Í dag, laugardaginn 3. mars kl. 13:00 hefst fyrirlestraröðin „Panora – Listir, náttúra og stjórnmál“ en hún verður haldin í Listasafni Íslands samhliða yfirlitssýningu Rúríar sem opnaði í gær, 2. mars

Sýning Rúríar stendur til 6. maí eins og fyrirlestrarröðin en á henni verða fjölþætt tengsl myndlistar náttúru og pólitíkur skoðuð, velt verður upp spurningum eins og hvort myndlist geti vakið almenning til vitundar um umhverfismál og þá hvernig. Skoðuð verða ólík dæmi um hvernig norrænir myndlistarmenn hafa nálgast umhverfistengd málefni og munu þátttakendur m.a. lýsa hugmyndafræðinni að baki þeim verkum sem þeir hafa unnið og tengjast náttúrunni með einum eða öðrum hætti.

Fyrsti fyrirlesturinn á Panora er á vegum Learning Site (Rikke Luther og Cecilia Wendt). Aðrir þátttakendur eru Pétur Thomsen, Regin W. Dalsgaard, Nomeda og Gediminas Urbonas, Jana Winderen, Jonatan Habib Engqvist, Rúrí og Bergsveinn Þórsson.

Á heimasíðunni www.panora.is má nálgast frekari upplýsingar um þátttakendur og verk þeirra og þar verður einnig hægt að horfa á fyrirlestrana að þeim loknum. Einnig er hægt að fylgjast með verkefninu á Facebook (www.facebook.com/pan0ra). Verkefnið Panora er styrkt af Nordic Culture Point-sjóðnum.

Learning Site er samvinnuverkefni danska myndlistarmannsins Rikke Luther og sænska myndlistarmannsins Ceciliu Wendt, sem voru áður meðlimir í danska hópnum N55. Í verkum sínum beina þær Luther og Wendt sjónum sínum að umhverfinu sem list þeirra verður til í og verkin mótast í beinu sambandi við aðstæður hverju sinni. Við vinnu sína notast þær við þann efnivið sem finna má á staðnum og rýna þar í jafn ólíka þætti og efnahagslegar aðstæður, umhverfisþætti, eignarrétt og réttindi launþega, svo dæmi séu nefnd. Þær vinna oft í samvinnu við aðra myndlistarmenn, sem og félagsfræðinga, skipulagsfræðinga, lögfræðinga o.fl.

Í fyrirlestri sínum munu þær ræða um hugmyndafræðina að baki Learning Site og verkum sínum og hvernig þær nota myndlistina sem verkfæri til að viða að sér og miðla þekkingu á milli ólíkra hópa. Learning Site er meðal þátttakenda í verkefninu (Ó)sjálfstætt fólk sem er hluti af Listahátíð í Reykjavík.

Fyrirlestrarnir eru allir á laugardögum kl. 13:00 og er aðgangur ókeypis:

Mynd: Pétur Thomsen, úr Kárahnjúkaseríu.

Birt:
3. mars 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Panora – Listir, náttúra og stjórnmál - Ný fyrirlestraröð í Listasafni Íslands“, Náttúran.is: 3. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/03/panora-listir-nattura-og-stjornmal-ny-fyrirlestrar/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: