Á bæjarráðsfundi í Hveragerðis nú í morgun var lögð fram greinargerð (sjá greinargerðina) um forsendur og álitamál vegna fyrirhugaðrar ræktunar erfðabreyttra lífvera að Reykjum í Ölfusi og hún tekin til umfjöllunar.

Ennfremur var lögð fram skýrsla unnin af „Kynningarátaki um erfðabreyttar lífverur“ en að því standa Landvernd, Matvæla- og veitingafélag Íslands, Náttúrulækningafélag Íslands, Neytendasamtökin, Slow food Reykjavík og Vottunarstofan Tún.

Bæjarráð undrast það að ekki skuli hafa verið leitað álits Hveragerðisbæjar við útgáfu starfsleyfis til handa Orf líftækni að Reykjum og telur að skilyrðislaust hefði átt að kynna þetta mál fyrir bæjarstjórn eða á opnum fundi með íbúum. Þrátt fyrir að Reykir tilheyri sveitarfélaginu Ölfusi, stjórnsýslulega séð,  þá eru landfræðilegar aðstæður með þeim hætti að allt sem þar gerist hefur áhrif í Hveragerði enda eru ekki nema 150 metrar frá umræddu tilraunagróðurhúsi í næsta íbúðarhús bæjarins og um 350 metrar í miðbæinn. Þessi staðreynd ein og sér ætti að nægja til að Hvergerðingum yrði kynnt hvernig starfsemi Orf líftækni á að fara fram. Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með hlutaðeigandi aðilum sem skýrt getur þau sjónarmið sem búa að baki umræddri leyfisveitingu.

Sjá frétt um bókun bæjarráðs á hveragerdi.is.

Birt:
5. janúar 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bókun bæjarráðs Hveragerðis frá því í morgun“, Náttúran.is: 5. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/05/bokun-baejarrads-hveragerdis-fra-thvi-i-morgun/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. janúar 2012

Skilaboð: