Kálflugan barst hingað til lands um 1930, sennilega með rófum*. Þann 20. júní er kálflugan (Delia radicum) hvað sprækust að leggja egg í kálgarðana okkar en reikna má með sex dögum fyrir og sex dögum eftir þ 20. júní (gildir fyrir árið 2009 en er örlítið mismunandi milli ára).

Lýsing á kálflugunni og lífsferli hennar:

Flugurnar eru um 6 mm langar og svipar til húsflugna (sjá 1. mynd). Karldýrið er steingrátt og þétthært, en kvendýrið er ljósgrátt silfurgrátt og gishært. Kvendýrið er með keilulaga afturbol, en afturbolurinn á karlinum er grannur og jafnbola. Bil milli augna ofan á höfði er mun meira hjá kvendýrinu en karldýrinu og utan um augu kvendýrsins er áberandi silfurgrár hringur.

Eggin eru um það bil 1 mm að lengd, íbjúg, hvít eða mjólkurlit. Eftir bugnum liggur djúp rauf og eftir endilöngu egginu liggja greinilegar gárur. Framendi eggsins er hálfkúlulaga, en afturendinn þverstýfður.

Nýklaktar lirfur eru um 1 mm að lengd, en fullvaxnar tæpur sentimetri. Lirfurnar eru hvítar, fótalausar og höfuðið rýrt. Á framenda lirfunnar eru tveir svartir bitkrókar. Á afturendanum eru tvö öndunarop og auk þess 12 vörtur og er lögun þeirra og staðsetning einkennandi fyrir tegundina.

Púpan er svokölluð „tunnupúpa“, þ.e. a.s. hin raunverulega púpa liggur innan í hylki sem myndað er af næstsíðustu lirfuhúð. Púpan er ljósbrún rauðbrún, 6–7 mm að lengd. Lögun og staðsetning vartna á afturenda er sú sama og hjá lirfunni og er því einnig auðvelt að greina púpuna frá púpum annarra tegunda.

Lífsferill

Lífsferill kálflugna skiptist í fjögur skeið, eins og raunin er um fjölda annarra skordýra (sjá 1. mynd). Eggjum er verpt fyrri hluta sumars og skríða úr þeim lirfur sem púpa sig þegar haustar. Næsta vor klekjast fullvaxnar flugur úr púpunum, makast og verpa. Klaktími kálflugna fer eftir því hvernig vorar, en hér eru kálflugur yfirleitt að skríða úr púpum á tímabilinu frá síðari hluta júní og fram undir miðjan júlí (20). Karlýþrið klekst út á undan kvendýrinu.

Að klaki loknu leita flugurnar uppi fæðu og makast og síðan verpir kvenflugan við rótarháls hýsilplöntunnar, sem er kál, rófur eða aðrar plöntur af krossblómaætt (Brassicaceae). Varp virðist yfirleitt vera í tveimur lotum. Fyrri lotan er venjulega í byrjun júlí, en sú seinni undir lok mánaðarins. Hér hafa engar rannsóknir verið gerðar á klaktíma kálflugueggja, en af erlendum athugunum má ráða að hér líði vika til hálfur mánuður frá því eggjunum er verpt og þar til þau klekjast. Í venjulegu árferði klekjast því egg hér úr fyrri varphrotunni væntanlega um eða rétt fyrir miðjan júlí. Nýklaktar lirfur laðast að lykt krossblóma. Þær skríða að plöntunni og niður með rótarhálsinum.

