Sojamjólk er oft notuð fyrir börn sem þola ekki kúamjólk eða ef móðurmjólkin nægir ekki fyrstu mánuðina. En það er hægt að gera mjólkursígildisdrykk úr öðru en sojabaunum, sumir hafa líka ofnæmi fyrir sojabaunum. Sagt er að forða megi ungum börnum frá því að fá ofnæmi seinna á ævinni ef að þeim er ekki gefin kúamjólk of snemma.

Þegar dóttir mín var nýfædd lagðist ég í að lesa mig til um makróbíótískar aðferðir í ungbarnaumönnun og eitt af því sem að reyndist sérstaklega vel fyrir dóttur mína var þessi uppskrift af hrísgrjónamjólk:

1 bolli af hýðishrísgrjónum
10 bollar vatn

Hrísgrjónin eru soðin í vatninu í 2-3 tíma, við hægan hita og hrært í af og til. Hýðið losnar frá og smám saman þykknar vatnið og tekur á sig hvítan blæ. Sigtið og notið hýðið í aðra matargerð en mjólkina sem eftir er má gera sætari með hunangi eða sírópi af bestu gerð. Þægilegt er að frysta hrísgrjónamjólkina í ísmolapokum, líkt og gert er við móðurmjólk sem maður þarf að pumpa og geyma (ef maður þarf að skreppa af bæ) og nota eftir þörfum. Þessa mjólk má að sjálfsögðu einnig gefa eldri börnum og ekki verður fullorðnu fólki heldur meint af.

Uppskriftin er úr bók um makróbíótíska barnaumönnun. Gefin út af George Ohsawa Macrobiotic Foundation.

Birt:
18. mars 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hrísgrjónamjólk fyrir ungabörn“, Náttúran.is: 18. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2007/06/16/hrsgrjnamjlk-fyrir-ungabrn/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. júní 2007
breytt: 18. mars 2012

Skilaboð: