Umhverfiskerfi - Viðmið

Umhverfisflokkun Vakans er fyrirtækjum sem taka þátt í gæðakerfi Vakans þeim að kostnaðarlausu. Þátttaka í umhverfiskerfinu er ekki skilyrði, en sjálfsagt fyrir ábyrg fyrirtæki að sækja um að fá þessa flokkun. Athugið að ekki er eingöngu hægt að taka þátt í umhverfiskerfinu, þ.e. það stendur eingöngu þátttakendum í gæðakerfinu til boða.

Þrjú stig umhverfisviðmiða

Umhverfisviðmiðin eru notuð til að meta hvar fyrirtæki er statt með tilliti til umhverfismála og tengingar við samfélagið. Sjálfbærni felur einmitt þetta tvennt í sér, auk efnahagslegra þátta. Í framhaldi af úttekt fær fyrirtæki Brons, Silfur eða Gull. Þau fyrirtæki sem þegar eru með ISO 14001, Svaninn eða Earth Check fá gull án úttektar, að því tilskildu að þau uppfylli tilteknar kröfur um samfélagslega ábyrgð.

Brons, Silfur og Gull,

Gátlisti og hjálpargögn

Umhverfisviðmiðunum fylgir einfaldur gátlisti. Hann hjálpar til við að greina hvar fyrirtækið er statt á leið sinni í átt að sjálfbærri ferðaþjónustu. Þennan lista þurfa stjórnendur fyrirtækisins að fylla út þegar sótt er um umhverfisflokkunina.  Gátlistinn gefur vísbendingar um hvað sé hægt að gera betur og um leið myndar hann grunn að aðgerðaáætlun. Viðmiðunum fylgja einnig önnur hjálpargögn, svo sem vöktunareyðublöð, góð ráð og tillögur að yfirlýsingu fyrirtækisins um ábyrga og sjálfbæra ferðaþjónustu.

Öll fyrirtæki sem þátt taka í Vakanum skulu einnig samþykkja og fylgja siðareglum Vakans.

Gátlistinn gefur vísbendingar um hvað sé hægt að gera betur og um leið myndar hann grunn að aðgerðaáætlun.

Nánar um umhverfisviðmiðin

Umhverfiskerfið byggir á átta höfuðflokkum:

  • Stefnumótun og starfshættir - Er búið að kynna sýn og stefnu fyrirtækisins fyrir starfsfólki?
  • Innkaup og auðlindir - Er hugað að líftímakostnaði við innkaup og aðrar ákvarðanir?
  • Orka - Er reglulegt eftirlit og viðhald á kæli- og hitakerfum?
  • Úrgangur - Er gleri, pappír, plasti eða málmum skilað til endurvinnslu?
  • Náttúruvernd - Er stutt við uppgræðslu lands?
  • Samfélag - Á fulltrúi fyrirtækis  sæti í nefnd eða stjórn samtaka í héraði?
  • Birgjar og markaður - Er vitað hvar hráefni eru framleidd og hvernig staðið er að framleiðslunni?
  • Upplýsingar til viðskiptavina - Fá viðskiptavinir fræðslu um áherslur fyrirtækisins varðandi náttúruvernd?

Umhverfisviðmið - brons

Til að fá brons þarf fyrirtækið að hafa gripið til a.m.k. 6 aðgerða, þar af a.m.k. einnar aðgerðar (sjá gátlista) á hverju sviði til að::

  • Minnka úrgang
  • Spara orku (t.d. eldsneyti, rafmagn og heitt vatn)
  • Stuðla að vistvænni innkaupum

Umhverfisviðmið, silfur

Til að fá silfur þarf fyrirtækið að hafa uppfyllt bronsviðmiðin og gert reglulegar mælingar í 6-12 mánuði. Einnig þarf að sýna fram á árangur á a.m.k. einu sviði sem getið er um í aðgerðaáætlun fyrirtækisins, t.d. varðandi:

  • Minnkun úrgangs
  • Sparnað á rafmagni
  • Sparnað á heitu vatni
  • Sparnað á eldsneyti

Umhverfisviðmið - gull

Til að fá gull þarf fyrirtækið að hafa uppfyllt silfurviðmiðin og gripið til a.m.k. 25 aðgerða, þar af a.m.k. fimm aðgerða (sjá gátlista) á hverju eftirtalinna sviða:

  • Minnka úrgang
  • Spara orku (t.d. eldsneyti, rafmagn og heitt vatn)
  • Stuðla að vistvænni innkaupum

Auk þess þurfa að liggja fyrir upplýsingar um framlög fyrirtækisins til a.m.k.:

  • Eins verkefnis á sviði náttúruverndar
  • Eins verkefnis á sviði samfélagsmála

Opna umhverfisviðmið (PDF).

Sjá þá aðila sem hafa náð umhverfisviðmiðum Vakans hér á Grænum síðum.

Birt:
21. september 2012
Höfundur:
Ferðamálastofa
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Vakinn - umhverfiskerfi“, Náttúran.is: 21. september 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/06/vakinn-umhverfismerki/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. júlí 2012
breytt: 21. september 2012

Skilaboð: