Það er ekki hægt að neita því að klór virðist virka vel þegar hreinsa á mismunandi hluti og fleti. En aftur á móti er spurning hver vilji anda að sér gufunum sem fylgja klórnum? Og hvað er "hreint" við það? Betra er að sleppa því að vera með eitruð efni á heimilinu, sérstaklega ef börn eru á heimilinu. Góðu fréttirnar eru að móðir náttúra er með ýmis náttúruleg efni sem virka vel sem hreinsiefni. Hver þarf að nota klór eða önnur ónáttúruleg hreinsiefni þegar hægt er að nota fimm mismunandi náttúrulega hreinsi í staðinn?

1. Edik
Edik virkar vel á alla fleti og er einnig sótthreinsandi. Eldhúsinnréttingar, stólar, veggir, gluggar og speglar verða einstaklega hreinir og glansandi. Einnig er hægt að bæta við 1-2 dropum af fljótandi sápu í 50/50 blöndu af vatni og ediki til að fá enn meiri virkni. Edik virkar einnig vel til að losna við óþef.

2. Sítrónusafi
Sítrónusafi og sítrónur virka vel til að þrífa og sótthreinsa skurðbretti og niðurföll. Skerðu sítrónu í tvennt og nuddaðu henni yfir skurðbrettið og þrífðu brettið svo eins og þú gerir venjulega. Sniðugt er að hella sítrónusafa niður niðurfallið til að fríska upp á það og losna við óþef.

3. Jurtasápa (e. Castile soap)
Jurtasápa er náttúruleg sápa úr ólífuolíu og natríumhýdroxíði, sem er einnig þekkt sem vítissódi. Sápan er mild en skilar þó góðum árangri. Hægt er að bæta jurtasápu við heimatilbúnu hreinsiefnin til að auka virknina enn frekar. Einnig er hægt að bæta nokkrum dropum af fljótandi jurtasápu út í heitt vatn til að þrífa eldhúsinnréttingar, eldavélina, gólf eða aðra fleti.

4. Bórax
Bórax er ein af náttúrulegum uppsprettum af frumefninu bór og er efnasamband natríums, bórs, súrefnis og vatns. Margir nota bórax til að auka virkni þvottaefnis en bórax eitt og sér virkar vel við sótthreinsun. Sniðugt er að nota bórax til að hreinsa klósett og vaska í staðinn fyrir önnur hreinsiefni. Þú getur búið til þína eigin útgáfu af hreinsiefni sem inniheldur bórax, heitt vatn og jurtasápu.

5. Tea Tree Olía
Tea Tree olía hreinsar vel og sótthreinsar. Einfaldlega blandaðu örfáum dropum af olíunni í heitt vatn. Sniðugt er að setja blönduna í spreybrúsa og þá ertu komin með alhliða hreinsi.

Grafík: Marmari og sítróna, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsóttir ©Náttúran.is.

Birt:
14. febrúar 2012
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Gleymdu klórnum og öðrum ónáttúrulegum hreinsiefnum!“, Náttúran.is: 14. febrúar 2012 URL: http://nature.is/d/2011/09/20/gleymdu-klornum-og-odrum-hreinsiefnum-notadu-nattu/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. september 2011
breytt: 6. apríl 2012

Skilaboð: