Söl
Um þau segir Magnús Stephensen í hugvekjum 1808:
„Sérhver sjóarbóndi og sömuleiðis margt sveitafólk gjörþekkir söl, sem eru almenn fæða fjölda manna í nokkrum héruðum, einkum Árness-, Borgarfjarðar og Dalasýslum, hvar þeim jafnvel er til sölu í uppsveitir töluvert safnað, hvar þau og seljast dýrum dómum, einkum fyrir beztu landaura, smjör, kjöt, ull, skinn og brúkast jafnaðarlega til mannafæðis...
Um kraft og næringu sölva til manneldis er margra þjóða reynsla, og vorrar eigin fullnóg um fleiri undanfarnar aldir, og ber saman þar um, að þau gefi eitthvert hið hollasta og mest nærandi fæði fyrir menn og fénað undir eins og ljúffengt að smekk“.
Jón Pálsson, fyrrv. bankagjaldkeri, hefir gefið mér tvær uppskriftir af matreiðslu sölva, þessar hefir hann reynt sjálfur og gefizt ágætlega. Uppskriftirnar eru eftir norskum ritum, og eru á þessa leið:
Sölvagrautur
- 30 gr. söl
- 1/2 l. mjójlk
- 1 msk. sykur, salt
- 1 egg
Sölin eru þvegin og afvötnuð í volgu vatni í 1 klst. Þá eru þau tekin upp úr vatninu og soðin í mjólk í 1/2 klst. Hrærðu eggi og sykri er blandað saman við og soðið hægt og hrært í 10 mínútur. Þegar grauturinn er orðinn límkenndur er hann soðinn. Salt, sykur og dropar látið eftir smekk. Hann er látinn kólna og borðaður með mjólk.
Söl með sveskjubýting
- 110 gr. sveskjur
- 30 gr. söl
- Sykur eftir vild
- 1/2 sítrónuhýði
Sveskjurnar og sölin eru þvegin og lagt sitt í hverja skál með 1/4 l. af heitu vatni, og látið standa yfir nóttina. Næsta dag eru sveskjurnar hitaðar í vatninu sem þær hafa legið í, og soðnar við hægan hita í 10 mín. Sveskjurnar færðar upp og steinarnir teknir úr þeim, og þær lagðar í skál. Sölin, með vatninu, sem þau hafa legið í, er hellt í sveskjulöginn og allt soðið í 1/2 klst. með sítónuhýðinu. Þessu er hellt yfir sveskjurnar. Borðað kalt með eggjamjólk eða rjóma.
Mynd af sölvum af marlin.ac.uk.
Úr bókinni Grænmeti og ber allt árið eftir Helgu Sigurðardóttur.
Birt:
Tilvitnun:
Helga Sigurðardóttir „Söl“, Náttúran.is: 6. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2009/09/05/sol/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. september 2009
breytt: 1. janúar 2013