Rauðrófur
Það er ekki auðvelt að rækta rauðrófur úti þótt sumum takist það. En það má líka reyna inni. Þessar fáu er ágætt að borða hráar í sneiðum. Þær eru lostæti. Það er líka hægt að pressa úr þeim safann ef maður á nóg eða súrsa. Þær geymast best af öllum rótarávöxtum. Það er sagt að rauði liturinn stafi af járni og það sé gott, einkum fyrir konur og börn. Þegar rauðrófur eru soðnar skal sjóða þær heilar, með halanum á, til að missa ekki kraft og lit út í vatnið. Nú er tími græna salatsins að fjara út og þá má gera haustsalat úr jarðargróðri sem er þéttari í sér. Nú er meira soðið og minna borðað hrátt.
Rauðrófusalat með hvítkáli
1–2 bollar rifnar rauðrófur soðnar
1–2 bollar fínstrimlað hvítkál
Sósa er gerð úr 1 msk af hverju – sítrónusafa, vatni og rifinni piparrót – og 3 msk af olíu.
Rauðrófusalat með piparrótarsósu1–2 bollar rifnar rauðrófur soðnar
1 epli (gjarnan grænt)
Í sósuna fer: 1 dl þeyttur rjómi eða súr rjómi og 1–2 msk rifin piparrót (eða jurtasalt og kúmen, ef piparrót er ekki til).
Rauðrófusúpa eða borsh
500 g rauðrófur
2 gulir laukar
1 gulrót
200 g hvítkál
1–2 msk smjör eða olía
1 l grænmetissoð
salt, pipar og lárviðarlauf
Allt grænmetið, nema ein rauðrófa, er skorið í bita og brúnað í potti. Soðinu hellt yfir og kryddinu bætt í. Soðið í 30 mín. Rauðrófan, sem skilin var eftir, er rifin hrá út í súpuna þegar 5 mínútur eru eftir af suðutímanum, þá verður súpan fallega dökkrauð á litinn. Steinselju er stráð yfir um leið og borið er á borð. Gott að bera fram með súrum rjóma og heilhveitibollu bakaðri með kúmeni.
Sýrðar rauðrófur
Sjóðið rauðrófurnar og ef þær eru mjög misstórar þarf að taka þær minnstu upp úr suðunni á undan hinum stærri. Kælið, strjúkið hýðið af og skerið í sneiðar eða bita. Lögur er gerður úr einum l af góðu ediki móti 200–300 g af sykri, þetta er soðið saman og því hellt yfir rauðrófurnar. Sett í krukkur með smellilási. Getur geymst vel í 3 mánuði í kulda.
1–2 bollar rifnar rauðrófur soðnar
1 epli (gjarnan grænt)
Í sósuna fer: 1 dl þeyttur rjómi eða súr rjómi og 1–2 msk rifin piparrót (eða jurtasalt og kúmen, ef piparrót er ekki til).
Ljósmynd: Rauðrófur, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Rauðrófur“, Náttúran.is: 30. júní 2015 URL: http://nature.is/d/2007/11/12/raurfur/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. nóvember 2007
breytt: 30. júní 2015