Hringrás - Vistvænar byggingar
Upphitun og kæling
Leitast skal við að nota endurnýjanlega orku til upphitunar og kælingar. Á Íslandi eru hús hituð upp með endurnýjanlegri orku, þ.e. jarðvarma, en hann finnst einungis á fáum stöðum á jörðinni. Á Íslandi er jarðvarmi nýttur bæði til upphitunar á húsum og til rafmagns-framleiðslu. Um 90% Íslendinga hafa aðgang að hitaveitu en hinir nota rafmagnshitun.
Hægt er að lækka húshitunarkostnað með því að nota varmadælur. Þær njóta aukinna vinsælda á norðlægum slóðum og eru um 95% allra nýbygginga í Svíþjóð með slíkan útbúnað. Varmadælur skila frá sér varmaorku til upphitunar og þurfa til þess raforku sem er þó mun minni en þyrfti við hefðbundna rafmagnshitun. Þessi lausn er talin vænlegur kostur til upphitunar þar sem ekki finnst ódýr jarðvarmi.
Rafmagn
Í sjálfbæru samfélagi er notað rafmagn sem framleitt er með endur-nýjanlegum orkugjöfum eins og vatnsorku, vindorku og sólarorku. Ísland er ríkt af vatnsorku og jarðvarma og anna Íslendingar raforkuþörf sinni að 99,9% með þessum sjálfbæru innlendu orkugjöfum. Nýting á orku fallvatna hefur engin áhrif á afrennsli af landinu og því ekki hægt að ofnýta þessa orku. Vinnsla jarðhita er sjálfbær ef aðstreymi til jarðhitasvæðanna er í jafnvægi við vinnsluna.
Raforkunotkun á hvern íbúa á Íslandi er með því hæsta sem gerist í heiminum. Þetta má að mestu skýra með orkufrekri stóriðju en almenn orkunotkun íslenskra heimila er einnig mjög mikil. Þurfum við þá nokkuð að spara? Þó við búum svo vel hér á landi að eiga nægar orkulindir í fallvötnum og jarðhita er ekki þar með sagt að ekki þurfi að spara þær. Með því að nýta innlenda raforku betur sparast auðlindir landsins og meira fæst út úr þeim fjárfestingum sem liggja í orkumannvirkjum landsins.
Fráveita
Fráveita er leiðslukerfi fyrir fráveituvatn þ.e. skólp, ofanvatn og vatn frá upphitunarkerfum húsa. Til að stuðla að sjálfbærri þróun þarf að hreinsa fráveituvatn staðbundið og sjá til þess að næringarefnum sé skilað aftur til náttúrunnar. Frá árinu 1999 er skylt að hreinsa allt fráveituvatn á Íslandi. Hefðbundnar skólphreinsistöðvar hreinsa smitandi efni svo meðhöndlað vatn mengi ekki vötn og ár. Í náttúrlegum hreinsivirkjum er næringarefnum skólps að auki skilað aftur til náttúrunnar.
Hvað er í skólpi? Skólp getur bæði talist til auðlinda og mengunarefna. Auðlindahlutinn inniheldur næringarefni, lífræn efni, varmaorku og vatn en mengunarhlutinn smitandi efni, eins og bakteríur, vírusa og sníkjudýr, og þungmálma. Næringarefnin er helst að finna í þvagi. Náttúran, með mold, gróðri og örverum, býr yfir góðum hæfileika til að hreinsa skólpvatn. Þróuð hafa verið tilbúin náttúrukerfi til hreinsunar á skólpi eins og tjarnir og votlendi
Gróður
Gróður og ræktun gegna margvíslegum hlutverkum í náttúrunni. Grænar plöntur eru undirstaða alls lífs á jörðinni. Þær nota sólarljós, koltvísýring og næringarefni til að mynda lífræn efni. Allar aðrar lifandi verur lifa beint eða óbeint á grænum plöntum. Plöntur hafa áhrif á andrúmsloft. Þær viðhalda raka, framleiða súrefni og hreinsa loftið. Því er mikilvægt að gera ráð fyrir plöntum innandyra.
Þök með gróðri eða svokölluð græn þök hafa merkjanleg áhrif á vatnsbúskap því um 80% af heildarúrkomu á græn þök gufa upp og viðhalda þannig raka. Að auki veita gróðuryfirborð góða hljóðeinangrun. Einungis 20% úrkomu gufa upp af hefðbundnum þökum. Með því að færa meira af gróðri inn í borgir og bæi væri hægt að bæta loftslag í þéttbýli til muna, sérstaklega á þeim árstíma sem allt er í blóma.
Vistmenning
Hugtakið vistmenning (e. permaculture) vísar til hringrásar náttúrunnar í ræktun og samfélagsháttum. Meginmarkmið vistmenningar er að skapa framleiðslukerfi sem eru í sátt við náttúruna og lífsstíl þar sem litið er á heildstæðan hátt á allt umhverfið. Í vistmenningu er lögð áhersla á fjölbreytta ræktun plantna ásamt húsdýrahaldi til að tryggja lokaða hringrás næringarefna. Hvatt er til lífrænna framleiðsluhátta þar sem hvorki er notaður tilbúinn áburður né kemisk varnarefni gegn skordýrum og illgresi. Eingöngu eru notuð lífræn áburðarefni og markviss skiptiræktun.
Vistmenning felur þó í sér fleira en matvælaframleiðslu. Hornsteinar hennar eru virðing fólks fyrir jörðinni og mikilvægi þess að viðhalda auðæfum hennar og frjósemi frá kynslóð til kynslóðar. Væntumþykjan endurspeglast í því viðhorfi að maðurinn eigi ekki jörðina heldur hafi einungis afnot af henni. Í sjálfbærri byggingu eru notaðir endurnýjanlegir orkugjafar og auðlindir látnar streyma í vistfræðilegri hringrás. Bæði sorp og skólp innihalda lífræn efni. Þeim ætti að skila til baka til náttúrunnar og loka þannig náttúrlegri hringrás næringarefna. Það er hægt með moltugerð og fráveitukerfi sem endurvinnur næringarefni.
Úr bókinni „Byggekologi, konskaper för ett hallbar byggande“ eftir Varis Bokalders og Maria Block.
Þýðing: Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir. Af vef Sesseljuhúss.
Birt:
Tilvitnun:
Varis Bokalders og Maria Block „Hringrás - Vistvænar byggingar“, Náttúran.is: 18. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/03/29// [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. mars 2007
breytt: 14. mars 2014