Í þriðjudagsgöngu vikunnar, þann 17. júlí verður boðið upp á útijóga með jógakennaranum Ragnheiði Ýr Grétarsdóttur. Ragnheiður er jógakennari, sjúkraþjálfari og tölvunarfræðingur að mennt og hefur undanfarin ár kennt leikfimi og jóga. Jógaiðkun verður vinsælli með hverju ári sem líður og æ fleiri  tileinka sér þessa þjálfun líkama og hugar. Jógaiðkunin verður létt og leikandi; byrjað með léttum upphitunaræfingum og svo verður gengið um Viðey. Stoppað er nokkrum sinnum á leiðinni og gerðar standandi æfingar og öndunaræfingar. Göngunni lýkur með góðum teygjum á upphafsstað.
Viðey skartar sínu fegursta í júlí og um að gera að njóta útiveru í náttúrunni nú meðan dagur er hvað lengstur. Áhugasömum er bent á að mæta í þægilegum skóm og þægilegum klæðnaði eftir veðri. Gangan er ókeypis og allir velkomnir, börn og fullorðnir.

Í sumar er kaffihúsið Í Viðeyjarstofu opið á þriðjudagskvöldum en alla jafna er það opið til kl. 18:00. Aukaferðir til Viðeyjar á þriðjudögum eru kl. 18:15 og 19:15 svo þau kvöld geta gestir komið til Viðeyjar klukkustund áður en leiðsögn hefst og notið þess að borða kvöldverð í Viðeyjarstofu.  Í göngulok er svo upplagt að tylla sér niður við Viðeyjarstofu, njóta kvöldsólarinnar yfir sundunum og fá sér hressingu áður en haldið er heim á leið um kl. 22:00.
Gjald í ferjuna er kr. 1000.- fyrir fullorðna og kr. 500.- fyrir börn 7-15 ára í fylgd fullorðinna. Frítt fyrir 6 ára og yngri. Handahafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og í Viðeyjarstofu.

Ljósmynd: Viðeyjarstofa í Viðey, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
13. júlí 2012
Uppruni:
Reykjavíkurborg
Tilvitnun:
Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir „Þriðjudagsganga í Viðey 17.júlí – Útijóga með Ragnheiði Ýr“, Náttúran.is: 13. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/13/thridjudagsganga-i-videy-17juli-utijoga-med-ragnhe/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: