Pálsmessa
Hún er 25. janúar, og þann dag á Sál frá Tarsus að hafa mætt Jesú Kristi á veginum til Damaskus, snúist til trúar á hann og hætt að ofsækja kristna menn. Eftir það verður hann Páll postuli. Þessi sinnaskipti Páls hafa löngum þótt draga nokkurn dilk á eftir sér bæði í náttúrunni sjálfri og hugarfari manna. Reyndar er það svo, að um þetta leyti er veturinn víða talinn hálfnaður og því heldur von á veðurbreytingum nálægt Pálsmessu. Hér á landi hefur veðrið á Pálsmessu verið talið marktækt fyrir veðurfar næstu vikna. Sólskin og heiðríkt veður á þessum degi boðar frjósama tíma, en sé þykkbiðri eða snjókoma má búast við harðri veðráttu. Um það vitna þessar vísur, sem þekktar eru í mörgum tilbrigðum víða um land:
Ef heiðbjart er og himinn klár á helga Pálus messu mun þá verða mjög gott ár mark skal hafa á þessu En ef þoka Óðins kvon á þeim degi byrgir fjármissi og fellis von forsjáll bóndinn syrgir. Dagurinn þótti líka viðsjárverður í ástamálum og hætt við að elskendum snerist þá hugur og ekki endilega til góðs eins og Páli. Einn siður hefur verið nokkuð þekktur sumstaðar hér á landi, en hann er sá að gefa hrafninum sérstaklega vel á Pálsmessu. Átti hann þá ekki að leggjast á lömb bóndans að vori. Að vísu var alsiða að gefa bæjarhröfnunum öðru hverju einhvern hroða í mannúðarskyni og samkvæmt kenningunni „Guð borgar fyrir hrafninn“. En á Pálsmessu fengu þeir betur úti látið en endranær. E.t.v. gat hann þá frekar látið vera að ofsækja lömbin eins og Páll að hundelta guðslömbin.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Pálsmessa“, Náttúran.is: 25. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/plsmessa/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 6. janúar 2013