Ekkert fer til spillis. Högni Stefán Þorgeirsson er húsgagnahönnuður með hugsjón. Hann notar nær einungis notuð vörubretti í framleiðslu sína og nýtir þau til fulls. Sagið fer ekki einu sinni til spillis.

Arctic Plank heitir fyrirtækið sem meðal annars sá um gólfin á KEX hostel og húsgögn, hillur og ljós á Sushi samba. Högni Stefán Þorgeirsson er eigandi fyrirtækisins og segir að það sé alltaf eitthvað nýtt í bígerð: "Nú síðast hönnuðum við og smíðuðum stóla og kolla fyrir nýja veitingastaðinn við Geysi í Haukadal," segir Högni og bætir við að þeir hafi allir verið unnir úr vörubrettum eins og svo margt annað sem fyrirtækið hannar. Útkoman er ekki aðeins flott heldur einnig afar umhverfisvæn því vörubrettin sem þeir nota hefðu annars endað á haugunum. Mætti jafnvel segja að endurnýting væri hálfgerð ástríða Högna: "Ég einsetti mér það að ég ætlaði að ná 100% nýtingu úr vörubrettunum og það er að takast," segir hann og bætir við: "Meira að segja sagið fer í hesthúsin."

Öll framleiðsla Arctic Planks er handunnin og því fer gífurleg vinna í hvert verkefni. Starfsmennirnir eru þrír samtals og vinna þeir hörðum höndum að auka veg fyrirtækisins og það gengur vel. "Við gerðum 78 rennihurðir fyrir hótel niðri í bæ," segir Högni og bætir við að enn sem komið er séu viðskiptavinir aðallega veitingastaðir og fyrirtæki. Engu að síður hafi nokkrir einstaklingar keypt eintak af nýjasta stólnum sem hannaður var fyrir Geysi.

Hingað til hafa vörubrettin verið aðalefniviður Arctic Planks en nú hefur fleira bæst við, til að mynda steypa. Arnar Freyr Halldórsson er aðalsteypumeistari fyrirtækisins. Högni segir að þessi nýjung samsvari umhverfishugmyndum fyrirtækisins vel: "Steypan sem við notum er meðal annars unnin úr gömlu múrgrjóti og öðru sem til fellur." Auk steypunnar hefur fyrirtækið skoðað möguleikann á að endurnýta gömul rafmagnskefli: "Ég er til dæmis með eitt risakefli fyrir utan hjá mér núna og ætla að gera úr því útieldstæði með bekk í kring," segir Högni og er bjartsýnn á framtíðina: "Það er alveg nóg af skemmtilegum hugmyndum og verkefnum úr endurunnu efni."

Arctic Planks
eru aðeins að færa út kvíarnar en Högni er á leið til New York til að funda með virtum arkitektum þar í borg. Hann tekur fram að þessi starfsemi sé enn á byrjunarstigi og því smá í sniðum.

Nánari upplýsingar um fyrirtækið og verkefni þess má lesa á vefsíðunni www.arcticplank.com og þar er einnig hægt hafa samband við Högna.

Birt:
2. júlí 2012
Höfundur:
halla@365.is
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
halla@365.is „Endurnýtir vörubretti“, Náttúran.is: 2. júlí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/07/02/endurnytir-vorubretti/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. júlí 2012

Skilaboð: