Náttúruverndarsamtök Íslands sendu alþingismönnum eftirfarandi bréf í gær:

Ágætu þingmenn.

Athygli ykkar er vakin á að innflutningur sorps og spilliefna frá Bandaríkjunum er ólöglegur. Ísland er aðili að Basel-samningnum um flutning og förgun splliefna (Basel Convention on the Control of Transboundary Movements of Hazardous Wastes and their Disposal. (Basel Convention)). Þar með talin heimilisúrgangur og spillefni frá bruna heimilisúrgangs.

Basel-samningurinn gildir sérstaklega um flutning spilliefna milli landa (þ.m.t. útflutnings til Íslands frá Bandaríkjunum). Á hinn bóginn eru Bandaríkin ekki aðili að samningnum þar eð Bandaríkjaþing hefur ekki fullgilt samninginn og því útflutningur á úrgangi og spilliefnum frá Bandaríkjunum til Íslands ólöglegur. Sjá 5. mgr. 4. gr. um almennar skuldbindingar samningsaðila þar sem kveðið er á um, að

5. Aðili skal ekki leyfa að spilliefni eða annarúrgangur sé fluttur til ríkis sem ekki er aðili eða fluttur inn frá ríki sem ekki er aðili.

Þetta gildir NEMA AÐ Ísland og Bandaríkin geri með sér sérstakan samning en ákvæði slíks tvíhliða samnings mega ekki - samkvæmt alþjóðalögum - ganga skemur en ákvæði Baselsamningsins gera.

Í 11. grein samningsins segir:

11. gr.

Tvíhliða, marghliða og svæðisbundnir samningar. 1. Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 4. gr. geta aðilar gert með sér tvíhliða, marghliða eða svæðisbundna samninga eða samkomulag, um flutning spilliefna eða annars úrgangs milli landa, við aðra aðila eða ríki sem ekki eru aðilar, enda dragi slíkir samningar eða slík tilhögun ekki úr umhverfisvænni meðferð spilliefna og annars úrgangs, svo sem krafist er í samningi þessum. Slíkir samningar eða samkomulag skulu mæla fyrir um ráðstafanir sem eru ekki síður um-hverfisvænar en þær sem samningur þessi kveður á um, ....

Ekki er kunnugt um að slíkur tvíhliða samningur hafi verið gerður við Bandaríkin.

Basel-samningurinn hefur haft afar mikla þýðingu til að koma í veg fyrir að fyrirtæki flytji úrgang milli landa til að losa sig við hann í stað þess að leysa vandamálið heima fyrir. Fyrirtæki á Vesturlöndum hafa ítrekað reynt að koma hættulegum úrgangi fyrir í ríkjum þriðja heimsins og boðið greiðslur fyrir.

Sjá: http://www.umhverfisraduneyti.is/althjodlegt-samstarf/samningar/nr/44 Sjá einnig um samninginn í Stjórnartíðindum http://www.sigling.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1937 .....

Þessu til viðbótar má benda á samkvæmt samþykkt Basel-samningsins frá 1995 er verslun með úrgangsefni milli OECD/ESB og ríkja utan OECD/ESB bönnuð. Því miður hefur Ísland enn ekki fullgilt  þessa bókun (amendment) en samkvæmt heimasíðu umhverfisráðuneytisins stendur til að bæta úr því.

Birt:
March 8, 2012
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Innflutningur sorps og spilliefna frá Bandaríkjunum ólöglegur“, Náttúran.is: March 8, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/08/innflutningur-sorps-og-spilliefna-ologlegur/ [Skoðað:May 18, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: