Hvað er kundalini jóga?
Við íslendingar erum þekktir fyrir að vera dugleg þjóð og má nefna sem dæmi að orðið “duglegur” er ekki til í rómönskum málum eins og ítölsku og frönsku. Ef eitthvað er þá eigum við það kannski til að vera helst til vinnusöm. Þetta getur á löngum tíma orðið til þess að við hættum að kunna að slaka á og njóta lífsins og verður jafnvel að þunglyndi, síþreytu eða öðrum streitutengdum sjúkdómum ef ekki er varlega farið. Þess vegna ætti það ekki að koma á óvart að vaxandi áhugi er fyrir ýmsum leiðum til að læra að slaka á, losa um spennu og finna aukinn tilgang með tilvist sinni. Jóga í ýmsum myndum hefur notið vaxandi vinsælda og þar er svo sannarlega um auðugan garð að gresja. Margar tegundir af jóga eru í boði. Þar má nefna ýmsar tegundir Hatha jóga, eins og Kripalu jóga, Ashtanga jóga og Iyengar jóga. Og svo eru til tegundir af jóga sem leggja eingöngu upp úr hugleiðslu eins og Raja jóga. Kundalini jóga er tegund af jóga sem var áður lítt þekkt af almenningi, var aðeins kennt fáum útvöldum og yfir því hvíldi alltaf ákveðin leynd.
Kundalini jóga
Kundalini jóga er stundum kallað móðir allrar jógaiðkunar. Það var kennarinn Yogi Bhajan sem færði Vesturlandabúum Kundalini jóga fyrst og þróaði mjög markvisst kerfi sem þjónar hinum venjulega manni. Það er fyrst og fremst leið til að koma jafnvægi á allra innri starfsemi, eins og innkirtlakerfi, taugakerfi og meltingu. Og til að styrkja bæði líkama og huga svo við getum betur tekist á við þau verkefni sem lífið lætur okkur í té. Kundalini þýðir “lokkur úr hári hins heittelskaða” og er líkingamál sem minnir okkur á að Guð eða frumkraftur alheimsins býr í okkur öllum. Allir sem hafa einhvern tíma upplifað einhvers konar andlega upplyftingu, hvort sem það er í kirkju, í hugleiðslu eða við aðra andlega iðkun, hafa fundið kundalini orkuna sína lyftast upp.
Fyrir venjulegt fólk
Að vera vakandi
Kundalini þýðir í raun meðvitund. Að vera vakandi. Og kundalini orkan okkar er alltaf á hreyfingu, hvort sem við stundum jóga eða ekki. Við getum í gegn um æfingakerfi kundalini jóga lært að halda meðvitund, þrátt fyrir allt áreiti samfélagsins. Kundalini er stundum ruglað saman við aðra alveg óskylda hluti. Og því hefur stundum verið haldið fram að það sé varhugavert að hreyfa við kundalini orkunni. Til eru margar leiðir sem kenna sig við Kundalini. Yogi Bhajan lagði alltaf áherslu á að koma jafnvægi á manneskjuna í heild. Það er jafn mikilvægt að rækta líkamann, tilfinningarnar og andann. Við getum ekki búist við að ná árangri í lífinu ef við ætlum að taka einn þátt fram yfir annan. Það endar alltaf með því að við erum ekki í jafnvægi og ekki sátt. Yogi Bhajan sagði einhvern tíma að það eina sem væri hættulegt við kundalini jóga væri sá sem hefði náð að stýra kundalini orkunni sinni upp á við. “Sá einstaklingur er algerlega meðvitaður. Það er ekki hægt að ljúga að honum eða fara á bak við hann eða hafa pólitísk áhrif á hann.”
Kundalini jóga er ekki stundað til að skapa einhverjar kosmískar upplifanir. Lífið er alveg nógu spennandi. Við sem höfum kveikt á kundalini jóga, stundum það til að rækta vitund okkar og finna okkur sjálf vaxa og styrkjast, meðvitaðri um okkar eigin orku og um það hvað við erum rík innra með okkur. Hér á Íslandi erum við tvær sem kennum kundalini jóga. Hægt er að lesa sér meira til um Kundalini jóga á; www.andartak.is. Að lokum ætla ég að vitna einu sinni enn í Yogi Bhajan: Hann sagði að fæðingarréttur okkar allra væri að verða heil, hamingjusöm og heilbrigð og þetta er það sem Kundalini jóga miðar að.
Mynd frá wingmakers.co.nz sýnir kundaliniorkuna í formi slöngu sem liðast upp hryggjarliðina en kundaliniorkan er oft sýnd í formi slöngu sem krossast á fjörum stöðum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arnalds „Hvað er kundalini jóga?“, Náttúran.is: 26. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/25/hvao-er-kundalini-joga/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. febrúar 2009
breytt: 30. júlí 2012