Óskað eftir tilnefningum til verðlauna á Degi íslenskrar náttúru
Umhverfisráðuneytið auglýsir eftir tilnefningum til tveggja verðlauna, sem afhent verða á Degi íslenskrar náttúru, sem haldinn verður hátíðlegur öðru sinni þann 16. september næstkomandi. Annars vegar er um að ræða Fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins og hins vegar náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.
Fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins voru veitt í fyrsta skipti á Degi íslenskrar náttúru í fyrra. Verðlaununum er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana og vernda til framtíðar.
Verðlaunin verða veitt fjölmiðli, ritstjórn, blaða- eða fréttamanni, dagskrárgerðarfólki eða ljósmyndara sem hafa skarað fram úr með umfjöllun sinni um íslenska náttúru. Til greina koma einstök verkefni eða heildarumfjöllun um íslenska náttúru.
Fyrsti handhafi Fjölmiðlaverðalaunanna var Ragnar Axelsson, ljósmyndari á Morgunblaðinu, sem hlaut þau fyrir að beina sjónum að náttúruvernd og samspili manns og náttúru í verkum sínum.
Þá verður náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar. Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var baráttukona og náttúruverndarsinni sem lagði mikið á sig í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.
Viðurkenningin var í fyrsta sinn veitt árið 2010. Það ár og árið á eftir var hún afhent á Degi umhverfisins en frá og með árinu í ár verður afhending viðurkenningarinnar á Degi íslenskrar náttúru.
Fyrri viðurkenningarhafar eru Sigrún Helgadóttir sem hlaut viðurkenninguna árið 2010 fyrir framlag sitt til fræðslu barna og ungmenna, og Þóra Ellen Þórhallsdóttir sem hlaut viðurkenninguna árið 2011 fyrir vísindastörf sín í þágu íslenskrar náttúru.
Óskað er eftir tilnefningum til beggja viðurkenninga fyrir 15. ágúst 2012. Tilnefningar með rökstuðningi sendist Umhverfisráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, eða á netfangið postur@umhverfisraduneyti.is
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Óskað eftir tilnefningum til verðlauna á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 7. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/21/oskad-eftir-tilnefningum-til-verdlauna-degi-islens/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júní 2012
breytt: 14. ágúst 2012