Sumardagurinn fyrsti
Harpa heitir fyrsti mánuður sumars. Nafnið virðist ekki mjög gamalt og finnst ekki á bók fyrr en á 17. öld. Merking þess er einnig óviss. Í Snorra Eddu er mánuður þessi kallaður gaulmánuður og sáðtíð.
Sumardagurinn fyrsti er fimmtudaginn á bilinu 19-25. apríl. Í gamla stíl var hann 9.-15. apríl. Mjög reið á því fyrr allan landslýð, að vorið og sumarið yrði gott. Því reyndu menn mikið til að spá fyrir sumrinu. Var þá ekki síst tekið mark á komu og hátterni farfugla, einkum lóunnar, spóans og hrossagauksins. Menn voru nokkuð sammála um, að öll vorhret væru úti, þegar spóinn heyrðist langvella: Úti vetrar þá er þraut þegar spóinn vellur graut. Varðandi hrossagaukinn tóku menn mark á því, í hvaða átt hann heyrðust fyrst hneggja. Gott var yfirleitt, að hneggið kæmur úr austri og suðri, en verra úr vestri og norðri: Í austri auðsgaukur suðri sælsgaukur vestri vesælsgaukur norðri nágaukur.
Einkennilega voru skiptar skoðanir um lóuna eftir landshlutum. Á Suður- og Vesturlandi þótti það almennt boða hart vor, ef lóan kom snemma, en á Norður- og Austurlandi var hún hinn mesti aufúsugestur því fyrr sem hún kom. Það er kannski ekki tilviljun, að alþekktar vorvísur tveggja skálda koma alveg heim við þessa skiptingu. Jón Thoroddsen af Vesturlandi segir: Vorið er komið og grundirnar gróa gilin og lækirnir fossa af brún syngur í runni og senn kemur lóa, þ.e.a.s. lóan kemur ekki fyrr en eftir að veðráttan er orðin góð. Páll Ólafsson af Austurlandi segir hinsvegar: Lóan er komin að kveða burt snjóinn.
Varðandi hrafninn var einkum tekið eftir því, hvar hann gerði sér hreiður. Væri það í skjóli fyrir norðanátt eða nálægt byggð, mátti búast við hretum, en hreiðraði hann sig á skjóllitlum stöðum og fjarri bæjum, var heldur von á góðu. Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfaranótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið, að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafný ykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í þessu skyni settu menn ská eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo um eldsnemma morguns.
Annarskonar véfrétt var að láta "svara sér í sumartunglið". Sá sem leit sumartunglið í fyrsta sinn átti að steinþegja og bíða þess að talað væri til hans. Úr því ávarpi mátti svo lesa spádóm. Nýtrúlofuð stúlka settist t.d. á stólgarm og fékk þessa aðvörun: "Varaðu þig hann er valtur." Unnustinn sveik hana um sumarið.
Víðast hvar um landið var öll vinna felld niður þennan dag nema brýnustu nauðsynjaþörf. Þar sem vertíð stóð yfir, var róðurinn hafður í stysta lagi. Fólk fór yfirleitt í sparifötin að afloknum morgunverkum. Allvíða var þó til siðs að byrja rétt aðeins á einhverju vorverki, t.d. túnávinnslu, svo sem á táknrænan hátt. Þá var algengt að kúnum væri hleypt út úr fjósi í fyrsta sinn á þessum degi, ef veður leyfði, bæði til að horfa á leik þeirra og lofa þeim að anda að sér sumarloftinu.
Sömu sögu er að segja um sumardaginn fyrsta og fyrsta dag einmánaðar, að hann er ýmist helgaður piltum eða stúlkum sem eiga að taka á móti sumrinu með viðlíka hætta og eldra fólkið móti þorra og góu. Á því svæði sem stúlkurnar töldust eiga hann, hét hann þá líka yngismeyjadagur eða jómfrúardagur. Sumstaðar var svo látið heita, að hver stúlka í hreppnum ætti sinn sumardag eftir réttri boðleið. Sú sem bjó austast eða syðst átti t.d. fyrsta sumardaginn og svo áfram. Siðan gömnuðu menn sér við það um alla sveitina að finna samsvörun milli veðurfarsins hvern dag og lundarfars stúlkunnar, sem átti hann.
Annað gamanmál var að skrifa upp á lausa miða alla þá, sem komu í heimsókn á einmánuði. Síðan var dregið um miðana á sumardaginn fyrsta til að sjá, hver kæmi í hvers hlut. Önnur tilhögun var sú, að elsti ógifti maðurinn á bænum átti þá persónu af hinu kyninu, sem fyrst kom í heimsókn á sumrinu og síðan eftir aldursröð. Þriðja tilbrigðið var, að þau elstu ógiftu á bænum áttu sumardaginn fyrsta, næstelstu annan dag sumars og svo koll af kolli. Þeir sem komu til bæjar á þessum dögum, tilheyrðu svo þeim, sem daginn áttu.
Hvarvetna á landinu var sumardagurinn fyrsti mikill hátíðs- og veitingadagur, og viðast er hann talinn ganga næst jólum og nýári að fyrirferð. Um þetta getur Eggert Ólafsson þegar í Ferðabókinni frá miðri 18. öld. Þá var á borð borið allt það besta, sem til var af mat og drykk, en reyndar var oft orðið þröngt í búi á vorin. Því var yfirleitt reynt að luma á einhverju góðgæti til dagsins. Jafnvel var það til að setja mat að hausti niður í sérstakt kvartil, sem ekki mátti snerta fyrr en sumardaginn fyrsta. Þetta virðist þó einkum bundið við Norður-Ísafjarðarýslu og Strandasýslu. Sérstakar sumardagskökur voru víða bakaðar á Norðvesturlandi. Það voru hlemmistóar rúgkökur, allt að 30 sm í þvermál og 2 sm að þykkt. Ofan á þær var svo raðað sumardagsskammtinum fyrir hvern mann: sméri, hangiketi, magál, lundabagga, riklingi, rafavelti o.s.frv. eftir efnum og ástæðum.
Á Suður- og Vesturlandi var algengt, að formenn héldu hásetum sínum veislu á þessum degi. Sumargjafir voru allsérstæðar fyrir Ísland. Þær virðast jafnvel eldri siður meðal almennings en jólafjafir. Elstu dæmi um þær eru frá 1545, þegar Gissur biskup EInarsson færir heimilisfólki í Skálholti „sumargáfur“. En um miðja 19. öld sýnist þetta vera almennur siður, a.m.k á Norður- og Austurlandi.
Oftast voru gjafirnar heimaunnir hlutir, en til var, að farið væri í kaupstað í þessu skyni. Sérstök tegund gjafa var svonefndur "sumardagshlutur" á Suðvesturlandi og í Vestmannaeyjum, þar sem vertíð stóð þá yfir. Þá færðu sjómenn konum sínum það sem þeir öfluðu í róðri á sumardaginn fyrsta, og máttu þær hagnýta aflann til einkaþarfa, en ekki beint til heimilisins. Þar sem börnum var ekki haldið til vinnu á sumardaginn fyrsta, var nokkuð um það, að krakkar af nágrannabæjum kæmu saman til leika. Tóku og fullorðnir stundum þátt í þeim. Einnig heimsótti þá eldra fólk hvort annað öðrum dögum fremur og skiptist jafnvel á gjöfum. Samkomur fyrir heilar sveitir voru hinsvegar fátíðar, þar til kom fram yfir síðustu aldamót.
Þó er getið um bæði bændaglímur og búfjársýningar nálægt miðri 19. öld. Einnig var sumstaðar hullst til að halda brúðkaupsveislur á þessum degi. En upp úr aldamótunum tekur ungmennafélagshreyfingin daginn upp á sína arma, og verður hann samkomudagur þeirra langa hríð með ræðum, kvæðum, íþróttum, söng, dansi og jafnvel sjónleikum.
Sumardagurinn fyrsti tilheyrir vitaskuld ekki hinu alþjóðlega kirkjuári. Engu að síður var hann messudagur á Íslandi fram til 1744, a.m.k. í Hólastifti. Þá var sú messugjörð bönnuð með konunglegri tilskipun, þar sem hún þótti brjóta í bága við það samræmi, sem vera átti á helgihaldi í öllum löndum Danakonungs. Húslestrum var þó haldið áfram á sumardaginn fyrsta, og hélst það sumstaðar við allt fram yfir 1930, þegar útvarpið kom til sögunnar og húslestrar lögðust almennt og endanlega niður.
Ljósmynd: Drúpandi hóffífill, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
-
Sumardagurinn fyrsti
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Sumardagurinn fyrsti“, Náttúran.is: 23. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/sumardagurinn-fyrsti/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 21. apríl 2015