Lirfustig eru þrjú. Á öðru lirfustigi myndast tvö öndunarop framarlega á lirfunni og greina þau eldri lirfustigin tvö frá fyrsta stigs lirfum. Auk þess má greina lirfustigin sundur eftir stærð og lögun bitkrókanna (4). Lirfurnar naga í fyrstu yfirborð rótanna og þá oft margar saman, en síðan éta þær sig inn í vefinn ein og ein. Fyrir kemur að kálflugulirfur éti ofanjarðarhluta plantna. Þannig á kálmaðkur það til að skemma blómkálshausa og sprotakál. Þetta gerist einkum ef vætusamt er, en er fremur sjaldgæft. Plöntur sem eru illa leiknar af kálmaðki fá rauðblá blöð, auk þess sem elstu (neðstu eða ystu) blöð visna. Þetta eru í raun skortseinkenni og stafa af því að blöðum plöntunnar berast ekki nægileg næringarefni vegna skemmda á rótarkerfinu. Þegar haustar yfirgefa lirfurnar ræturnar og skríða út í moldina, þar sem þær púpa sig á 5–20 sentimetra dýpi. Hér virðast lirfur byrja að púpa sig í byrjun september. Ef illa sumrar ber hins vegar nokkuð á því að lirfur nái ekki að púpa sig fyrir veturinn. Hér líður því um það bil hálfur annar mánuður frá því lirfan skríður úr eggi þar til hún púpar sig.

Púpan fellur í dvala að púpun lokinni. Dvalinn rofnar ekki fyrr en púpan hefur legið um nokkurt skeið við lágan hita. Samkvæmt erlendum rannsóknum rofnar dvalinn eftir um þriggja mánaða dvöl við minna en 5°C (7). Þegar dvala er lokið getur þroskun púpunnar hafist jafnskjótt og fer að vora og hlýna.

Samspil hita og lífsferils
Lífsferill kálflugunnar er mjög háður hita. Skordýr þroskast eingöngu innan ákveðinna hitamarka. Sé hiti innan þeirra marka fer þroskunarhraði vaxandi með auknum hita uns hámarki er náð. Hiti yfir þessum mörkum takmarkar þroskun og dregur lífveruna loks til dauða. Það er unnt að ákvarða með tilraunum hversu hratt lífveran þroskast við mismunandi hitastig og út frá slíkum niðurstöðum er t.d. hægt að spá fyrir um hvenær kálflugur skríði úr púpum. Til þess er gjarnan beitt svokölluðum daggráðureikningi. Fyrst þarf að ákvarða hversu hár hitinn þarf að vera að lágmarki til þess að þroskun hefjist. Þetta gildi kallast þröskuldsgildi þroskunar. Sé hiti yfir þröskuldsgildi er gert ráð fyrir að þroskunarhraðinn sé í réttu hlutfalli við hita. Daggráður hvers sólarhrings reiknast því einfaldlega sem sá hiti sem er umfram þröskuldsgildið. Sé þröskuldsgildið 5°C og meðalhiti sólarhrings 20°C þá er daggráðugildi hvers sólarhrings 15°D (en daggráðugildi er gjarnan táknað með °D). Það má því segja að lífvera sem þarf 5° hita til að hún geti yfirleitt þroskast hafi 15 gráðum úr að spila til þroskunar á hverjum þeim degi sem nær meðalhitanum 20°C.

Áhrif hita á klaktíma íslenskra kálflugna hafa verið rannsökuð (19). Púpum var safnað að hausti og þær geymdar við lágan hita, uns dvali var rofinn. Púpurnar voru síðan settar til klaks við fimm mismunandi hitastig; 8,2°, 11,3°, 14,2°, 17,5° og 20,2°C og fylgst með klaki. Að meðaltali þurftu púpurnar að vera í tæpa tvo mánuði við 8,2°C til að kvenflugur skriðu úr púpum, en körlunum dugði ríflega einn og hálfur mánuður. Við 20,2°C dugði hins vegar tæpur hálfur mánuður til að klekja báðum kynjum úr púpum.. **

*Heimild: Ritmálasafn Háskólans.
**Hægt er að lesa alla greinina á landbunadur.is,

Efri mynd er af karlflugu en sú neðri af kvenflugu kálflugunnar.

Birt:
4. júní 2014
Tilvitnun:
Guðmundur Halldórsson og Sigurgeir Ólafsson „Kálflugan, meindýr í kálgarðinum“, Náttúran.is: 4. júní 2014 URL: http://nature.is/d/2009/06/20/kalflugan-meindyr-i-kalgaroinum/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. júní 2009
breytt: 4. júní 2014

Skilaboð: