Fyrsti apríl
Það er gamall siður í mörgum löndum að leika sér að því að gabba náungann til að fara erindisleysu fyrstu dag aprílmánaðar. Til er að vísu, að þetta sé gert síðasta dag hans, en það er sjaldgæfara. Ekki er vitað með neinni vissu, hvernig á upptökum þessarar venju stendur. Líklegast er þó, að hún sé runnin frá þeim tíma, þegar nýársdagurinn í Róm var þann 25. mars. Meiriháttar hátíðir bæði þar í borg og meðal gyðinga stóðu að fornu í átta daga, og því var 1. apríl lokadagur þessarar hátíðar eins og 1. janúar var lengi vel ekki haldinn hátíðlegur nema sem áttundarhelgi jóladagsins, enda þá ekki nefndur annað en átti dagur jóla. Á þessum lokadegi voru margskonar ærsl höfð í frammi, m.a. forsendingar af því tagi, sem menn gamna sér enný á við. Þegar nýjársdagurinn var færður til 1. janúar og öll hátíðin átti að fá kristilegra og alvarlegra yfirbragð, vildi fólkið engu að síður halda í sinn gamla ærsladag. Og sem slíkur hefur hann lifað áfram.
Til samanburðar skal þess getið, að sami leikur var iðkaður á svonefndri Húlí-hátíð á Indlandi, sem stóð hæst að kvöldi 31. mars. Þá var nýár í löndu, Persakeisara einmitt kringum jafndægri á vori. Af þessum leik fara ekki beinar sögur hér á landi fyrr en nálægt síðustu aldamótum. Hinsvegar kemur nokkuð snemma í ljós, að Íslendingar kannast við siðinn. Árni Magnússon talar í bréfi til Þormóðar Torfasonar árið 1698 um aprílbréf, sem greinilega merkir lygabréf eða gabbskrif. Þá yrkir Jón Þorláksson á Bæigisá gamankvæði, líklega 1773, sem heitir Fyrsti aprilis, og er þar beinlínis talað um að hlaupa apríl: Ei skal ég framar apríl hlaupa upp þann heiðingska Músa-stig. Í blaðinu Þjóðólfi árið 1861 er einnig getið um að hlaupa apríl, og er það í þesskonar sambandi, að venjan hlýtur þá að vera orðin nokkuð kunn. Apríl heitir hjá Guðbrandi Þorlákssyni sumarmánuður, enda hófst sumarmisserið nálægt honum miðjum eftir gamla stíl.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Fyrsti apríl“, Náttúran.is: 1. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/fyrsti-aprl/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 12. mars 2012