Olía af Drekasvæði á verðbólgubálið
,,Draumur allra íslenskra stjórnmálamanna er að vera í ríkisstjórn á þensluskeiði með ríkissjóð fullan af peningum". Þessi orð fyrrverandi ráðherra á opnum fundi rifjuðust upp fyrir mér í dag að gefnu tilefni. Íslenskir stjórnmálamenn hafa verið svo langt leiddir á þessu sviði að þeir hafa t.d. fórnað fiskistofnum, náttúruperlum á hálendinu og sparnaði heilu kynslóðanna í skiptum fyrir safarík þensluskeið. Einhver fjöldi fólks hefur fengið að deila draumnum í gegnum tíðina og orðið mjög ríkur. En þorri almennings hefur upplifað þensludrauminn sem martröð gengisfellinga, verðbólgu, verðtryggingar og efnahagslegs óstöðugleika. Það er ekki að ástæðulausu að verðgildi íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku hefur rýrnað um 99,95% á 90 árum.
Nú er það olían sem á að hefja næsta þensluskeið. Ég sé á fésbók að peningalyktin liggur nú þegar yfir íslenskum netheimum. En stöldrum við. Hverjir hafa fengið að njóta arðsins af þeim miklu auðlindum sem þjóðin nýtir nú þegar? Indriði H. Þorláksson birti nýverið grein sem hann nefnir Sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins. Þar segir hann að renta í fiskveiðum skili sér að litlu leyti til þjóðarinnar og renta í orkuframleiðslu til stjóriðju alls ekki vegna lágs orkuverðs og ívilnandi skattareglna. (Athugið að Alþingi hefur nýverið breytt lögum um skattheimtu á olíuleit og olíuvinnslu að kröfu olíufyrirtækja). Um arðinn af orkuauðlindunum segir í nýlegri skýrslu Landsvirkjunar: ,,Enn sem komið er hafa Íslendingar ekki náð að skapa raunverulega rentu af sinni auðlind."
Það eru sem sagt sáralitlar líkur á því að þjóðin sjálf fái að njóta arðsins af olíuauðlindinni. Erlend fyrirtæki munu njóta hans að mestu og eflaust falla einhverjir molar af borðum þeirra til íslenskra fjármálastofnana, verktakafyrirtækja og sérhæfðra þjónustufyrirtækja. Einhver verður tekjuaukningin fyrir ríkissjóð og stjórnmálamenn fá að gefa hressilega í á sviði samgöngumála í sinni heimasveit og við fáum kannski að njóta blómaskeiðs á sviði menningar.
En svo verður þetta búið - eins og síldin, herinn og einkavæðing bankanna.
Og eftir sitjum við - ýmist kölluð millistétt, almenningur eða launþegar - og höfum varla efni á að kaupa í matinn og borga af verðtryggðum lánunum okkar vegna þess að launin náðu ekki að halda í við verðhækkanirnar sem fylgdu því þegar olíu af Drekasvæðinu var hellt á íslenska verðbólgubálið.
Heimspekingurinn George Santayana sagði að þeir sem lærðu ekki af sögunni væru dæmdir til þess að endurtaka hana. Það er eitthvað sem segir mér að þorri íslenskra stjórnmálamanna hafi ekkert lært. Þess vegna verðum við - millistétt, almenningur, launþegar - að kenna þeim. Annars erum við dæmd til að endurtaka enn eina efnahagsmartröðina.
Ljósmynd: Guðmunur Hörður, Guðrún A. Tryggvadóttir
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Olía af Drekasvæði á verðbólgubálið“, Náttúran.is: 24. febrúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/02/24/olia-af-drekasvaedi-verdbolgubalid/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.