Ómar Ragnarsson flaug yfir Hellisheiðarvirkjun í liðinni viku og tók mynd af nýrri tjörn sem hefur myndast skammt frá virkjuninni. Grunsemdir vöknuðu um að svokallað affallsvatn frá virkjuninni hefði safnast þarna fyrir, en samkvæmt starfsleyfi á Orkuveita Reykjavíkur að dæla vatninu niður í a.m.k. 800 djúpar holur vegna hugsanlegra mengandi áhrifa affallsvatns á grunnvatn og til að koma í veg fyrir myndun lóns með miklu magni mengunarefna.

Fréttastofa RÚV sagði frá nýju tjörninni þann 18. maí og ræddi við deildarstjóra rannsókna hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Að sögn RÚV fullyrti hann að vatnið sem myndaði tjörnina kæmi ekki frá Hellisheiðarvirkjun. Líklega væri um leysingavatn að ræða, eða þá vatn frá heitum uppsprettum í Sleggjubeinsdal fyrir ofan virkjunina.

Ómar Ragnarsson tók þessu greinilega ekki trúanlega og leitaði sjálfur uppsprettu þessa vatns og hafði fréttamann RÚV með í för. Kom þá í ljós að stór hluti vatnsins sem myndar tjörnina kom sannanlega frá virkjuninni. RÚV bar þetta undir umhverfisstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í kvöld sem sagði: ,,Vatnið er að koma frá blásandi borholu sem er inni í Sleggjubeinsskarði og þetta er hola sem við erum að nýta núna tímabundið í tilraunaverkefni."

Orkuveita Reykjavíkur veitti fjölmiðli rangar upplýsingar um mál er varðar losun mengandi efna og mögulega mengun grunnvatns. Til að bíta höfuðið af skömminni þá leiðrétti fyrirtækið ekki þessa rangfærslu fyrr en að áhugasamur einstaklingur hafði sýnt fram á það með óvéfengjanlegum hætti að vatnið bærist frá vinnslusvæði Orkuveitunnar. Fyrirtækið sagði sem sagt ekki sannleikann um mál er varðar almannahag fyrr en það neyddist til þess.

Framkoma Orkuveitu Reykjavíkur í þessu máli hlýtur að hafa afleiðinar, annars er trúverðugleika fyrirtækisins endanlega fórnað. Axli stjórn Orkuveitunnar ekki ábyrgð á þessari framkomu við almenning með einhverjum hætti þá hljóta spjótin að beinast að þeim borgarfulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins sem hana skipuðu.

Ljósmynd: Tjarnir á Hellisheiði, myndin er tekin af Ómari Ragnarssyni þ. 11. maí sl.

Birt:
24. maí 2012
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Orkuveitan neydd til að segja satt“, Náttúran.is: 24. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/24/orkuveitan-neydd-til-ad-segja-satt/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: