Aldrei aftur Hírósíma! Aldrei aftur Nagasakí!
Kertafleyting á Tjörninni í Reykjavík og á Akureyri fimmtudaginn 9.ágúst.
Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorku-árásanna á Hírósíma og Nagasakí 6. og 9.ágúst 1945 og til að leggja áherslu á kröfuna um friðsaman heim án kjarnorkuvopna. Þetta er því 28 kertafleytingin hér á landi.
Kertafleytingin í Reykjavík hefst klukkan 22:30 fimmtudaginn 9.ágúst. Safnast verður saman við suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg). Fundarstjóri er Silja Bára Ómarsdóttir aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Inosuke Hayasaki sem er einn þeirra sem lifði af kjarnorkuárásina á Nagasakí 9.ágúst 1945 mun halda ávarp við upphaf kertafleytingarinnar. Að venju verða flotkerti seld á staðnum og kosta þau 500 krónur.
Ljósmynda- muna og fræðslusýning um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaí og afleiðingar þeirra verður í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu í Reykjavík. Sýningin er opin frá kl. 19:30 til 22:00 að kvöldi 9.ágúst. Það er því tilvalið að skoða hana áður en kertafleytingin hefst. Sýningin verður síðan í Borgarbókasafninu fram í miðjan september en flyst í Háskóla Íslands 14.september og til Akureyrar 13.október.
Á Akureyri verður einnig kertafleyting á sama tíma. Fleytingin verður við Minjasafnsstjörnina og hefst kl 22.00. Ræðumaður er Þórarinn Hjartarsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga á Norðurlandi. Í ár beinist athyglin að Sýrlandi og Mið-Austurlöndum.
Kertafleytingin er á vegum Samstarfshóps friðarhreyfinga, sem er samstarfsverkefni sjö friðarsamtaka og -hópa. Nánari upplýsingar veitir: Ingibjörg Haraldsdóttir, sími: 849-5273, inghar@centrum.is
Þegar 40 ár voru liðin frá kjarnorkuárásunum, komu hingað til lands japanir sem lifðu af hina hörmulegu atburði til að segja sögu sína og leggja áherslu á að ALDREI AFTUR mætti gera slíkar kjarnorkuárásir á fólk. Kjarnorkuvopn nútímans eru margfalt öflugri en sprengjurnar tvær sem drápu tugþúsundir í Hírósíma og Nagasakí fyrir tæpum 70 árum. Afleiðingarnar sem beiting slíkra vopna hefði í dag yrðu á sama hátt margfalt meiri og áhrif geislunarinnar sömuleiðis. En það er fleiri vopn geislavirk en langdrægar kjarnorkueldflaugar. Á síðustu árum hefur orðið sífellt meira um notkun vopna með auðguðu úrani. Frásagnir frá svæðum þar sem þessum vopnum hefur verið beitt eins og til dæmis Téténíu, Afganistan, Írak og í Líbýu eru á einn veg: stóraukin tíðni krabbameinstilfella, fósturdauði og alvarlegir fæðingargallar. Með kerta-fleytingunni leggja íslenskar friðarhreyfingar lið alþjóðlegri baráttu gegn notkun úranvopna auk þess að minnast fórnarlamba árásanna á Hiroshima og Nagasaki.
Krafan er: Heimur án kjarnorkuvopna.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Aldrei aftur Hírósíma! Aldrei aftur Nagasakí!“, Náttúran.is: 7. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2012/08/07/aldrei-aftur-hirosima-aldrei-aftur-nagasaki/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.