Hún heitir öðru nafni efsta vika, þ.e. síðasta vikan fyrir páska. Hún mun draga nafn sitt af áhaldinu dymbill, sem notað var í katólskum sið til að hljóðið yrði drungalegra og sorglegra (drumbara), þegar hringt var til guðsþjónustu á þessum síðustu dögum föstunnar. Ekki er hinsvegar alveg ljóst, hvað dymbillinn var eða hvort nafnið var notað um fleira en eina tegund útbúnaðar. Helst er talið, að hann hafi verið trékólfur, sem settur var í kirkjuklukkur í stað málms, svo að hljóðið deyfðist. Þó gæti hann einfaldlega verið trékylfa til að berja með á klukkurnar, eftir að járnkólfurinn hafði verið bundinn fastur, svo að ekki þyrfti að losa hann úr á hverju ári.

En einnig eru sagnir um einhversskonar tréklöprur framan á kirkjuþili, sem notaðar hafi verið í klukkna stað þessa viku. Loks er orðið dymbill notað um háan ljósastjaka, sem stóð á kirkjugólfi með fjórum örmum og þrem ljósum á hverjum auk eins í toppi. Skyldu ljós þessi tákna Krist og postulana og voru notuð í stað ljósahjálma í þessari viku, svo að dimmleitara væri í kirjunni en ella. En þessi orðskýring er ósennilegri, þótt sjálfur Árni Magnússon haldi henni fram. Kyrra vika er eitt nafn enn á þessu tímabili, því að þá skyldu menn vera hljóðari og hæglátari en nokkru sinni endranær og liggja á bæn.

Málverk: „Guð og ég“ Guðrún Tryggvadóttir 1991.

Birt:
17. apríl 2012
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Dymbilvika“, Náttúran.is: 17. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/dymbilvika/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 12. mars 2012

Skilaboð: