"Hér er fólk á öllum aldri að selja föt, barnaföt, tungu- og naflalokka og alls konar dót úr geymslunni," segir Berta Guðrún Þórhalladóttir, stofnandi flóamarkaðarins Múlatorgs. Markaðir með notaðan varning hafa sprottið upp víða um landið síðustu ár. Margir þeirra eru einungis opnir yfir eina helgi en sumir, eins og Kolaportið, hafa opið hverja helgi. Múlatorg er ólíkt fyrrgreindum mörkuðum opinn á virkum dögum, það er á fimmtudögum og föstudögum.

"Þetta er búið að vera rosa gaman og básarnir voru uppbókaðir í síðustu viku," segir Berta en markaðurinn hefur verið opinn að Fellsmúla 28 undanfarnar þrjár vikur við góðar undirtektir. Berta hugðist upphaflega leigja bás í Kolaportinu en fann ekki laust pláss sem hentaði. "Ég vissi að húsnæðið við hliðina á Góða hirðinum var laust og fékk þá hugmynd að nota það fyrir nýjan flóamarkað. Ég auglýsti á Barnalandi og fékk fullt af fólki með mér í lið. Þannig byrjaði boltinn að rúlla," segir hún og bætir við að góður andi ríki. "Ég seldi með fyrsta hópnum og við náðum öll mjög vel saman. Hér hjálpast allir að og þó einhver þurfi að skreppa fær hann bara aðilann í næsta bás til að selja fyrir sig."

Berta hafði setið á hugmyndinni í nokkurn tíma en ákvað að hrinda henni í framkvæmd í fæðingarorlofinu sínu. "Ég þarf alltaf að hafa nóg fyrir stafni og get haft hann með mér í þessari vinnu," segir Berta, sem hefur haft tæplega eins árs son sinn með sér við framkvæmd verkefnisins.

Hún er undrandi yfir því hve margir eru lausir á virkum dögum. "Fólk er auðvitað í sumarfríi, sumir í vaktavinnu og aðrir eru kannski ekki með vinnu." Hún segir staðsetningu markaðarins spila stóran þátt í góðri aðsókn. "Það er alltaf röð fyrir utan Góða hirðinn klukkan tólf og síðan kíkir fólk við eftir að hafa heimsótt nytjamarkaðinn."

Berta leigir básana fyrir lítinn pening og er vongóð um framhaldið. "Til að byrja með mun plássið vera ódýrt og kosta aðeins tvö þúsund krónur fyrir bás með borði og slá. Svo veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér en ég get vel séð fyrir mér að hafa lifandi hljómflutning, kaffiaðstöðu og jafnvel ákveðið þema í hverri viku."

Sjá Múlatorg á Grænum síðum.

Sjá Múlatorg á Facebook.

Birt:
10. júlí 2012
Höfundur:
Hallfríður
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Hallfríður „Nýr flóamarkaður fyrir fólk í fjársjóðsleit á virkum dögum “, Náttúran.is: 10. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/10/nyr-floamarkadur-fyrir-folk-i-fjarsjodsleit-virkum/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: