það er auðsætt hvað er hvað, því kvenblómið hefur lítinn belg undir sér en karlblómið vex upp á mjóum stilk. Með penslinum veiði ég frjó karlblómsins og ber yfir á frævuna eins og ég sé að mála. Hafi maður nóg er dásamlegt að tína blómin og djúpsteikja þau. Það þarf þó að gerast fljótlega eftir að þau eru tínd. Gott er að stinga vænni klípu af appelsínulíkjörs- eða koníaksrjómaosti inn í blómin og snúa upp á fremst, velta þeim svo upp úr soppu (gerð eins og þykkt pönnukökudeig en án krydds og sykurs. Það má líka sleppa egginu og hafa bara mjólk og hveiti með ögn af kryddsalti eða gera eggjahræru með þeyttri hvítu eins og hér að ofan). Blómin eru steikt í olíu og höfð í forrétt. Borin strax á borð, eftir að allir eru sestir, og gjarnan höfð sojasósa með.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.

Ljósmynd: Kúrbítsjurt, sáð til og forræktuð af Hildi Hákonardóttur og ræktuð úti hjá G.T., undir akríldúk, fyrri hluta sumars. Myndin er tekin þ. 17. ágúst 2014 og var fyrsti ávöxturinn uppskorinn þrem dögum síðar, fullþroskaður. Lósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
30. ágúst 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Kúrbítur“, Náttúran.is: 30. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/krbtur/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 22. júlí 2015

Skilaboð: