Boðunardagur Maríu
Hann er 25. mars og stundum einnig nefndur Maríumessa á langaföstu. Hann er haldinn í minningu þess, að Gabríel engill var sendur til að boða Maríu mey, að hún skyldi son fæða og láta hann heita Jesúm. Þegar fæðingardagur Jesú var ákveðinn 25. desember, einsog nánar verður frá skýrt í sambandi við jólin, þá hlaut getnaðardagur Maríu vitaskuld að vera níu mánuðum fyrr. Þessi dagur var og er haldinn með stærstu hátíðum í katólskum sig og loddi sú helgi lengi við hér á landi eftir siðbreytingu. Hann var felldur niður sem helgidagur með tilskipun árið 1770, en var þó við lýði mun lengur og í Grímsey kallaður móðir allra hátíða fram á síðustu öld a.m.k.
Auðvitað standa þessar dagsetningar jóla, boðunardagsins og Jónsmessu upphaflegast í sambandi við jafndægri á vori og sólstöður, sem eru um svipað leyti. Hin smávægilega tímaskekkja stafar af áðurnefndri ónákvæmni í júlíanska tímatalinu fyrir um 1500 árum, þegar þessir dagar voru ákveðnir af kirkjunni. Mars heitir jafndægramánuður hjá Guðbrandi Þorlákssyni.
Mynd: Boðun Maríu, Fra Angelico (um 1395 - 1455) frá 1430-1432.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Boðunardagur Maríu“, Náttúran.is: 25. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/bounardagur-maru/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 26. febrúar 2013