Á föstudaginn voru veitt verðlaun í ljóða- og ritgerðasamkeppni Yrkjusjóðs en afhendingin átti sér stað í Norræna húsinu.

Í tilefni af Alþjóðlegu ári skóga 2011 og 20 ára formlegu afmæli Yrkjusjóðs árið 2012 ákvað sjóðurinn að efna til ljóða- og ritgerðasamkeppni meðal grunnskólabarna síðasta haust. Þema samkeppninnar var ,,Þetta gerir skógurinn fyrir mig“. Er það tilbrigði við meginstef Alþjóðlegs árs skóga ,,Þetta gerir skógurinn fyrir þig“.

Rúmlega 300 ljóð og rúmlega 80 ritgerðir bárust í keppnina, frá grunnskólabörnum um land allt. Verðlaun voru veitt fyrir ritgerð og ljóð í tveimur flokkum, fyrir miðstig (5.-7. bekk) og efsta stig (8.-10. bekk). Auk viðurkenningarskjals fengu verðlaunahafar 25.000 króna verðlaun til glaðnings sínum bekk.

Sigurður Pálsson, skáld og formaður Yrkjusjóðs, afhenti verðlaunin en hann sat í dómnefndinni ásamt Laufeyju Sigvaldadóttur kennara og Sölva Birni Sigurðssyni rithöfundi.

Verðlaunahafar miðstig (5.-7. bekkur) eru:

Ljóð : Áslaug Erla Haraldsdóttir, Grandaskóla
Ritgerð: Andrea Dís Steinarsdóttir, Klébergsskóla

Verðlaunahafar efsta stigs (8.-10. bekkur) eru:

Ljóð: Hafþór Gísli Hafþórsson, Norðlingaskóla
Ritgerð: Halldór Smári Arnarsson, Landakotsskóla

Um Yrkjusjóð:

Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins úthlutar grunnskólabörnum trjáplöntum til gróðursetningar. Árlega gróðursetja á milli sjö og átta þúsund grunnskólanemar, frá í kringum hundrað skólum víðs vegar af landinu, tré á vegum sjóðsins.

Yrkjusjóður var stofnaður árið 1992, en stofnfé sjóðsins var afrakstur sölu bókarinnar Yrkja, sem gefin var út í tilefni sextugsafmælis frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Sjóðurinn hefur eigin stjórn, en Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með honum og sinnir samskiptum við skólana.

Nánari upplýsingar: www.yrkja.is

Ljósynd: Verðlaunahafar í Ljóða- og ritgerðasamkeppni Yrkjusjóðs. Frá vinstri Halldór Smári Arnarsson, Áslaug Erla Haraldsdóttir og Hafþór Gísli Hafþórsson. Fjórði verðlaunahafinn, Andrea Dís Steinarsdóttir, átti ekki heimangengt.
Ljósmyndari Ragnhildur Freysteinsdóttir.

Birt:
19. febrúar 2012
Tilvitnun:
Ragnhildur Freysteinsdóttir „Ljóða- og ritgerðasamkeppni Yrkjusjóðs “, Náttúran.is: 19. febrúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/02/19/ljoda-og-ritgerdasamkeppni-yrkjusjods/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. maí 2012

Skilaboð: