Möguleikar skyndibílakerfis kannaðir hérlendis
Hugmyndir eru uppi hér á landi um að koma á laggirnar nýju samgöngukerfi sem miðar að því að fjölga valkostum í samgöngum og draga úr þörf almennings á að eiga marga bíla á hverju heimili.
Um er að ræða svokallað skyndibílakerfi þar sem hægt er að leigja bíla til lengri eða skemmri tíma, eftir nýstárlegum leiðum, en að fyrirmynd sem er vel þekkt í Evrópu.
Hópur íslenskra stórfyrirtækja, sem hafa áhuga á að gera starfsfólki sínu kleift að nota slíka þjónustu, funduðu í dag með fulltrúum frá bílaleigum, bílaumboðum og olíufélögum um möguleikana á aðkomu þeirra að slíku kerfi.
Meðal þeirra eru Landsbankinn, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Alcoa og Reykjavíkurborg.Kerfið gengur þannig fyrir sig að viðskiptavinir kaupa sér aðgang að þjónustunni og panta svo bíl til leigu í gegnum vefinn. Þar er hægt að tiltaka leigutíma og mögulega akstursvegalengd.Notendur fara svo að geymslustæði þar sem bíllinn stendur, opna bílinn annað hvort með lykilkorti eða símaskilaboðum, og aka svo af stað. Eftir notkun er bílnum svo skilað á sama stað, til reiðu fyrir næsta viðskiptavin.Samkvæmt útreikningum fyrirtækjanna sem standa að verkefninu er vel mögulegt að spara mögulegum notendum talsverðar upphæðir, enda má gera ráð fyrir að kostnaður við rekstur smábíls sé á bilinu ein til ein og hálf milljón króna á ári.
Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum, er einn af forsprökkum þessa verkefnis og í samtali við Fréttablaðið segist hann hafa kynnst slíku kerfi er hann bjó erlendis.
„Ég hugsaði með mér að gott væri að koma upp sambærilegu kerfi hér á landi, bæði til að draga úr fjölda bifreiða á hverju heimili og ekki síður til að fjölga valmöguleikum fólks í samgöngumálum.“
Finnur tekur þó fram að þessar hugmyndir séu ekki settar til höfuðs einkabílum.
„Þetta mun ekki endilega koma í stað fyrsta bíls á heimili, en mögulega í stað annars eða þriðja bíls.“Fyrirtækin hugsa sér ekki að reka verkefnið sjálf, heldur opna augu bílaleiganna, bílaumboðanna og olíufyrirtækjanna fyrir möguleikunum sem í þessu felast.
„Hugmynd okkar er sú að ef við getum komið þessu á laggirnar fyrir okkar vinnustaði og okkar starfsmenn sé ekkert því til fyrirstöðu að rekstraraðilarnir selji öðrum aðgang að þessari þjónustu.
“Ekki er enn ljóst hvort eða hvenær verkefnið gæti komið til framkvæmda, en Finnur segir það einmitt vera takmarkið með fundinum í dag að fá á hreint þarfir hugsanlegra kaupenda og seljenda og hvað þurfi til að hugmyndin geti orðið að veruleika. Hann segist þó vonast til þess að það verði sem fyrst, en stærsti þátturinn verði eflaust hversu fljótt rekstraraðilar geti komið sér upp tæknibúnaði til að starfrækja kerfið.
„Við höfum fundið fyrir áhuga frá þessum aðilum, en næstu skref í málinu munu vonandi skýrast á þessum fundi.
“Fyrirtækin hafa fengið til sín sérfræðing frá Svíþjóð, Mats-Ola Larsson að nafni, sem hefur unnið að innleiðslu sambærilegs skyndibílakerfis hjá borgaryfirvöldum í Gautaborg.
Larsson segir í samtali við Fréttablaðið að þetta fyrirkomulag eigi uppruna sinn að rekja til Sviss og það hafi verið nokkuð vaxandi í Svíþjóð síðustu tíu til fimmtán árin.
„Núna er að finna um 600 skyndibíla í um 40 borgum og bæjum í Svíþjóð. Það er að sjálfsögðu ekki mikið í samhengi við þær fjórar milljónir bíla sem eru í Svíþjóð, en síðustu ár hefur verið stöðug aukning. Í Gautaborg í fyrra voru um það bil 5.000 skráðir notendur að slíkri þjónustu og um 120 bílar, en nú eru notendur um 7.000 talsins og um 170 bílar.“
Larsson segir bílaleigur koma að rekstri skyndibílakerfa í Svíþjóð og það sé vaxandi þáttur í þeirra rekstri á meðan hefðbundin bílaleiga standi í stað.
„Vöxturinn hefur ekki síst borist manna á milli þar sem fólk þekkir til einhvers sem hefur góða reynslu af skyndibílum, og slær því til.“
Kostirnir eru margir að sögn Larssons.
„Það er auðveldara að leigja bíla en að kaupa þá og þrátt fyrir að aksturskostnaðurinn sé vissulega hærri þá verður þetta frekar til þess að fólk verði meðvitaðra um kostnað við hverja ferð og leggi ekki af stað að óþörfu.“
Birt:
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Möguleikar skyndibílakerfis kannaðir hérlendis“, Náttúran.is: 9. febrúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/02/25/moguleikar-skyndibilakerfis-kannadir-herlendis/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. febrúar 2012