Heildstæð orkustefna fyrir Ísland
Sl. þriðjudag lagði Oddný G Harðardóttir, iðnaðarráðherra fram á Alþingi skýrslu um heildstæða Orkustefnu fyrir Ísland en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2009 er kveðið á um að mótuð verði stefna þar um. Orkustefnunni er ætlað að vera grundvöllur og viðmið ákvarðana er varða orkumál og skulu ákvarðanir stjórnvalda jafnan vera í sem bestu samræmi við stefnuna.
Skýrslan er tillaga stýrihóps sem iðnaðarráðherra skipaði árið 2009 og er um nokkurt nýmæli að ræða að skýrsla sem þessi sé lögð fyrir þingið til umræðu áður en ráðherra gefur út endanlega stefnu.
Kjarninn í orkustefnunni er „Að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti, samfélaginu og almenningi til hagsbóta“. Er hér vísað í hinar þrjár stoðir sjálfbærni, þ.e. verndun umhverfis, samfélagslega sátt, og hagræna sjálfbærni til lengri tíma litið.
Meginmarkmið orkustefnunnar kristallast í eftirfarandi þáttum:
Við nýtingu orkuauðlinda verði borin virðing fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins.
Orkunýting sé valin af kostgæfni með hámarks arðsemi að leiðarljósi. Mikilvægt er að orkuþörf almennings og almenns atvinnulífs sé tryggð með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Þegar er búið að virkja um helming af nýtanlegri raforkugetu í vatnsafli og jarðvarma og því mikilvægt að frekari nýting sé valin af kostgæfni með hámarks arðsemi og langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Þjóðin njóti arðs af sameiginlegum orkuauðlindum. Brýnt er að mótuð verði stefna um skattlagningu orkuauðlinda og unninnar orku sem er ein af skilaleiðum arðs til þjóðarinnar.
Komið verði á fót sérstökum auðlindasjóði. Sjóðurinn bjóði út nýtingarsamninga til tiltekins hóflegs tíma í senn, t.d. 25-30 ára eða eftir eðli hvers virkjunarkosts að teknu tilliti til upphafsfjárfestingar og afskriftatíma.
Þjóðhagsleg framlegð verði hámörkuð.
Ekki skal ganga á framlegð eða arðsemi orkuvinnslu og -sölu vegna byggða- eða atvinnusjónarmiða í héraði. Markmiðum á þeim sviðum verði náð með öðrum og almennari hætti, t.d. með hlutdeild nærsamfélags í auðlindarentu.
Dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis: Íslendingar flytja inn jarðefnaeldsneyti fyrir 44 milljarða króna í gjaldeyri á ári hverju og er mikilvægt að leitað sé leiða til að draga úr olíunotkun. Helstu ástæður eru orkuöryggissjónarmið, skuldbindingar í loftslagsmálum og skuldbindingar um notkun endurnýjanlegra orkugjafa skv. tilskipunum EES.
Í stýrihópnum sátu þau Vilhjálmur Þorsteinsson, formaður, Bergur Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðni A. Jóhannesson, Guðrún Jóna Jónsdóttir, Gunnar Tryggvason og Salvör Jónsdóttir. Með hópnum starfaði Helga Barðadóttir sérfræðingur hjá iðnaðarráðuneytinu.
Birt:
Tilvitnun:
Iðnaðarráðuneytið „Heildstæð orkustefna fyrir Ísland“, Náttúran.is: 20. febrúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/02/20/heildstaed-orkustefna-fyrir-island/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.