Ólöf Örvarsdóttir ráðin sviðsstjóri nýs Umhverfis- og skipulagssviðs
Staða sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar var auglýst laus til umsóknar þann 26. maí og rann umsóknarfrestur út tveimur vikum síðar, eða þann 11. júní síðastliðinn. Alls sóttu 38 einstaklingar um stöðuna en sex drógu umsóknir sínar til baka áður en nafnalisti yfir umsækjendur var gerður opinber. Því var unnið úr 32 umsóknum í ráðningarferlinu. Ráðgjafar Capacent Ráðninga höfðu umsjón með ferlinu.
Ólöf Örvarsdóttir lauk meistaragráðu frá Arkitekthögskolen í Osló árið 1995. Að því loknu starfaði hún á teiknistofu og var verkefnisstjóri hjá Borgarskipulagi (Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar) til ársins 2007. Í framhaldi af því gegndi hún starfi aðstoðarskipulagsstjóra þar til hún tók við stöðu skipulagsstjóra Reykjavíkur árið 2008. Ólöf gegndi stöðunni tímabundið þar til hún var formlega ráðinn skipulagsstjóri haustið 2009.
Ólöf býr að dýrmætri reynslu sem starfsmaður og stjórnandi hjá Reykjavíkurborg í 11 ár. Hún hefur borið ábyrgð á stefnumótun, rekstri og mannahaldi hjá Skipulags- og byggingarsviði með frábærum árangri frá því að hún tók við stöðu skipulagsstjóra. Í starfi sínu hefur hún tekist á við krefjandi áskoranir og leyst flókin úrlausnarefni í starfsemi sviðsins með farsælum hætti fyrir Reykjavíkurborg, starfsmenn sviðsins og íbúa.
Ólöf hefur haldið fjölda erinda fyrir hönd Reykjavíkurborgar hér á landi og erlendis á íslensku, ensku og norrænum tungumálum. Hún hefur verið valin til setu í fjölmörgum starfshópum á vegum borgar og ríkis.
Ólöf hefur lagt ríka áherslu á kynningu og samráð við borgarbúa í vinnu sinni og stefnumótun á sviði skipulagsmála í Reykjavík. Hún hefur einlægan áhuga á umhverfismálum, vistvænum rekstri og grænu hagkerfi og sér mörg sóknartækifæri í sameinaðri starfsemi nýs Umhverfis- og skipulagssviðs.
Umsagnaraðilar Ólafar eru á einu máli um færni hennar í mannlegum samskiptum. Hún þykir mjög hæf, harðdugleg og traust í samstarfi. Hún er fæddur leiðtogi og á auðvelt með að fá fólk á sitt band með hvatningu, samvinnu og bjartsýni að leiðarljósi.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Ólöf Örvarsdóttir ráðin sviðsstjóri nýs Umhverfis- og skipulagssviðs “, Náttúran.is: 5. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/05/olof-orvarsdottir-radin-svidsstjori-nys-umhverfis-/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.