Framtíðarlandið opnar nýjan vef með nýju Náttúrukorti
Ísland liggur nú á teikniborði Alþingis með tilkomu 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Áttatíu virkjunarhugmyndir eru uppi, velflestar á svæðum sem eru einstök fyrir stórbrotið landslag og náttúrufegurð. Framtíðarlandið blandar sér í þessa umræðu með því að setja nýjan vef í loftið með Náttúrukortið í forgrunni. Þar geturðu flogið yfir landið til að átta þig á heildarmyndinni, skoðað einstaka svæði, fræðst um verðmæti þeirra og þau áhrif sem virkjanir hefðu.
Ný Facebook - síða Framtíðarlandsins hefur verið opnuð, þar sem nýjustu fréttir verða birtar og gefur félögum Framtíðarlandsins tækifæri til að skiptast á skoðunum.
Félagasamtök eins og Framtíðarlandið skipta miklu máli á tímum sem þessum. Nú þegar stjórnmál, atriði stjórnskipunar og pólitísk menning á Íslandi eru tekin til gagngerrar endurskoðunar er brýnt að félagasamtök og borgarahópar láti að sér kveða. Framtíðarlandið er vettvangur samfélagslegrar nýsköpunar þar sem félagar hafa samráð um knýjandi mál, hugmyndir og aðgerðir.
Það eru engin félagsgjöld í Framtíðarlandinu en kallað eftir frjálsum framlögum í ákveðin verkefni.
Í stjórn Framtíðarlandsins sitja: Andri Snær Magnason, rithöfundur, Birta Bjargardóttir, dýrafræðingur og vísindamiðlari, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður og lektor við HÍ, Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti verkfræði- og raunvísindasviðs HÍ, Lárus Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri, María Ellingsen, leikari, leikstjóri, höfundur og kennari, Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður, Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við HÍ og Þröstur Sverrisson, umhverfissagnfræðingur.
Vinnum saman að því að gera Ísland að Framtíðarlandi!
Birt:
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Framtíðarlandið opnar nýjan vef með nýju Náttúrukorti“, Náttúran.is: Feb. 10, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/02/10/framtidarlandid-opnar-nyjan-vef-med-nyju-natturuko/ [Skoðað:Nov. 8, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.