Reglugerð um merkingar erfðabreyttra matvæla og fóðurs er langþráð réttarbót sem verður öllum landsmönnum, atvinnulífi þeirra og heilbrigði til heilla.

Íslendingum er ekki alltaf sýnt um lög og reglur og því er fréttnæmt þegar sett er reglugerð sem sannarlega er öllum borgurum landsins til hagsbóta. Frá og með 1. janúar nýtur þjóðin þess að reglugerð um merkingar erfðabreyttra matvæla (og fóðurs) hefur að fullu tekið gildi. Ástæða er til að þakka núverandi ríkisstjórn – og einkum fráfarandi landbúnaðarráðherra – fyrir að koma þessu langþráða máli í höfn, því reglugerðin mun stuðla að verndun umhverfis, landbúnaðar og heilsufars neytenda. Hún mun bæta skilyrði landbúnaðar til útflutnings og mun að líkindum til lengri tíma litið spara heilbrigðisþjónustunni ómældar fjárhæðir.

Merkingarreglugerðin mun ekki hafa neikvæð áhrif í för með sér fyrir innflytjendur, smásöluverslanir eða neytendur, heldur þvert á móti. Innflytjendur sem vilja bjóða upp á bandarískar vörur geta einfaldlega aflað þeirra frá 27 ríkjum ESB eða 24 öðrum ríkjum þar sem erfðabreytt matvæli eru merkt. Til dæmis er Kellogs-kornflex frá Bandaríkjunum (BNA) eða Kanada að líkindum framleitt úr Bt-maís og selt án merkinga, þar sem hvorugt ríkið krefst þess. Kellogs-kornflex framleitt í Evrópu er hins vegar ekki framleitt úr erfðabreyttum maís. Hið sama á við um önnur vinsæl bandarísk matvæli, s.s. morgunkorn, kökur og kex, tómatsósu og grillsósur – sem nær allra má afla frá Evrópu, framleiddra þar undir þekktum bandarískum vörumerkjum.

Matvælasalar þurfa ekki að taka á sig aukinn kostnað vegna nýrra merkingareglna, því ef þeir kaupa frá löndum sem merkja erfðabreytt matvæli er frekari vörumerkinga ekki þörf. Og valkostum neytenda fækkar ekki, því flest bandarísk matvæli eru fáanleg frá löndum sem merkja erfðabreytt matvæli. Það er rétt að í sumum tilvikum eru matvæli innflutt beint frá BNA ódýrari en sömu vörumerki innflutt frá Evrópu. En orsakir þess eru m.a. að BNA reyna að koma erfðabreyttum matvælum, sem evrópskir neytendur vilja ekki kaupa, á hvern þann markað annan sem hafa vill. Íslenskum neytendum verður ekki talin trú um að erfðabreytt bandarísk matvæli á niðursettu verði, sem vafi leikur á um í ljósi vísindarannsókna hvort teljist örugg fyrir heilsu okkar, séu vildarkjör.

Það er viturlegt af Íslendingum að láta merkja erfðabreytt matvæli, en einnig er mikilvægt að átta sig á því að framtíðin felst ekki í framleiðslu slíkra matvæla, þótt líftækniiðnaðurinn haldi öðru fram. Gögn um heimsframleiðslu þeirra á árinu 2010 sýna að aðeins 3% landbúnaðarlands (148 m ha) voru notuð til ræktunar erfðabreyttra plantna. Nær 80% af þessu svæði var í 3 löndum, BNA (45%), Brasilíu og Argentínu. Í Evrópu er ræktun erfðabreyttra plantna mjög lítil, hefur á síðustu 3 árum minnkað um tæpan fjórðung, dróst t.d. saman um 13% árið 2010 og nam þá einungis 0,06% af landbúnaðarlandi álfunnar. Spánn er eina Evrópulandið sem ræktað hefur erfðabreyttar plöntur (Bt-maís) í verulegum mæli en þar minnkaði framleiðslan árið 2010 um 15%.

Hreyfing gegn ræktun erfðabreyttra afurða hefur nú náð öflugri fótfestu meðal 40 þjóða. Í árslok 2010 höfðu nær 300 héruð eða fylki, 4700 sveitarfélög og ríflega 31 þúsund landeigendur lýst svæði sín án erfðabreyttra lífvera. Í Sviss er í gildi bann við ræktun erfðabreyttra plantna til ársins 2013. Á liðnu ári var sett bann við ræktun í Kína til 5 ára og í Perú til 10 ára.

Bann Kínverja er athyglisvert því líftækniiðnaðurinn hefur lengi látið sem öll lönd verði að taka upp ræktun erfðabreyttra plantna þar sem Kína hafi eða muni gera það. Í Evrópu eru erfðabreytt matvæli enn á undanhaldi. Innan ESB er einungis leyft að rækta tvær tegundir erfðabreyttra nytjaplantna, Bt-maísyrkið MON810 frá Monsanto og kartöfluyrkið Amflora frá BASF. MON810 er nú bannað í Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Ungverjalandi, Grikklandi, Lúxemborg, Póllandi og Rúmeníu. Ungverjaland – með stuðningi Austurríkis, Lúxemborgar, Póllands og Frakklands – hefur kært leyfisveitingu ESB á Amflora-kartöflum til Evrópudómstólsins.

Jafnvel Bandaríkin – móðurland erfðabreyttra matvæla – endurmeta nú stefnu sína í málefnum erfðabreyttra matvæla, en 14 sambandsríki ræða nú í alvöru þann kost að taka upp merkingar á erfðabreyttum matvælum. Fyrir skömmu gekk fjöldi baráttumanna 313 mílur frá New York til Hvíta hússins til að krefjast slíkra merkinga. Árið 2004 lýsti Mendocino-fylki í Kaliforníuríki sig svæði án erfðabreyttra lífvera. Kaliforníubúar safna nú 700.000 undirskriftum við kröfu um að kosið verði í ríkinu um merkingar erfðabreyttra matvæla. Þá má geta þess að í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur frumvarp um bann við útiræktun erfðabreyttra lyfja- og iðnaðarplantna í BNA verið lagt fram.

Hafa ber í huga að ekki hefur verið sýnt fram á öryggi erfðabreyttra afurða til neyslu manna og búfjár. Það er því gríðarlega mikilvægt að neytendur fái frelsi til að velja við innkaup á matvælum til heimila sinna og sömuleiðis að bændur hafi frelsi við val á fóðri í skepnur sínar. Ástæður stjórnvalda til að lögfesta merkingarskyldu á erfðabreyttum matvælum og fóðri eru óumdeilanlegar og rökréttar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns.

Samklippa: Guðrún A. Tryggvadóttir

Birt:
14. janúar 2012
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Reglugerð sem er þjóðinni til heilla“, Náttúran.is: 14. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/14/reglugerd-sem-er-thjodinni-til-heilla/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. janúar 2012

Skilaboð: