Geisladagur
Svo er 13. janúar nefndur í almanaki, og eru um hann miklu eldri heimildir en eldbjargarmessu eða þegar í Sturlungu og Biskupssögum. Hinsvegar er mjög óljóst, hvernig á nafninu stendur, því að samsvarandi heiti dagsins er ekki að finna í nálægum löndum. Á máli kirkjunnar var þetta dagur heilags Hilaríusar. Dýrlingar voru að vísu stundum nefndir geislar á íslensku, en vandséð er, hversvegna dagur Hilaríusar hefði átt að hljóta slíkt nafn öðrum fremur. Verið getur, að hér sé skírskotað til Bethlehemsstjörnunnar, sem vitringarnar frá Austurlöndum sáu.
Katólska kirkjan ákvað á sínum tíma, að sá viðburður hefði orðið 6. janúar, sem á latínu var þá kallaður “festum luminarium”, sem vel mátti þýða með orðinu geisladagur. Var í því sambandi oft sýndur helgileikur í kirkjum, „hátíð stjörnunnar“. Dagsetningin hefði síðan getað færst til um eina viku, þar sem 6. janúar fékk annað þekktara nafn, Epiphania, þ.e. opinberun, auk þess að heita þrettándi dagur jóla. Nokkur tilhneiging virðist nefnilega hafa verið til þess að framlengja jólahátíðina um eina viku.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Geisladagur“, Náttúran.is: 13. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/geisladagur/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 6. janúar 2013